Laxdæla saga

„Vera má að svo sé,“ segir Guðrún. „En heldur mundi ég ætla að þar mundir þú drepa skeggi í Breiðafjörð niður.“ Þorkell sigldi til Noregs og hitti Ólaf konung Haraldsson. Veturinn eftir lét konungur gera kirkju í Niðarósi, mikið hús og vandað. Um vorið lofaði hann að gefa Þorkatli við í kirkju sína. Það var einn morgun snemma að konungur sá mann uppi á kirkju þeirri er hann hafði í smíðum. Hann undraðist þetta, því að smiðir hans voru ekki vanir að fara til vinnu svo snemma. Þegar konungur gætti betur að var þar kominn Þorkell Eyjólfsson og mældi öll stærstu tré í kirkjunni. Konungur sneri sér til Þorkels og spurði hvort hann ætlaði að flytja við í svo stóra kirkju heim til Íslands. Þorkell sagðist ætla að gera það. Þá mælti konungur: „Högg þú tvær álnir af hverju tré og mun sú kirkja þó mest á Íslandi.“ Þorkell svarar: „Tak sjálfur við þinn ef þú þykist ofgefið hafa en ég mun afla mér annars viðar.“ Konungur svaraði að víst væri það ofsi einum bóndasyni að keppast við sig. Ekki sagðist hann þó sjá eftir viðnum. „En nær er það mínu hugboði að menn hafi litla nytsemd viðar þessa, og munir þú aldrei gera neitt mannvirki úr viðnum.“ Eftir það skilja þeir. Stígur Þorkell á skipsfjöl og lætur í haf. Hann kom skipi sínu í Hrútafjörð og reið suður að Helgafelli. Veturinn eftir fór Þorkell norður í Hrútafjörð að sækja kirkjuvið sinn. Hann lét draga timbrið á tuttugu hestum suður í Hvammsfjarðarbotn og ætlaði að flytja það á ferju út að Helgafelli. 114

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=