Allah
Allah er guð múslima.
Stærð hans er ofviða skilningi manna og þess vegna er forboðið að endurskapa mynd
hans. Allah er náðarríkur og gjafmildur leiðtogi. Hann ríkir yfir öllu á
himni og jörðu.
Allah á sér mörg nöfn og marga eiginleika. Hann er almáttugur,
alvitur, réttlátur og miskunnsamur. Í Kóraninum er hann nefndur 99 nöfnum en máttugasta
nafn hans, hundraðasta nafnið, þekkir enginn.
Allah er almáttugur og þess vegna óttast múslimar hann. En ótti
þeirra er blandinn virðingu fyrir því sem er svo óendanlega miklu mikilfenglegra
en maðurinn er sjálfur. Það er heilagur ótti, ekki hræðsla eða geigur.
Allah er kærleiksríkur guð. Miskunnsemi hans er nefnd 192 sinnum í Kóraninum en
reiði hans aðeins 17 sinnum.
Bókstafstrúaðir
múslimar
Sumir múslimar fylgja orðum
Kóransins út í hörgul og tryggja að aðrir múslimar geri það
líka. Þeir berjast gegn vestrænum áhrifum í löndum múslima, oft með
blóðugum hryðjuverkum. Á 20. öld hafa bókstafstrúaðir múslimar
verið mest áberandi í Alsír, Egyptalandi og Afganistan. Í Afganistan og Íran
eru bókstafstrúaðir múslimaprestar við völd. Þeir líta á
hryðjuverk sín sem heilagt stríð.
Bænin
Bænin er önnur í
röðinni af stoðunum fimm, frumskyldum múslima. Múslimi biður til að þakka
gæsku Allah. Föst regla er að biðja fimm sinnum á dag, við rismál, um hádegi,
um nónbil, við sólarlag og um háttumál.
Bænin er samtal Allah og viðkomandi einstaklings og þess vegna er hægt
að biðja hvar sem er. Áður en bænin hefst þarf að fjarlægja sig umheiminum
með ýmsum helgisiðum.
Fyrst þarf að þvo sér. Þvotturinn er táknrænn undirbúningur
fyrir andlegan hreinleika. Eftir þvottinn er sálin opin og tilbúin til að taka við
Allah. Annar helgisiður er að afmarka sér ákveðið svæði. Þetta svæði
er heilagt á meðan á bæninni stendur. Þar að auki er notað sérstakt
bænateppi til að undirstrika helgi svæðisins.
Á meðan beðið er á að snúa andlitinu til Mekku, hinnar heilögu
borgar. Einbeitingin sem felst í bæninni skapar nálægð við Allah.
Múslimar eru kallaðir til bænagjörðar frá turnum moskunnar.
Kallið hljóðar svona:
Guð er almáttugur.
Guð er almáttugur.
Ég veit að enginn annar Guð er til.
Ég veit að Múhameð er spámaður Guðs.
Komið og biðjið. Komið og frelsist.
Guð er almáttugur.
Guð er almáttugur.
Það er enginn annar Guð.
Djihad – heilagt stríð
Orðið „djihad“ merkir
„að berjast fyrir málstað Allah“. Það er oft þýtt sem „heilagt stríð“
en sú merking gildir aðeins fyrir seinni útskýringuna sem hér fer á eftir.
Í huga sanntrúaðra múslima er um að ræða tvenns konar djihad.
1. Stóra djihad
– er innri barátta við hið illa í manninum. Þetta er baráttan fyrir andlegri
reisn með tilvísun til lífsins eftir dómsdag. Þessi barátta er skilyrði
litlu djihad.
2. Litla djihad
– er ytri barátta, baráttan við raunverulega óvini og á við lífið
hér á jörð.
Í Kóraninum er talað
um hið heilaga stríð sem skyldu, en skilyrði er að um sé að ræða varnarbaráttu,
ekki árás. Stríðið er háð til að viðhalda réttlætinu.
Aðeins þeir sem hafa verið þvingaðir til að yfirgefa heimili sín mega heyja
það stríð.
Evrópumenn líta
oft á islam sem herská trúarbrögð. Það er vegna þess að í
1300 ár hafa landamæri kristinna manna og múslima víða legið saman og oft verið
barist um þau.
Áður fyrr,
á tímum Múhameðs, var litla djihad nauðsynleg því múslimar áttu
oft í stríði við nágrannalönd sín.
Nú á tímum
er stríðið barátta við áhrif vestrænnar menningar. Litið er á
vestræna menningu sem ógnun við sjálfsmynd múslima.
Má túlka hið heilaga
stríð á mismunandi vegu?
Súnnítar leggja áherslu
á stóru djihad, hina innri baráttu gegn vestrænum áhrifum á sjálfsmynd
múslima.
Shítar líta á það
sem skyldu sína, jafnmikilvæga frumskyldunum fimm, að berjast til þrautar í nafni
Allah. Baráttan er fórn til Allah og sá sem glatar lífinu hefur aðeins gert skyldu
sína sem sanntrúaður múslimi.
Dómsdagur
Dómsdagur er, rétt
eins og í kristinni trú, hinn hinsti dagur. Þá tortímist jörðin og allir
rísa upp frá dauðum. Allah mun þá dæma alla og Múhameð mun biðja
fyrir syndurum. Sanntrúaðir múslimar öðlast þá vist á grænum
grundum eilífðarinnar. Aðrir fara til vítis.
Hins vegar er enginn
sem hefur trúað á Allah glataður að eilífu, hvað sem hann hefur aðhafst.
Múslimar trúa því að þegar syndarinn hefur goldið fyrir gjörðir
sínar í víti komist hann einnig til hinna grænu grunda eilífðarinnar. Þeir
telja að aðeins þeir sem hafa trúað á aðra guði séu glataðir
að eilífu.
Fastan
Fastan er hin fjórða
af stoðunum fimm, frumskyldum múslima. Öllum múslimum er skylt að fasta, en gerð
er undanþága fyrir sjúklinga, vanfærar konur og börn, því að Allah
ber umhyggju fyrir öllu sköpunarverki sínu. Það er mikilvægara að viðurkenna
boðskap hans en fylgja boðorðunum.
Fastan stendur í
einn mánuð, ramadan. Aðeins er fastað meðan sól er á lofti. Ramadan-mánuðurinn
flyst til vegna þess að hann fylgir gangi tunglsins, en litið er svo á að í ramadan
hafi Allah byrjað boðun sína á opinberunum Kóransins. Múhameð fastaði
þann mánuð sem hann fékk fyrstu opinberun sína.
Markmið föstunnar
er að reyna á hlýðni manna við Allah. Hinn trúaði á að sanna þolinmæði
sína, fórnarlund, styrk og trú.
Með föstunni
er stefnt að jöfnuði ríkra og fátækra vegna þess að báðir
svelta.
Fastan hreinsar bæði
líkama og sál og færir manninn nær Allah. Fastan er líkamleg, andleg og siðræn
sjálfsögun.
Hadith
Hadith er safn forskrifta um líf
múslima. Þar koma fram reglur um nánast hvað sem er, m.a. bænagjörð, hreinsun,
pílagrímsferðir, föstu, viðskipti, eignir, vinnu, löggjöf og baráttu
fyrir trúna. Hadith segir líka frá þeim tímum sem voru áður en Múhameð
kom. Hadith túlkar Kóraninn.
Halal
Halal er það sem leyft
er og ráðlagt í islam. Fyrirmælin er að finna í Kóraninum og túlkun
hadith. Það sem er óleyfilegt heitir haram.
Haram
Haram er það sem bannað
er í islam. Múslimar mega ekki spila, stela, ljúga, eta svínakjöt, drekka áfengi,
eða haga sér ósiðlega. Það sem leyft er heitir halal.
Imam
Imam er sá sem leiðir
helgiathöfn múslima á sama hátt og presturinn í kristinni kirkju.
Islam
Islam er arabískt orð
og merkir undirgefni, hlýðni. Orðið felur einnig í sér aðra merkingu og táknar
frið. Islam táknar þess vegna þann frið sem sá öðlast sem er Guði
undirgefinn.
Þeir sem játa islam eru kallaðir múslimar. Guð heirra heitir Allah.
Múhameð er sendiboði Allah. Hin helga bók múslima, Kóraninn, opinberaðist
Múhameð. Kóraninn gerir grein fyrir öllu sem múslimar þurfa að vita. Þar
er m.a. sagt frá stoðunum fimm, frumskyldum múslima og lífsreglum í daglegu lífi.
Konan
Í Kóraninum er mælt
fyrir um jafnrétti karla og kvenna. Konan á sjálf að ákveða hverjum hún
giftist og hún er fjárhagslega sjálfstæð eins og karlinn.
Kóraninn bannar ekki hjónaskilnaði, en fyrst á að leita allra leiða
til að halda hjónabandinu. Leyfilegt er að eiga margar konur en í Kóraninum segir
að best sé að eiga aðeins eina konu.
Kóraninn segir ekki margt um þá hefð að múslimakonur beri
slæður og heldur ekki um þá einangrun sem margir telja múslimakonur búa við.
Í Kóraninum segir:
„Segið konum ykkar, dætrum og öðrum sanntrúuðum konum að þær
skuli hylja sig slæðum þegar þær fara út.“
Engin krafa er gerð um að svo skuli vera. En siðvenjur og túlkanir Kóransins
hafa þróast þannig að sumum finnst að um skipun sé að ræða. Upphaflega
var trúarleg skylda kvenna að bera slæðu.
Kóraninn
Kóraninn er helgirit múslima.
Kóraninn hefur að geyma boðskap Allah til manna, hina endanlegu opinberun. Kóraninn opinberaðist
sendiboða Allah, Múhameð, smám saman á 23 ára tímabili. Litið er
svo á að sú útgáfa Kóransins sem múslimar hafa undir höndum
sé aðeins afrit, frumritið sé geymt hjá Allah á himnum. Ekki má þó
skilja það svo að um sé að ræða bók á himnum, heldur hinn óendanlega
sannleika.
Allah opinberaði hina helgu bók fólki til leiðsagnar og viðvörunar.
Með hjálp Kóransins og Múhameðs kennir Allah réttlæti og veitir fólkinu
leiðsögn. Kóraninn svarar sérhverri spurningu múslima og er ekki aðeins helgirit
þeirra heldur líka lögbók. Orð Kóransins útskýra bæði
andlegt og veraldlegt líf, túlka bæði trúarbrögð og stjórnmál.
Í Kóraninum eru 114 kaflar eða súrur eins og þeir kallast á
arabísku. Súrunum er ekki raðað eftir aldri eins og þær birtust Múhameð
heldur eftir lengd. Málfarið í Kóraninum er afar fagurt og ljóðrænt,
hérumbil eins og tónlist. Sagt er að enginn fái notið boðskapar Kóransins
til fullnustu ef hann er ekki lesinn á frummálinu, arabísku.
Kristni og islam
Í islam er gert ráð
fyrir sköpun heimsins á svipaðan hátt og lýst er í Gamla testamentinu og margt
er líkt með Kóraninum og Biblíunni. Mörg boðorðanna um hegðun manna byggjast
á sömu viðhorfum og ríkja í kristnum trúarbrögðum. Múslimar
trúa líka á himin og helvíti, engla og djöfla. Mikilvægt er að átta
sig á því að guð múslima, kristinna manna og gyðinga er hinn sami – en trúarbrögðin
sjálf birtast á mismunandi hátt.
Múslimar líta á Abraham sem ættföður sinn alveg eins og kristnir
menn, en síðan skilur leiðir þessara trúarbragða. Kona Abrahams var Sara og með
henni eignaðist hann soninn Ísak. Hann eignaðist soninn Ismael með ambáttinni Hagar.
Sara krafðist þess að Hagar og Ismael yrði vísað á brott. Þau fóru
þangað sem borgin Mekka reis síðar og Ismael varð ættfaðir þeirra sem
síðar urðu múslimar. Ísak, sonur Söru og Abrahams, varð ættfaðir
gyðinga.
Múslimar líta á Jesús sem boðbera guðs, alveg eins og kristnir
menn. Í Kóraninum segir að Jesús, sonur Maríu, hafi fengið vitrun og öðlast
styrk heilags anda. Munurinn á islam og kristinni trú liggur í því hvernig kristnir
menn líta á Jesús sem son Guðs en múslimar telja Jesús einn spámannanna.
Þeim finnst guðlast að gera mannlega veru að ímynd guðs. Þeir leggja áherslu
á að Múhameð er aðeins sendiboði guðs, ekki sonur hans. Múslimar telja
guð birtast í orðum Kóransins, ekki sem holdi klædda veru. Maðurinn getur ekki
verið guð og Jesú getur þess vegna ekki verið sonur hans. Þess vegna líta
múslimar svo á að Jesú sé spámaður sem flytur sama boðskap og Múhameð.
Í Jóhannesarguðspjalli segir Jesú að ríki sitt sé
ekki þessa heims. Múhameð segir að öll veröldin sé moska og hann er bæði
andlegur og veraldlegur leiðtogi. Í kristinni trú eru heimur mannanna og heimur Guðs aðskildir
en í islam sameinast þessir heimar. Múslimar aðskilja ekki andlega og veraldlega tilveru.
Annar mikilvægur munur birtist í sýn þessara trúarbragða
á mannlegt eðli. Í kristinni trú er litið svo á að allir menn séu
fæddir syndugir eftir að Adam og Eva óhlýðnuðust Guði. Enginn getur bætt
fyrir þá synd sjálfur og grundvallaratriði kristninnar er að Jesú dó
fyrir syndir manna.
Erfðasyndin er ekki til í islam. Sá sem fylgir leiðsögn Allah syndgar
ekki. Allah skapaði manninn og gaf honum anda sinn. Þess vegna getur maðurinn verið staðgengill
Allah á jörðu hér. Maðurinn ræður því sjálfur hvort hann
nýtir sér þann möguleika.
Krossferðir
Krossferðir voru herferðir
kristinna manna gegn múslimum, farnar til að ná yfirráðum yfir borginni Jerúsalem.
Fyrsta krossferðin var farin árið 1096 og hinir kristnu hermenn náðu borginni á
sitt vald. Síðar náði Saladin völdum í Jerúsalem. Kristnir menn og múslimar
réðu Jerúsalem til skiptis. Árið 1291 féllu síðustu vígi
kristinna manna í Mið-Austurlöndum og umburðarlyndi tók við af heiftúðinni
og hatrinu sem krossferðirnar höfðu ýtt undir.
Það voru furstar úr löndum Evrópu sem stóðu fyrir krossferðunum, en
trúarofsinn sem tengdist krossferðunum varð til þess að stórir hópar óvopnaðra
bænda og barna streymdu til Jerúsalem og dóu tugþúsundum saman.
Kveðskapur súfa
Persnesku súfa-ljóðin
eru þrungin þeirri dulúð sem einkennir súfstefnuna. Þó að ljóðin
minni á ástarljóð fjalla þau um nálægðina við guð, en hún
er markmið súfa.
Ljóðin eru fræg um víða veröld fyrir ljóðræna
fegurð. Myndmál ljóðanna vísar til algleymis ástarinnar og undirgefni við
þann sem ástin beinist að. Þau boða hina fullkomnu ást sem er tákn auðmýktar
og sameiningar við guð. Algleymi ástarinnar er leiðin til að öðlast guðdómlegan
kærleika.
Mekka
Mekka er hin helga borg múslima.
Múhameð fæddist í Mekku og meðtók þar fyrstu opinberanir sínar
frá Allah. Á meðan á bænagjörðinni stendur snúa múslimar
andliti sínu í átt til Mekku. Það er skylda sérhvers múslima að
fara að minnsta kosti einu sinni á ævinni í pílagrímsferð til Mekku.
Mínaretta
Mínaretta er turn við
moskuna, en einn eða fleiri slíkir eru við hverja mosku. Úr turninum hrópar kallarinn,
múezzininn, til bænagjörðar fimm sinnum á sólarhring. Nú orðið
er oft spilað hljóðband þegar kallað er til bænagjörðar.
Moska
Moskan er hinn heilagi samkomustaður
múslima og bænahús þeirra. Í moskunni ríkir friður og kyrrð, þar
eru hvorki myndir né tónlist. Í moskunni á að einbeita sér að því
að finna nálægð Allah.
Á moskunni eru turnar sem kallaðir eru mínarettur (minaret). Úr turnunum
er kallað til bænagjörðar fimm sinnum á sólarhring.
Múezzin
Múezzin er kallarinn sem
kallar til bænagjörðar fimm sinnum á sólarhring. Nú hafa hljóðbönd
víða tekið við hlutverki kallaranna.
Múhameð
Múhameð fæddist
árið 570 í arabísku borginni Mekku. Hann er sendiboði Allah og upphafsmaður þeirra
trúarbragða sem kölluð eru islam.
Múhameð missti ungur foreldra sína en ólst upp hjá góðum
frænda. Alveg frá barnæsku var hann umhyggjusamur og hjálpsamur, einkum við sjúka
og fátæka. Hann varð hirðir og komst í þjónustu hjá ríkri
ekkju sem hét Khadija. Hún varð ástfangin af Múhameð af því að
hann var svo vitur og þroskaður. Þau gengu í hjónaband. Hún var fimmtán
árum eldri en hann og hjónaband þeirra varð mjög farsælt.
Á tímum Múhameðs var mikið um óeirðir af því
að ættbálkar börðust hver við annan. Hann varð hryggur og leiður. Rétt
utan við Mekku fann hann helli í fjalli nokkru. Þar leitaði hann einveru til hugleiðslu.
Í hellinum birtust honum fyrstu opinberanir Allah, en í upphafi var Allah einn margra guða sem
íbúar Mekku dýrkuðu. Opinberanir Allah sýndu Múhameð fram á að
Allah væri hinn eini sanni guð.
Árið 610 birtist honum engill í hellinum. Engillinn bauð honum að boða
trúna. Múhameð hafnaði því í fyrstu og taldi sig þess ekki umkominn
en röddin birtist honum aftur og aftur. Nú var Múhameð orðinn sendiboði Allah og
farvegur fyrir boðskap hans. Næstu 23 ár fékk Múhameð margar opinberanir sem
skráðar hafa verið í hina helgu bók múslima, Kóraninn.
Múhameð predikaði fyrir íbúum Mekku. Fyrstu árin mætti
hann mikilli andstöðu en smám saman fór fólk að skilja mátt orða hans.
Fremstu borgarar Mekku töldu Múhameð ógna sér og ráku hann út úr
borginni.
Árið 622 flúði Múhameð til Medínu sem líka er
kölluð „borg spámannanna“. Tímatal múslima miðast við það ártal
svo nú er 14. öldinni að ljúka hjá þeim. Múhameð varð ráðamaður
í Medínu og fylgdi forskriftum Kóransins. Þannig kom hann á friði meðal
ættbálkanna í borginni. Þegar hann dó árið 632 réð hann
yfir allri Arabíu. Þannig sýnir líf Múhameðs hvernig veraldleg og andleg
völd sameinast í islam.
Múslimar tala aldrei um Múhameð án þess að segja „blessun
og friður sé með honum,“ og þeir bera mikla virðingu fyrir honum. En hann er ekki sonur
Allah, aðeins sendiboði hans. Múslimar tilbiðja ekki Múhameð og því
er rangt að kalla þá múhameðstrúarmenn.
Múslimi
Múslimi er sá sem
trúir á Allah. Trúarbrögð múslima heita islam. Múslimar lifa í
samræmi við stoðirnar fimm, frumskyldurnar sem mælt er fyrir um í hinni helgu bók,
Kóraninum. Múslimi merkir „undirgefinn“. Múslimar hafa einn guð, Allah. Í heiminum
eru nú 8–900 milljónir múslima.
Myndhefð í
islam
Þar sem Allah er svo miklu
mikilfenglegri en maðurinn getur ímyndað sér er bannað að endurskapa mynd hans. Með
því væri Allah niðurlægður. Múhameð bannaði fólki að
tilbiðja guðamyndir og hann lét fjarlægja þær úr helgum byggingum.
Í um það bil 800 ár hurfu mannamyndir úr list múslima.
Það var ekki eingöngu vegna þess að þá væri hætt við að
menn tilbæðu slíkar myndir, heldur einnig vegna þess að múslimar telja að
listamaður sem býr til mannsmynd taki að sér hlutverk skaparans. Það hlutverk er
ætlað Allah einum. Þess vegna eru myndir manna og dýra bannaðar í lögum
islams.
Þess vegna er myndlist islams líka dæmigerð skreytilist. Línur og litir eiga að
draga fram draumaveröld sem ætlað er að tengjast bæninni og skapa trúarlega einlægni.
Skreytingarnar geta tekið óendanlegum breytingum. Dæmigerðar eru þær í
ofnum teppum.
Síðar voru mannamyndir leyfðar ef þær voru ekki myndir af sanntrúuðu
fólki. Einnig voru mannamyndir leyfðar til að útskýra texta.
Pílagrímsferðin
Pílagrímsferðin
er fimmta stoðin í frumskyldum múslima. Litið er á það sem skyldu hvers
múslima að fara í pílagrímsferð til Mekku að minnsta kosti einu sinni á
ævinni.
Markmið pílagrímsferðarinnar er að styrkja sambandið við Allah.
Ferðin krefst bæði andlegs og líkamlegs undirbúnings til þess að hugur ferðamannsins
verði opinn og móttækilegur.
Pílagrímsferðin stuðlar líka að jöfnuði meðal múslima
óháð því hvort þeir eru ríkir eða snauðir. Á pílagrímsferðinni
bera allir sams konar klæðnað sem búinn er til úr tveimur dúkum.
Shítar
Shítar eru strangtrúaðir
múslimar sem einkum búa í Íran. Aðeins um 10% múslima tilheyra hreyfingu
shíta. Flestir hinna tilheyra hreyfingu súnníta.
Shítar gera mikinn greinarmun á Allah og mönnunum. Maðurinn er þræll
Allah og hefur engan eigin vilja.
Shítar taka orð Kóransins bókstaflega. Þeir lifa samkvæmt
forskrift Kóransins og þola engin frávik.
Upphaf ófriðarins milli súnníta og shíta má rekja til
ársins 680 þegar þeim kom ekki saman um hvor fylkingin ætti að kunngera vísdóm
Múhameðs. Shítar fylgdu Ali tengdasyni Múhameðs og litu á hann og síðan
Hússein son hans sem staðgengla Múhameðs. Súnnítar töldu að kjósa
ætti leiðtogann og vildu ekki að leiðtogahlutverkið gengi í arf.
Meðan á stríðinu stóð var Hússein tekinn til fanga.
Þar sem hann hélt því ákveðið fram að hann væri eftirmaður
Múhameðs og hefði þess vegna einn leyfi til þess að kunngera visku hans. Var hann
drepinn af súnnítaleiðtoganum Khalif Jazid,
Þessi sögulegi atburður er orðinn að helgisögn shíta. Árlega
er farin skrúðganga á dauðadegi Hússein til að minna á píslarvætti
hans. Shítar taka á sig sökina af dauða Hússein þrátt fyrir að það
hafi verið súnníti sem drap hann. Þess vegna er píslarvættið, sorgin og
þjáningin óaðskiljanlegur þáttur í daglegu lífi bókstafstrúaðra
múslima.
Stjórnmál
Í islam er ekki einfalt
að greina að andleg og veraldleg málefni. Sömu lögmál gilda á báðum
sviðum, þess vegna eru ríkið og trúin óaðskiljanleg. Í veraldlegum
efnum eiga viðmiðanir trúarbragðanna að gilda. Lög islam eru hin sömu og er að
finna í Kóraninum, en þar eru trúmál og málefni samfélagsins samtvinnuð.
Múhameð var bæði
andlegur og veraldlegur leiðtogi. Hann sagði að öll veröldin væri moska.
Stoðirnar fimm
Stoðirnar fimm, frumskyldur
múslima, stjórna daglegu lífi þeirra og tengslum við Allah. Þær eru
birtar í Kóraninum. Þær eru:
- Trúarjátningin
- Bænin
- Ölmusan
- Fastan
- Pílagrímsferðin
Stoðirnar fimm hafa hver um sig þrjú
markmið:
1. Hlýðni við Allah
2. Nálægð við Allah
3. Eflingu andans hjá hverjum einstaklingi
Þetta má einnig útskýra þannig að hverri stoð eða frumskyldu fylgi
– líkamleg hreinsun
– siðræn hreinsun (jöfnuður og samstaða ríkra og fátækra)
– andleg hreinsun (nálægð við Allah, innri viðurkenning)
Frumskyldurnar fimm gefa vísbendingar
um hvernig múslimar eiga að haga sér, en það er hægt að teygja svolítið
á reglunum. Til dæmis þurfa sjúklingar og vanfærar konur ekki að fasta og ef
eitthvað nógu mikilvægt tefur er hægt að sleppa einni bæn. Allah er nefnilega
náðarríkur og miskunnsamur og sýnir sköpunarverki sínu þolinmæði.
Það er mikilvægara að viðurkenna boðskap hans en fylgja boðorðum hans.
Þessu eru allir
múslimar sammála, en þeir hafa mismunandi skoðanir á því hvernig túlka
skal boðskapinn. Innan islam fylgja menn mismunandi stefnum. Stærstu hreyfingarnar eru flokkar súnníta
og shíta.
Súfstefna
Súfstefnan er ein hreyfinganna
innan islam. Fylgismenn hennar eru kallaðir súfar og litið er á þá sem dulhyggjumenn.
Markmið súfa er að nálgast Allah. Til þess sjá þeir
þrjár leiðir: Ást, algleymi og dulhyggju. Allar þessar leiðir krefjast erfiðrar
hugarþjálfunar. Í algleyminu stendur maðurinn utan við sjálfan sig og getur
því náð til Allah.
Persnesku súfa-ljóðin
eru þekkt fyrir óvenjulega fegurð.
Súnnítar
Súnna er meginstefna islams.
U.þ.b. 90% múslima eru súnnítar. Hinir eru shítar.
Fræðin sem segja frá Múhameð spámanni nefnast súnna.
Súnnítar gera ekki ófrávíkjanlegar kröfur um að boðorðum Kóransins
sé fylgt. Þeir líta svo á að maðurinn eigi frjálst val. Allah hefur gefið
honum hæfileika og tækifæri, en valið er mannsins sem verður sjálfur að lúta
vilja Allah.
Trúarjátningin
Trúarjátningin er
fyrst stoðanna fimm sem eru frumskyldur múslima. Trúarjátningin nefnist „shahadah“ á
arabísku.
Trúarjátning múslima felst í einni setningu: „Allah er hinn eini
guð og Múhameð er spámaður hans.“
Trúarjátningin leggur áherslu
á almætti Allah og boðskap þeirra opinberana sem Múhameð lýsti. Mikill
máttur fylgir trúarjátningunni. Sérhver múslimi verður að minnsta kosti
einu sinni á ævinni að fara með hana af fullkominni sannfæringu.
Útbreiðsla
islam
Nú eru 8–900 milljónir
múslima í heiminum. Flestir eru þeir í Norður-Afríku, Arabíu, Afganistan,
Tyrklandi, Mið-Austurlöndum, Pakistan og Indónesíu.
Viðhorf til mannsins
Það er guðlast að
segja að maðurinn sé skapaður í mynd Guðs. Allah er almáttugur og guð
getur aldrei orðið mannlegur. Í kristinni trú er talað um Guð föður en það
gera múslimar ekki. Í islam birtist viðhorf til manna á tvennan hátt.
Maðurinn er skapaður úr mold og leir og anda Guðs. Þannig mætist
hið æðsta og hið lægsta í manninum sem er staðgengill Allah á jörðu.
Maðurinn verður sjálfur að velja milli hins æðsta og hins lægsta. Allah gefur
manninum hæfileika en hann verður sjálfur að þróa þá.
Annars vegar er litið svo á að maðurinn sé þræll Allah og eigi að vera
honum undirgefinn. Hins vegar hefur maðurinn frelsi til eigin sköpunar og á valkosti í lífinu.
Góður og trúr múslimi sem lifir samkvæmt reglum Allah er staðgengill Allah á
jörðu.
Stoðirnar fimm, frumskyldur múslima, segja fyrir um hvernig maðurinn á
að haga lífi sínu. Þær eru reglur um það hvernig Allah verður best
þjónað. Þær segja til um þær gjörðir sem færa manninn nær
Allah. Mikilvægt er að hlýða þessum reglum en mikilvægast er að viðurkenna
Allah. Konur og karlar eru jafn rétthá.
Í islam er ekki litið svo á að maðurinn sé fæddur syndugur.
Eina alvarlega syndin er sú að vera vantrúaður, trúa ekki á Allah. Enn verra
er að trúa á fleiri guði. Hinn vantrúaði getur fundið rétta trú.
Sá sem hefur fleiri en einn guð er að eilífu glataður.
Tvær meginstefnur islams eru súnna og shía. Þeir sem fylgja þessum
stefnum hafa ólík viðhorf til manna.
Súnnítar telja að maðurinn eigi val. Þeir telja að Allah hafi
gefið manninum hæfileika og tækifæri og að það sé hans að velja.
Maðurinn á að lúta vilja Allah.
Shítar líta á manninn sem þræl Allah. Allah hefur ákveðið
allt fyrirfram og maðurinn hefur engan frjálsan vilja.
Þúsund
og ein nótt og islam
Inngangurinn að ævintýrasafninu
Þúsund og ein nótt er nátengdur islam. Í raun má segja að í
safninu sé að finna helgisagnir múslima af því að í þeim samtvinnast
trú, lífsspeki og hefðir í frásögnum af gengnum kynslóðum. Sögurnar
eiga að kenna manninum að bera virðingu fyrir reynslu liðinna tíma og sýna honum
hvernig hann á að koma fram sem góður og sanntrúaður múslimi. Inngangurinn
hljóðar svo:
Í nafni guðs hins miskunnsama,
líknarfulla.
Dýrð sé guði
konunginum, gjafaranum góðra hluta, skapara heimsins, sem uppreist hefur himininn án stoða
og breitt út jörðina sem ábreiðu. Friður og blessun sé með heilsuboðanum,
vorum drottni og herra Mahómet og þeim, sem hans eru; blessun og friður
æ og ævinlega til efsta dags.
Að svo fyrirmæltu víkjum
vér til efnisins. Ævi fyrri kynslóða er fróðleg fyrir seinni menn og ber manninum
að taka eftir forlögum annarra og hafa sér til eftirdæmis eða viðvörunar. Skal
hann hyggja að sögu hinna fyrri þjóða og því, sem drifið hefur á
daga þeirra, og vera af hjarta lítillátur. Lofaður sé algjörleiki þess,
sem svo hefur stýrt sögu fyrri tíða og manna, að hún er orðin hinum seinni
til fróðleiks. Þess konar eru líka frásagnirnar og hin kynlegu ævintýri
í Þúsund og
einni nótt.
(Steingrímur Thorsteinsson,
1945. Þúsund og ein nótt. Inngangur).
Ævintýri
Þúsund og einnar nætur
Ævintýri Þúsund
og einnar nætur hafa verið kunn frá því um 800. Ævintýrin eru safn alls
kyns frásagna. Þar er að finna persneskar frásagnir, egypsk og arabísk ævintýri,
ferðasögur, töfrasögur, ástarsögur og skrýtlur.
Allar þessar sögur eru felldar inn í rammann þar sem sagt er frá
kónginum Shazman sem komst að því að kona hans var honum ótrú. Hann hefndi
sín með því að láta drepa hana en hefnd hans náði miklu lengra. Hann
ætlaði að tryggja að eignast ekki aftur svikula eiginkonu með því að taka
sér nýja konu á hverju kvöldi og drepa hana að morgni.
Þessu hélt kóngurinn áfram þar til dóttir eins hirðmannsins
bauðst til að giftast honum. Hún kunni ráð við reiði hans. Ráð hennar
fólst í því að byrja að kvöldi að segja honum skemmtilega sögu
en hætta þegar spenna sögunnar var í hámarki. Kóngurinn varð að heyra
framhaldið og þyrmdi því lífi stúlkunnar til næsta kvölds. Þannig
liðu hér um bil þúsund og ein nótt og að lokum ákvað kóngurinn
að drepa ekki stúlkuna heldur leyfa henni að lifa áfram. Hann tók sér stúlkuna
fyrir konu. Sögurnar sem stúlkan sagði kónginum eru frásagnirnar í ævintýrasafninu
Þúsund og ein nótt.
Ölmusan
Ölmusan er hin þriðja
af stoðunum fimm, frumskyldum múslima. Kóraninn býður hverjum múslima að
deila eigum sínum með öðrum. Á hverju ári á hann að gefa fátækum
2,5% af eigum sínum.
|