Ævisaga
Ævisaga er frásögn af lífi einhvers - skrifuð af öðrum. Sjálfsævisögu
skrifar viðkomandi sjálf/ur. Ævisaga er oft ítarleg, þ.e. heil bók, en æviágrip eru styttri. Þau eru gjarna í uppsláttarritum eins og ensku bókinni „Who's Who“ eða bókinni „Íslenskir samtíðarmenn“. Til eru margar handbækur með æviágripum fólks í ákveðnum hópum eða starfsgreinum (t.d. Kennaratal og Sjúkraliðatal). |
Eftir Anne Grethe Andersson Ævisaga [Kynning] Ævisaga er frásögn af lífi einhvers - skrifuð af öðrum. Sjálfsævisögu skrifar viðkomandi sjálf/ur. Ævisaga er oft ítarleg, þ.e. heil bók, en æviágrip eru styttri. Þau eru gjarna í uppsláttarritum eins og ensku bókinni „Who's Who“ eða bókinni „Íslenskir samtíðarmenn“. Til eru margar handbækur með æviágripum fólks í ákveðnum hópum eða starfsgreinum (t.d. Kennaratal og Sjúkraliðatal). [Dæmi] Finndu ævisögur/æviágrip í handbókum og uppsláttarritum, t.d. alfræðiritum, kvikmyndahandbókum o.s.frv. Athugaðu hvers konar upplýsingar koma fram í ævisögum og æviágripum t.d. upplýsingar um uppvaxtarár, menntun, starf, fjölskyldu viðkomandi o.fl. Skráðu hjá þér: - Hvers konar upplýsingar koma fram? - Hvaða handbækur/ævisögur eru þetta? - Hvaða fólk er um að ræða? Reyndu auk þessa að finna ævisögu/æviágrip um sama fólk í tveim eða fleiri bókum. Berðu ævisögurnar saman. Frá hverju er sagt og hversu nákvæm er frásögnin? Notaðu dæmin (sem þú skrifaðir hjá þér) þegar þú metur hvaða upplýsingar þú ætlar að láta koma fram í þínum skrifum. [Efni og uppbygging] Ævisaga er lýsing á lífi einstaklings. Í ævisögu koma fram ýmsar upplýsingar um viðkomandi manneskju, þ.e. lýsing á raunverulegum atburðum. Þar er um að ræða atriði sem varða uppvaxtarár, menntun, starfsferil, fjölskyldu o.fl. Í ævisögum koma fram ýmsar upplýsingar s.s. ártöl, nöfn á fólki og staðarnöfn. [Upplýsingaöflun] Hér eru hugmyndir um hvernig þú getur hafist handa: Ákveddu hvern þú ætlar að skrifa um. Leitaðu upplýsinga í bókum, í tímaritum, á netinu o.s.frv. Gakktu úr skugga um að upplýsingarnar séu réttar: - Berðu saman upplýsingarnar sem þú hefur undir höndum. - Ber þeim saman? - Hvaðan eru þær? - Eru heimildirnar sem þú notar áreiðanlegar? Skrifaðu hjá þér minnisatriði um viðkomandi - t.d. með tilliti til þess: - hvers konar upplýsingar þú hefur undir höndum - hvaðan þær eru - hvernig þú metur sannleiksgildi þeirra. [Flokkun efnis] Þú þarft að flokka efnið og setja það fram þannig að lesandinn fái yfirsýn yfir það. Það getur þú m.a. gert með því að velja röð efnisatriða, þ.e.a.s. þú getur raðað efninu: - í tímaröð - eftir mikilvægi - í samræmi við það hversu nákvæmar upplýsingarnar eru. Og svo áttu að skrifa og skrifa! [Yfirlestur] Þú getur e.t.v. lesið ævisöguna sem þú skrifaðir upphátt fyrir einhvern. Ræðið síðan um efnið. Skráðu hjá þér athugasemdir. Hugleiddu uppröðun: - Hvaða áhrif hefur uppröðunin á það hvernig tekst að skapa heildarmynd af viðkomandi? Hugleiddu nákvæmni upplýsinga: - Er of lítið af þeim - eða mikið? - Er of mikið um smáatriði - eða eru upplýsingarnar yfirborðslegar? Rökstyddu val þitt á upplýsingum og heimildum: - Af hverju valdir þú einmitt þessar upplýsingar? [Frágangur] Athugaðu hvort þú þarft að lagfæra eitthvað: Leitaðu frekari upplýsinga ef þess er þörf. Athugaðu hvort þú þarft að gera nákvæmari grein fyrir einhverju sem þegar er komið. Felldu niður það sem er ónauðsynlegt eða misvísandi. Lestu yfir það sem þú hefur skrifað. Athugaðu beinar upplýsingar: Eru t.d. mannanöfn og staðarheiti rétt? - Gættu að því að villuleitarforrit ráða oft ekki við nöfn og fallbeygingu. Er kaflaskipting efnisins eðlileg? - Kemur t.d. greinilega fram hvenær þáttaskil verða á æviferli viðkomandi einstaklings? Er greinamerkjasetning rétt, t.d. í upptalningum? [Birting] Taktu ákvörðun um hvort þú ættir að nota texta, myndir og hljóð við framsetningu efnisins. Hvernig ætlarðu að birta ævisöguna? - Ætlar þú að halda fyrirlestur sem byggist á sögunni? - Ætlar þú að búa til æviágrip í handbók með slíku efni? - Ætlar þú að nota margmiðlunartækni? - Ætlar þú að búa til kynningarbækling? - Ætlar þú að setja efnið fram á heimasíðu? Veldu einhverja þessara hugmynda, sameinaðu einhverjar þeirra eða láttu þér detta eitthvað nýtt í hug. [Draumsýnin] Birtist „ameríski draumurinn“ hjá þeim sem þú skrifaðir um - og þá hvernig? Rættist draumurinn um hið ljúfa líf í lífi hans/hennar - og þá á hvaða hátt? Rættist draumurinn ekki - og þá hvers vegna? Hvert er verðmætamat og lífsviðhorf söguhetjunnar? Tekst þér að varpa ljósi á það í ævisögunni - og ef svo er, hvernig? |