Sagan um Amazanga
„Einu sinni í fyrndinni,“ sagði afi minn, „var undirbúin mikil veisla í þorpi nokkru.
Konurnar bjuggu til leirskálar og chicha-vín, og karlarnir fóru til veiða þrem vikum
fyrir veisluna. Karlarnir voru snjallir veiðimenn. Þeir skutu fugla, hirti og villisvín og þeir
veiddu stóra fiska og krókódíla.
Á hverjum degi drógu þeir heim meiri feng og reyktu við eldinn. Einn mannanna varð að vera heima við til að reykja kjötið og fiskinn á meðan hinir voru á veiðum. En dag nokkurn, á meðan veiðarnar stóðu yfir, kom virðulegur maður að tjaldbúðunum.
Gesturinn var með blástursrör á öxlinni, örvamæli í beltinu og
fjaðrakórónu á höfðinu. Hann sagði hátt og mynduglega:
„Hvers vegna hafið þið drepið allar þessar saklausu sálir? Þið vitið
mæta vel að þetta er þjóð mín.“
Hann safnaði reykta fiskinum saman og henti í vatnið. Reykta kjötinu henti hann inn í
skóginn og þar breyttist það í lifandi dýr.
Maðurinn sem hafði verið að reykja veiðina varð afar hræddur. Hann hreyfði sig
ekki þegar þessi undarlegi gestur tók eitraða ör úr örvamæli sínum.
Örinni stakk hann í allt grænmetið, í maniok-ræturnar, bananana og ölgerðarefnið
og hótaði:
„Þú og vinir þínir hafa nú ekkert að borða því að ég
hef eitrað það allt. Ef þið látið þetta ofan í ykkur deyið
þið. Í kvöld kem ég aftur með her minn og ég mun hegna þeim sem ekki
hlýða mér. Ég er guðinn Amazanga. Ef þú vilt bjarga lífi þínu
skaltu finna þér felustað langt í burtu. Og þú skalt segja hinum allt sem
ég hef nú sagt þér.”
Svo snérist Amazanga á hæli og hvarf inn í þéttan frumskóginn.
Þegar kvöldaði komu karlmennirnir til baka kátir og glaðir með feng dagsins. En brosið stirðnaði á vörum þeirra þegar þeir sáu að allt kjötið var horfið. „Hvar er kjötið okkar - hver hefur stolið því?“
Maðurinn sem gætt hafði kjötsins sagði frá Amazanga. En hinir trúðu honum ekki. Þeir sögðu hann vera letihaug og lygara og kröfðust þess að hann bæri þeim mat og vín. Maðurinn mótmælti og varaði þá við eitraða matnum en þeir trúðu samt ekki orðum hans. Þeir átu og drukku og sofnuðu á meltunni. En varðmaðurinn svaf ekki. Hann beið þess sem verða vildi.
Það fór að rigna, vindurinn gnauðaði, þrumurnar buldu og eldingar lýstu
upp himininn. Vatnið í ánni þyrlaðist upp og freyðandi öldur risu á
vatnsfletinum. Aparnir hvæstu í viðvörunartón, sporðdrekar og hermaurar réðust
á sofandi mennina. Úr djúpi árinnar þrumuðu furðulegar raddir: jurijuri,
juri juriiii… Raddirnar yfirgnæfðu allan annan hávaða.
Varðmaðurinn varð óttasleginn og reyndi að vekja félaga sína. En þeir
sváfu sem fastast. Hann sló til þeirra og brenndi þá með glóðum
úr eldinum, en þeir urðu einskis varir. Hann dró einn þeirra, bróður sinn,
í burtu. Áin flæddi yfir bakka sína og færði þá í kaf.
Maðurinn varð að sleppa bróður sínum og koma sér í skjól. Úr
helli uppi í hlíðinni heyrði hann skelfilegar þrumur. Anakonda-slöngurnar slógu
straumhvirfla í vatnið.
Loks þegar sól reis, velti maðurinn sér óttasleginn fram úr hellinum. Úti var allt breytt. Hann hljóp niður að ánni, en sá hvorki tangur né tetur af tjaldbúðunum eða mönnunum. Áin var aftur komin í sinn gamla farveg og hljótt var í skóginum.
Í örvilnan flýtti hann sér heim til að tala við konurnar, sem biðu þar
frétta af mönnum sínum. Konurnar brugðust skjótt við. Þær vopnuðust
spjótum, muldum chili-pipar, bogum og örvum. Þær tóku börn sín í
fangið og fóru út til að hefna sín. Stígur frá árbakkanum lá
að geysistóru tré sem hafði brotnað niður fyrir mörgum árum. Inni í
holum trjábolnum lá anakonda og svaf. Maginn á slöngunni var útþaninn.
„Þarna er slangan sem át mennina okkar,“ hrópaði ein kvennanna.
Konurnar réðust til atlögu og köstuðu muldum chili-pipar í slönguna. Þær hlóðu bálköst undir trjábolnum og kveiktu í. Reykský steig upp úr trjábolnum og konurnar heyrðu óhugnanlegt brak. Þær biðu með spjót sín á lofti. Svo ultu undarlegar verur út. Eineyg ófreskja, önnur einfætt en með tvö andlit, og enn aðrar eins og venjulegt, svarthært fólk. Sumar verurnar voru eins og villisvín. Flestar féllu þær fyrir spjótum kvennanna.
Allt í einu birtist hái, virðulegi maðurinn í reykskýinu.
„Þarna er hann,“ hrópaði sá sem gætt hafði fengsins. Allir sneru sér að manninum, en hann studdi sig við blástursrörið og stökk upp í tré. Augu hans skutu gneistum, þegar hann talaði til kvennanna:
„Mig drepið þið ekki. Ef þið gerið það fáið þið aldrei meira að borða. Ég er konungur frumskógarins, ég er Amazanga-guðinn, skapari dýranna og fiskanna. Þig getið aðeins veitt dýrin þegar ég sleppi þeim. Ef ég dey, hverfur allt og þið deyið sjálf úr hungri.“
Þegar hann hafði þetta mælt stökk hann inn milli greinanna og hvarf.
Konurnar fóru heim og grétu mennina sína sem voru horfnir. En upp frá þeim
degi sýndi fólkið í frumskóginum virðingu í umgengni sinni við frumskóginn
og hin heilögu vötn, dýrin og jurtirnar. Því
að allir vissu að annars myndi Amazanga sleppa slöngunni lausri og láta hana éta fólkið
upp til agna.“