Námumennirnir og kölski
Útbelgdar kinnar eru einkennandi fyrir námumennina. Kinnar þeirra eru svona af því
að þeir geyma kókamola uppi í sér. Útbelgdar kinnar, svipaðar þessum,
má sjá á leirstyttum sem fornleifafræðingar telja fjögur þúsund
ára gamlar. Það eru fyrstu heimildir um notkun kóka.
Í fjöllum Bólivíu leynast miklar auðlindir. Þegar Spánverjar réðu yfir Suður-Ameríku sóttu þeir mest af silfri sínu til Bólivíu. Síðar þurfti tin í bíla og niðursuðudósir. Og nú á tímum er gull mikilvægasta útflutningsvara Bólivíu.
Sums staðar eru vinnubrögð við námugröftinn eins og á nýlendutímunum. Námumennirnir höggva gat í klöppina með hamri og meitli og sprengja klettana með dínamíti. Vinnan er erfið, svoað þeir leita örvunar með því að tyggja kókamola.
Blöð kóka-runnans bæla hungurtilfinningu svo að mönnum finnst þeir saddir þó þeir hafi ekkert borðað. Auk þess eru í blöðunum vímugjafar, m.a. kókaín. Vímugjafarnir láta líkamann auka framleiðslu rauðra blóðkorna. Áhrifin eru svipuð og þegar hjólreiðamennirnir í Tour de France taka vímuefnið EPO.
http://www.time.com/time/magazine/1998/dom/980810/medicine.le_tour_des_dru12.html.
Hjólreiðamenn og námumenn geta því haldið lengi áfram að reyna á
líkamann án þess að þreytast.
Munurinn er hins vegar sá að hjólreiðamennirnir fá stóran skammt af vímugjafanum
í einu, en námumennirnir lítið magn á löngum tíma.
Námumennirnir færa kölska kókablöð í fórnargjafir, en þeir trúa því að hann ráði ríkjum í námugöngunum. Utan við námurnar hafa þeir jómfrú Maríu í heiðri. En inni fyrir þarf að halda góðu sambandi við kölska, annars er hætt við að menn verði fyrir óhöppum. Ef kölski verður mjög ánægður með fórnargjöfina vísar hann námumönnunum á auðugar málmæðar.