Laxdæla saga

100 Um nóttina eftir gátu bræðurnir ekki sofið. Þorgils Hölluson lá í skálanum hjá þeim og varð var við að þeir vöktu. Hann spurði þá hvers vegna þeir svæfu ekki. Þeir segja honum frá samtali þeirra mæðgina og segjast nú ekki lengur geta borið harm sinn eða eggjanir móður sinnar. Daginn eftir tóku þau tal saman, Guðrún og Þorgils Hölluson. Guðrún sagðist halda að synir sínir þyldu ekki lengur að láta föður síns óhefnt. Þorgils svaraði að ekki þyrfti að ræða þetta við sig ef Guðrún vildi ekki giftast sér. Ef hún vildi það yxi sér ekki í augum að drepa einhvern þeirra sem gengu mest fram í vígi Bolla. Guðrún svaraði að sveinarnir, synir sínir, vildu fara að Helga Harðbeinssyni, þar sem hann sæti að búi sínu í Skorradal. Þorgils svaraði: „Aldrei hirði ég hvort hann heitir Helgi eða öðru nafni, því að hvorki þykir mér ofurefli að eiga við Helga eða nokkurn annan.“ En allt væri þetta komið undir því að hún héti því með vottum að giftast sér. Þá lét Guðrún kalla til syni sína og einn mann til viðbótar. Hún sagði þeim að Þorgils hefði heitið því að gerast fyrirmaður aðfarar að Helga Harðbeinssyni með sonum sínum, með því skilyrði að hún giftist honum. „Nú skírskota ég því við vitni ykkar,“ sagði hún, „að ég heiti Þorgilsi að giftast engum manni öðrum samlendum en honum en ég ætla ekki að giftast í önnur lönd.“ Þorgilsi fannst þetta nógu tryggt loforð. Bjuggust þeir nú til ferðar frá Helgafelli, Þorgils og synir Guðrúnar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=