Laxdæla saga

113 33. Fráfall Þorkels Eyjólfssonar Þorkell settist nú að á Helgafelli og tók þar við búi. Ástir takast miklar með þeim Guðrúnu. Vorið eftir spurði Guðrún Þorkel hvað hann ætlaði að gera fyrir Gunnar Þiðrandabana. Þorkell sagði að hún mundi ráða því. Guðrún sagðist þá vilja að hann gæfi Gunnari skip sitt. Þorkell svarar og brosti við: „Eigi er þér lítið í hug um margt, Guðrún,“ segir hann, „og er þér eigi hent að eiga vesalmenni. Skal þetta gera eftir þínum vilja.“ Síðan gaf hann Gunnari skipið, og sigldi hann til Noregs og varð stórauðugur maður og þótti góður drengur. Þegar Bolli Bollason var átján vetra gamall bað hann Þorkel og Guðrúnu að leysa út föðurarf sinn og biðja handa sér konu. Þorkell spurði hvaða konu hann vildi biðja en Bolli svaraði að hann vildi eignast Þórdísi, dóttur Snorra goða. Varð það að ráði og settist Bolli að í Sælingsdalstungu hjá Snorra. Um sumarið eftir sættust þeir bræður við syni Ólafs Höskuldssonar fyrir víg Bolla föður síns og greiddu Ólafssynir bætur fyrir hann. Eftir það fóru þeir bræður báðir til Noregs og komst Bolli alla leið til Miklagarðs og gekk í lið keisara. Sumar eitt bjó Þorkell Eyjólfsson skip til Noregs og vildi kaupa sér við í kirkju. Áður en hann fór er sagt að hann hafi sagt Guðrúnu draum sinn: „Það dreymdi mig,“ segir hann, „að ég þóttist eiga skegg svo mikið að tæki um allan Breiðafjörð.“ Þorkell bað hana ráða drauminn. Guðrún spurði: „Hvað ætlar þú þennan draum þýða?“ „Auðsætt þykir mér það, að þar mun standa ríki mitt um allan Breiðafjörð.“

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=