Blönduð tækni

Blönduð tækni er fremur einföld í framkvæmd en getur samt sem áður orðið erfið viðureignar þegar á hólminn er komið. Hún felst í því að setja saman t.d. myndir og hljóð og láta áhorfendur/áheyrendur um að tengja efnið saman.
Blönduð tækni er upprunnin í kvikmyndum en var fljótlega líka notuð í útvarpi. Nú er henni oft beitt í rafrænum miðlum, m.a. á netinu og á tölvudiskum.

Blönduð tækni er markvisst notuð til að vekja tilfinningar og hugmyndir áhorfenda.

Lestu meira í kaflanum hér fyrir neðan.

Verkefni

Eftir Lars Onslev

Blönduð tækni

[Kynning]
Blönduð tækni er fremur einföld í framkvæmd en getur samt sem áður orðið erfið viðureignar þegar á hólminn er komið. Hún felst í því að setja saman t.d. myndir og hljóð og láta áhorfendur/áheyrendur um að tengja efnið saman.
Blönduð tækni er upprunnin í kvikmyndum en var fljótlega líka notuð í útvarpi. Nú er henni oft beitt í rafrænum miðlum, m.a. á netinu og á tölvudiskum.

Blönduð tækni er markvisst notuð til að vekja tilfinningar og hugmyndir áhorfenda.

Efni sem búið er til með blandaðri tækni er oft magnað og þrungið tilfinningu. Algengt er að sýna áhorfendum tvær myndir hvora strax á eftir annarri t.d. mynd af líkkistu og svo strax á eftir mynd af svipbrigðalausu mannsandliti. Ósjálfrátt myndum við álykta að maðurinn væri hryggur af því að myndin af kistunni kallar þá tilfinningu fram í huga okkar. Ef við sýndum mynd af börnum að leik og síðan sama sviplausa andlit myndum við líklega líta svo á að andlitið væri glaðlegt.

Annað dæmi gæti átt við myndir af flokksþingi stjórnmálaflokks og svo strax á eftir mynd af visnuðum blómvendi. Sennilega væru ekki margir í vafa um að flokksþingið hefði verið heldur lítilfjörlegt.

Í útvarpi er dagskrá sem gerð er með blandaðri tækni líka beint að hughrifum, þ.e. sambland af leik, hljóðum, texta o.s.frv. Sá sem býr dagskrána til (dagskrárgerðarmaðurinn) er ekki nálægur. Athugasemdir hans koma ekki beint fram en birtast hins vegar í því hvernig hann tengir hljóðin og hvaða hljóðgerfla hann notar (byssuskot, þyt í laufi, marrandi hurðir o.s.frv.)

Styrkur blandaðrar tækni felst í því að hún byggist á skynjun áheyranda/áhorfanda sjálfra og dagskrárgerðarmaðurinn þarf ekkert að segja beint. Áheyrendur/áhorfendur eru þátttakendur í verkinu.

[Dæmi]
Finndu dæmi um blandaða tækni í útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum, vikublöðum eða á netinu.

Skrifaðu hjá þér athugasemdir.
Hvar fannstu efnið? Hver bjó það til? Hvernig áhrif hafði það á þig?

Heldur þú að viðbrögð þín hafi verið í samræmi við það sem höfundurinn gerði ráð fyrir? Af hverju - af hverju ekki?

Þú getur borið saman efni unnið með blandaðri tækni sem hefur kallað fram ýmis hughrif hjá þér (pirring/samhygð/hræðslu/gleði) og reynt að átta þig á því hvað það var sem skapaði hughrifin (hljóð, myndir, blöndun hljóðs og mynda, tengingar o.s.frv.) og af hverju.

[Efni og uppbygging]
Í verkum sem unnin eru með samblöndunartækni er leitast við að gera áheyrendur/áhorfendur að þátttakendum og vekja tilfinningar þeirra og hugsanir.

Dagskrárgerðarmaðurinn hverfur í skuggann í verkum sem unnin eru með blandaðri tækni en áhorfendur/áheyrendur eru í fyrirrúmi.

Verk sem unnin eru með blandaðri tækni eru tilfinningaþrungin.

Beita má ýmsum aðferðum þegar einhverju er lýst með blandaðri tækni:

- Beita andstæðum (byssuskot - lítil stúlka að leika sér).

- Beita endurtekningum sem grafa sig inn í meðvitund áhorfenda/áheyrenda.

- Nota marga miðla.

- Kalla fram fordóma með því að nota vel þekktar myndir/hljóð - sem búið er að breyta örlítið.

- Ýkja - eða gera lítið úr einhverju ( en það er vandmeðfarið!)

- Hugleiddu fleiri leiðir og æskileg eða óæskileg markmið.

Þú getur stuðst við þennan lista og skrifað hjá þér minnisatriði fyrir gagnrýnina eða þú getur skrifað beint inn í ritvinnsluforritið. Þá getur þú haft tvo glugga á skjánum þegar þú ferð að vinna verkið og afritað beint það sem þú hefur skrifað.

[Hugmyndir og efni]

- Safnaðu efni úr þeim fjölmiðlum sem þú hefur ákveðið að nota (bútum af útvarps- og myndbandsefni, myndum úr dagblöðum og vikublöðum, efni af netinu o.s.frv.)
- Búðu til efni. Þú getur tekið upp hljóð, t.d. marr í hurð, tekið mynd af glaðlegu barni o.s.frv. Þú þarft að hugsa vandlega um hvað þú ert að gera og prófa ýmsa möguleika. Einu sinni þegar verið var að taka upp leikrit þurfti að nota sjávarhljóð. Hljóðupptökur voru gerðar á meira en eitt hundrað stöðum við sjávarsíðuna, en engin þeirra gaf rétt sjávarhljóð til kynna þegar til kom. Í örvinglun sinni reyndu hljóðmennirnir að setja hljóðnemann ofan í salerni (en bleyttu hann samt ekki) og sturtuðu niður. Þegar búið var að snyrta hljóðbandið kom í ljós að á þessum bút var einmitt sjávarhljóðið sem verið var að reyna að ná fram!

- Sjáðu til þess að þú hafir til umráða meira efni en þú þarft að nota. Oft koma upp nýjar hugmyndir á meðan verið er að fást við efnið.
- Flokkaðu efnið og haltu þig við þau markmið sem þú hefur einsett þér að ná. Mundu að dagskrárgerðarmaður þarf oft að vera kaldur og útsjónarsamur.

- Byrjaðu að undirbúa efnið með tilliti til þess fjölmiðils sem þú ætlar að nota og hafðu allan tímann opin augu fyrir nýjum áhrifum (en haltu líka fast við markmið þitt og tímaramma verksins).


[Verkefni þitt]
Hér koma nokkrar hugmyndir um það hvernig þú getur búið til efni með blandaðri tækni:
Það er enginn vafi á því að höfundar efnis af þessi tagi eru oft hörkutól sem markvisst reyna að ná fram ákveðnum hughrifum hjá áheyrendum/áhorfendum. Það skalt þú líka reyna að vera. Veldu þér umfjöllunarefni og taktu síðan ákvörðun um hvaða hughrif þú ætlar að kalla fram, stefndu markvisst að því að ná einmitt þeim hughrifum. Þess vegna skaltu búa til uppkast til að vinna eftir. Gefðu sérstakan gaum að öllum tengingum og samsetningum!

Næst skaltu velja þér miðil:
- hljóð (upptökutæki)
- veggspjald
- kvikmynd (myndbandsupptökuvél)
- heimasíða
- margmiðlunarsýning (spurðu kennarann þinn hvort til sé í skólanum forrit sem hægt er að nota við slíkt, t.d. Margmiðlunarsmiðjan eða „PowerPoint“ - ef svo er ekki er hægt að notast við gott ritvinnsluforrit.

[Gagnrýni]
- Samsetningarverkefni krefjast markvissra vinnubragða og þar sem verið er að fást við hughrif og tilfinningar er ekki víst að þú/þið séuð sjálf bestu gagnrýnendurnir eða vitið fyrirfram hvað það er sem þið viljið ná fram. Þess vegna skulið þið hafa auga með viðbrögðum annarra á meðan fengist er við verkefnið. Ræðið viðbrögðin. Þið gætuð e.t.v. lagt fyrir spurningakönnun (en látið ekki markmið ykkar koma fram!)

- Munið að samsetning er erfið viðureignar. Höfundurinn verður að vera slunginn bragðarefur og hörkutól. Margskonar tækni getur dregið úr áhrifunum og skapað allt önnur hughrif en þau sem stefnt var að.

- Ræðið tæknina aftur
- Hvernig má breyta því sem þú ert ekki ánægð/ur með?

Gættu þess að skrifa jafnharðan hjá þér hugmyndir og nýjar tillögur, slíkt gleymist fyrr en varir!

[Frágangur]
- Vinnuaðferðin sem hér um ræðir krefst nákvæmni og þess vegna er afar mikilvægt að öll smáatriði séu nákvæmlega útfærð og frágengin. Það eru einmitt oft smáatriðin sem gera gæfumuninn. Rangar samsetningar, stafsetningarvillur, fingraför á fallegri mynd o.þ.h. eyðileggja þau hughrif sem ætlunin var að ná.
- Ræðið uppsetninguna í síðasta sinn og farið yfir verkefnið.

[Birting]
Hvernig ætlar þú að kynna verkefnið:
- Fyrir afmörkuðum hópi sem þú vilt ræða við um það?
- Fyrir öllum bekknum?
- Skipuleggðu sýninguna vandlega. Er nógu mikið hlustunarefni á tækinu eða í tölvunni? Þurfa áhorfendur að fá slóð inn á heimasíðuna? Ef ætlunin er að ræða verkefnið eftir á skulið þið hugleiða hvernig best er að skipuleggja umræðurnar þannig að þær nái tilætluðum árangri.


[Draumsýnin]
Hvernig nýttist ykkur þessi vinnuaðferð? Hverju tókuð þið eftir á meðan á verkefninu stóð? Trúðuð þið að ykkur tækist að ná fram tilætluðum hughrifum?
Hvernig fannst ykkur að ætla frá upphafi að ná fram ákveðnum áhrifum hjá fólki með verkinu?
Endurspeglar verkefnið ykkar „ameríska drauminn“ Ef svo er - hvernig ?