Bráðnar ísinn?

Þegar litið er á þá feikistóru ísfláka sem losnað hafa í sundur á undanförnum árum, virðist mörgum sem þar sé loftslagsbreytingum um að kenna (sjá hér fyrir neðan).
Vitað er að meðalhiti hefur hækkað, einkum við Norður- og Suðurpól. Einnig er vitað að jöklar víðsvegar á jörðinni hafa bráðnað og minnkað á þessari öld. En ekki er að fullu sannað að ísinn á Suðurskautslandinu hafi líka bráðnað í meira mæli. Þvert á móti eru vísbendingar um að ísmagn hafi aukist. Vitað er að yfirborð sjávar hefur hækkað.

Ef loftslagsbreytingar verða til þess að ísinn bráðni á næstu öldum, mun það hafa áhrif um víða veröld. Hins vegar er erfitt að segja nákvæmlega til um hvað gerist.

Vísindamenn eru ekki sammála, en reynið að ræða saman um hvaða afleiðingar þið haldið að þetta gæti haft fyrir afkomendur ykkar.


Loftslagsbreytingar

Ísjaki á stærð við Vestfjarðakjálkann losnaði í október 1998.
Margir tröllauknir ísjakar hafa losnað á undanförnum árum. Þetta þykir mörgum benda til þess að bráðnun aukist á Suðurskautinu. En það eru líka til mælingar sem sýna að bráðnun er næsta lítil. Það sem hægt er að verða sammála um er:


Hærra hitastig hefur í för með sér ýmsar breytingar. Sumar þeirra eru vísindamenn sammála um, m.a. vegna þess að afleiðingarnar má sjá nú þegar. Hins vegar eru menn ekki sammála um langtímaáhrif slíkra breytinga.

Sumir telja að hærra hitastig verði til þess að uppgufun verði meiri og að úrkoma aukist - líka þannig að meira snjói við skaut jarðar þar sem úrkoman binst aftur. Þetta er flókið mál og margar mismunandi kenningar eru uppi, því að enginn getur alveg séð fyrir hvað muni gerast.


Er hægt að nýta ísinn?
Ísinn á Suðurskautslandinu hefur að geyma um 70% af ferskvatnsbirgðum jarðarinnar, en í mörgum löndum er hræðilegur skortur á fersku vatni.
Eitt þessara landa er Sádi-Arabía. Þar hefur verið varið óhemjumiklum fjármunum til að framleiða ferskt vatn með því að taka seltuna úr sjó. Ódýrari lausn gæti verið að flytja þangað risastóra ísjaka.


Sú hugmynd hefur sennilega orðið að engu vegna ýmissa örðugleika sem henni tengjast.

Hvaða vandamál heldur þú að skjóti upp kollinum ef flytja á ísjaka til Sádi-Arabíu?


Ísinn gefur vísbendingar um loftslagsbreytingar
Á Suðurskautslandinu eru breytingar á loftslagi rannsakaðar mörg þúsund ár aftur í tímann. Það er líka hægt að gera á Grænlandi þar sem einnig er ævaforn jökulbreiða. Loftslagsfræðingar taka borkjarna úr ísnum. Í gömlum ís er loft sem hefur lokast inni í honum þegar hann myndaðist. Loftið getur gefið til kynna hvernig loftslag var þá.



Úr ískjarna má lesa ýmsar upplýsingar um loftslag
Í íslagi hvers árs um sig eru litlar loftbólur sem hafa lokast inni í ísnum þegar hann myndaðist. Hægt er að mæla mettun CO2 í loftbólunum. Mikilvægast er að hægt er að mæla súrefnissamsætuna 18O, sem gefur til kynna við hvaða hitastig ískristallarnir mynduðust.

Í ísnum eru líka rykkorn, saltkristallar og frjókorn sem gætu hafa borist með vindi langt að. Það gefur til kynna hve langt frá hafi og grónum svæðum ísinn myndaðist.

Sums staðar er ísinn mettaður af sýrum, en það er merki um eldgos. Þegar tekið er mið af þessum mælingum er hægt að sanna hvernig loftslagið hefur breyst á löngu tímabili.

Það sýnir sig að loftslagið breytist ekki aðeins á löngum tíma, heldur verða líka breytingar á stuttum tímabilum. Það er ein af ástæðum þess að erfitt getur verið að ákvarða áhrif mannsins á loftslagsbreytingar. Margt bendir þó til þess að m.a. of mikið magn CO2 og mengun af öðrum efnum í andrúmsloftinu stuðli a.m.k. að loftslagsbreytingum.

Þú getur kynnt þér meira um loftslagsbreytingar (hér fyrir ofan)
Lestu líka um gróðurhúsaáhrifin