Umhverfis jörðina
JP-Explorer
Myndasafn
Krækjur
Leiðbeiningar

Islam – forsíða
Islam
Sögur
Úr Þúsund og einni nótt I. 1945. Bókaútgáfan Reykholt. Steingrímur Thorsteinsson íslenskaði.

Sagan af indverska spekingnum Padmanaba og hinum unga mjöðsölumanni

22. NÓTT. „Herra! Einu sinni var í borginni Damaskus maður, sem seldi rúsínumjöð. Hann átti son, sem Hassan hét, eitthvað fimmtán eða sextán ára gamlan, og undraðist hver maður er hann sá. Hann hafði mánafagra ásjónu og var réttvaxinn eins og sýpresviður, glaðlyndur og gæddur fögrum gáfum. Hver maður, sem heyrði hann syngja, varð frá sér numinn af sætleika raddar hans, og svo lék hann á fiðlu, að dauðir máttu vakna til lífs. Þessir yfirburðir urðu ekki ónýtir föður hans, því ekki lét hann aðra hafa skemmtun af syni sínum fyrir ekki neitt, og var hann ærið dýr á vörum sínum. Fyrir hvern mæli, sem aðrir seldu á einskilding, tók hann tvo. Komu fleiri í veitingahús til hans, til að sjá son hans, en til þess að drekka, og var því aðsóknin þeim mun meiri. Kvað svo mjög að því að hús hans var kallað Æskulind, af því gömlum mönnum þótti þar svo skemmtilegt. Það var einhvern dag að sonur mjöðsölumannsins lék á fiðlu, svo að öllum, sem viðstaddir voru, þótti unun á að hlýða, að þá kom hinn víðfrægi indverski vitringur Padmanaba að fá sér hressingu. Það vantaði ekki, að honum þætti mikið til Hassans koma, gaf hann sig því á tal við hann og varð hreint frá sér numinn. Voru svo mikil brögð að því, að bæði kom hann þangað framvegis og hætti jafnvel við störf sín, svo að hann gæti komið þangað á hverjum degi, og þar sem aðrir borguðu einn skilding, greiddi hann eina sekkínu.
Þetta gekk nú lengi vel, þangað til drengurinn segir einhverntíma við föður sinn: „Hingað kemur dags daglega maður, sem er fyrirmannlegur ásýndum, og er hann svo sólginn í að tala við mig, að hann kallar á mig á hverri stundinni, til þess að spyrja mig um eitthvað, og alltént að skilnaði gefur hann mér eina sekkínu." „Bitti nú!" segir karlinn, „þar mun eitthvað búa undir. Það er vísast, að tilgangur þessa hefðarmanns sé ekki sem beztur. Slíkir lærdómsmenn eru stundum gjörspilltir, þó þeir séu alvörugefnir á svipinn. Segðu honum því á morgun, þegar þú sér hann, að mig langi til að komast í kunningsskap við hann, og láttu hann koma upp á loft til mín. Ég ætla að prófa hann, ég er svo reyndur, að ég get ráðið það af orðum hans, hvort hann er svo vitur sem hann þykist." Daginn eftir gerði Hassan eins og faðir hans hafði sagt honum, neyddi hann Padmanaba til að fara upp á loft til karlsins, var þar lystilegasti morgunverður á borð borinn. Sýndi mjöðsölumaðurinn spekingnum alla þá sæmd, sem hugsazt gat, og tók hinn því svo kurteislega og lét svo mikinn viturleik í ljós, að enginn vafi gat verið á því, að hann væri vandaðasti maður.
Eftir máltíðina spurði faðir Hassans spekinginn, hvaðan af landi hann væri og hvar hann ætti heima, og er hann heyrði að hann væri útlendingur, segir hann: „Ef þér vilduð flytja til okkar, þá get ég léð yður herbergi í húsi mínu." „Því er mér þökk á," anzaði Padmanaba, „því það er himnaríki á jörðu, að búa hjá góðum vinum." Flutti þá spekingurinn til mjöðsölumannsins og gaf honum smátt og smátt góðar gjafir. Var honum svo vel við Hassan, að hann segir við hann einhverju sinni: „Son minn! Ég verð nú að opna fyrir þér minn hjartans hug. Ég sé að andi þinn hefur tekið þeim þroska, sem nægir til að nema hin leyndardómsfullu fræði. Þú ert, ef nokkuð væri, heldur fljótfærinn og skjótur til námsins, en ég tel það víst, að þú munir breytast og leggja stund á alvörugefni þá og djúphyggni, sem spekingum hæfir, því ég ætla nú að birta þér leyndardóma þeirra. Ég mun gera þig að lánsmanni, og viljirðu ganga með mér út úr borginni, skal ég þegar í dag sýna þér auðæfi þau, sem ég ætla að gera þig eiganda að." „Herra!" svaraði Hassan, „þér vitið, að ég er föður mínum háður og má ekki fara með yður í óleyfi hans." Talaði því spekingurinn við föður hans, og treysti hann veglyndi vitringsins, og sagði, að hann mætti fara með son sinn hvert sem honum litist. Fór þá Padmanaba með Hassan út úr borginni. Stefndu þeir á eina hrörlega byggingu og fundu þar brunn, er fullur var af vatni upp á barma. „Taktu vel eftir brunni þessum," mælti spekingurinn, „í honum er auðurinn, sem þér er ætlaður." „Þá er ver ef svo er," anzaði unglingurinn og brosti, „hvernig á ég að ná honum upp úr þessu djúpi?" „Son minn!" segir Padmanaba, „ekki furðar mig á því, að þér lízt þetta svo erfitt, það hafa ekki allir mínar gáfur. Engir aðrir en þeir sem guð birtir stórmerki almættis síns, hafa vald til þess að bjóða yfir höfuðskepnunum og raska fyrirskipaðri reglu náttúrunnar." Því næst ritaði hann nokkra stafi úr sanskrít málinu (hinni indversku forntungu), eins og tíðkaðist meðal töframanna á Indlandi, Síam og Kína; fleygði hann síðan miðanum í brunninn. Lækkaði þá vatnið og sjatnaði þangað til enginn dropi var eftir. Stigu þeir nú báðir niður í brunninn, og voru í honum stallar til að ganga niður á botninn. Þar fundu þeir koparhurð stóra og var hengilás fyrir úr stáli. Þá skrifaði spekingurinn bæn, snerti með henni lásinn, og laukst hann upp á augabragði. Hrundu þeir upp hurðinni, og komu niður í hvelfingu, og sáu þar standa blámann, í svartara lagi; studdi hann annarri hendinni við stóreflis marmarastein. „Ef við komum nær," mælti unglingurinn, „kastar hann víst steininum í höfuðið á okkur." Enda hóf hinn serkneski maður upp bjargið, þegar þeir komu nær, eins og hann ætlaði að fleygja því í þá. En Padmanaba las þá stutta bæn og andaði á blámanninn, stóðst hann þá ekki kraft orða hans né anda og hné aftur á bak til jarðar. Fóru þeir nú viðstöðulaust leiðar sinnar gegnum hvelfinguna, og komu í víðan hallargarð, og stóð kristalls musteri í honum miðjum. En dyrnar vörðuðu tveir drekar, hvor andspænis öðrum, glenntu upp ginið og spúðu eldi. Æpti Hassan þá af hræðslu: „Förum ekki lengra, þessir ógurlegu drekar ætla að gleypa okkur." En spekingurinn brá sér hvergi og mælti: „Vertu ókvíðinn, son minn, treystu mér og hertu upp hugann. Stöðugleikurinn er ómissandi til að öðlast hina háleitu vizku, sem ég ætla að kenna þér. Mér er gefið vald yfir öndum og ég get létt af hverjum álögum sem vera skal." Því næst mælti hann nokkur
kabbalistisk orð og skreiddust þá drekarnir inn í tvær holur, en dyrnar á musterinu hrukku snögglega upp sjálfkrafa. Gekk Padmanaba þar inn með unglingnum, og brá honum vel við, því nú sá hann annan hallargarð og aðra höll, sem byggð var tómum roðasteini. Efst uppi á henni var karbunkelsteinn, sex fet á þykkt, kastaði hann svo björtu skini allt umhverfis að hann var í sólar stað þar undir jörðinni. Þetta musteri vörðu ekki hræðileg ferlíki eins og hið fyrra, heldur stóðu við dyrnar sex fögur líkneski af yndislegum konum, sem slógu bjöllubumbur, og var hvert líkneski gert af heilum demant. En gegnum dyrnar opnar, sem voru af smaragð, sást inn í dýrðlegan sal, og ætlaði Hassan aldrei að verða leiður á því sem fyrir augun bar. En er hann hafði virt fyrir sér höllina og líkneskin þar fyrir utan, svo sem honum lék lyst til, leiddi Padmanaba hann inn í salinn, var gólfið þar úr skíru gulli, en loftið úr purpurasteini og alsett perlum. Var þar margt fallegt að sjá, og hvað öðru merkilegra, og hafði unglingurinn nóg að gera að skoða það. Síðan fór vitringurinn með hann inn í stórt ferskeytt herbergi; var stór gullhrúga í einu horninu, en í öðru var hrúga af roðasteinum, ljómandi fögrum; í þriðja horninu stóð silfurker og í hinu fjórða var svört moldarhrúga. En í miðju herberginu stóð glæsilegt hásæti með silfurlegri líkkistu ofan á, sem konungur lá í með gullkórónu á höfði, fjölskreytta stórum perlum. Var breið gullplata framan á kistunni og þetta grafið á með kabbalistiskum helgiskurði, sem klerkar á Egiptalandi tíðkuðu fyrrum: „Maðurinn sefur meðan hann lifir og vaknar ekki fyrr en á dauðastundinni. Hvað stoðar það mig nú, að ég hef átt mikið ríki og öll þau auðæfi, sem hér eru saman komin? Ekkert er skammvinnara en jarðnesk sæla og öll mannleg makt er veikleikinn sjálfur. Fávísa moldarbarn, hrósaðu þér ekki af láni þínu meðan vagga lífsins ruggast undir þér. Minnstu þess tíma, þegar Faraóarnir ríktu, þeir eru ekki framar til. Innan skamms liggur sama fyrir þér." „Hvaða konungur liggur í þessari kistu?" spurði Hassan. „Einn af fornkonungum Egiptalands," anzaði spekingurinn. „Það er sá sami, sem lét gera þessa hvelfingu undir jörðinni og þetta dýrðlega hús úr roðasteininum." „Það fær mér mikillar undrunar," segir unglingurinn, „sem þér nú sögðuð mér. Hvaða einræði kom konunginum til þess að gera þetta stórvirki undir jörðinni, sem virðist hafa tæmt alla auðlegð veraldarinnar? Aðrir konungar, sem láta eftir sig minningarmark veldis síns, gera það opinberlega, en hylja það ekki fyrir augum heimsins." „Satt er það," svaraði spekingurinn, „en þessi konungur var kabbalisti mikill, og fór oft einförum á laun við alla hirð sína, til þess að uppgötva hulda dóma náttúrunnar. Hann vissi marga leyndardóma og þekkti líka vizkusteininn, sem má ráða af auðæfunum hérna, sem orðin eru til af svörtu moldarhrúgunni í horninu þarna." „Hvernig getur það verið," segir unglingurinn, „ að þessi svarta mold skuli hafa slíkan kraft?" „Efaðu það ekki," mælti spekingurinn, „til sannindamerkis skal ég segja þér tvær tyrkneskar vísur, því í þeim er fólginn allur galdur vizkusteinsins:

Wirgil Arus garby Schachsadey Khitaya.
Bir Tifl ola balardan sultan Khad ruyan.


Það þýðir orðrétt: „
Vesturheims brúð giftist syni Austurheimskonungs; mun hún son fæða, er soldán verður yfir fögrum ásjónum." Sú er hin dularfulla þýðing orða þessara: Leggðu í bleyti þurra Adams mold, sem kemur frá Austurheimi, af gerð hennar myndast hinn heimspekilegi Merkúríus, sem almáttugur er í náttúrunni og skapar sól og tungl, þ.e. gull og silfur. Í silfurkerinu þarna í horninu hefur verið vatn, þ.e. lögur sá, sem hafður var til að bleyta hina þurru mold í gegn og breyta henni í það, sem hún er nú. Getur þú með einni lúku af henni, ef þér svo líkar, breytt öllum málmum Egiptalands í gull og silfur og öllum steinunum, sem húsin eru byggð úr, í demanta og roðasteina."
„Ég hlýt að játa," tók Hassan til máls, „að slíkt er undursamleg mold, og furða ég mig nú ekki á þeim auðæfum, sem hér eru." „Samt er hún miklu undursamlegri en ég hef sagt þér," svaraði spekingurinn, „því hún læknar allskyns meinsemdir. Hvað langt sem sjúklingurinn er leiddur og þó hann sé rétt að fram kominn, þarf ekki annað en að taka eitt duftkorn af henni, mun hann þá allt í einu endurstyrkjast og rísa upp aftur heill heilsu með fullu fjöri. Þó hefur hún eina þá náttúru, sem mér finnst meira um vert en allar hinar. Hver, sem vætir hana og nýr á augu sín, verður skyggn og sér anda og verur í loftinu og fær vald til að bjóða yfir þeim. Máttu af þessu skilja, sonur, hvílík ógrynni auðæfa hér er saman komið." „Það verður víst ekki verði virt eða tölu á komið," mælti unglingurinn, „en eins ætla ég að biðja yður áður en þér gefið mér það til eignar, má ég ekki taka dálítið af því með mér, til að sýna honum föður mínum, hvílíkt lán er yfir okkur að eiga slíkan vin." „Það máttu gera," segir Padmanaba, „taktu eins og þú vilt." Hassan sat ekki af sér tækifærið, klyfjaði sig gulli og roðasteinum og fór með spekingnum burt úr herbergi Egiptalandskonungs. Gengu þeir þá enn á ný gegnum fallega salinn, hallargarðinn og hvelfinguna, og lá blámaðurinn þar ennþá í rotinu; síðan luku þeir eftir sér koparhurðinni og small þá stállásinn fyrir, og jafnskjótt sem þeir voru komnir upp, fylltist brunnnurinn aftur upp á barma. Þegar spekingurinn sá, að það gekk yfir unglinginn, hvað vatnið kom skjótlega aftur, sagði hann: „Hvað undrastu? Hefurðu aldrei heyrt getið um verndargripi?" „Nei," svaraði unglingurinn, „mér þætti gaman, ef þér vilduð fræða mig á því." „Svo skal vera," anzaði Padmanaba, „og skal ég þar ofan á kenna þér einhvern tíma, hvernig þú eigir sjálfur að búa þá til handa þér. Fyrst ætla ég samt að fræða þig um þá almennt. Tvennskonar verndargripir eru til, eru sumir kenndir við kabbalista, en sumir við stjörnuspámenn. Eru hinir fyrrnefndu merkari og hafa furðumikinn kraft með stöfum, og orðum og bænum, en hinir hrífa fyrir tildrátt jarðstjarna málma innbyrðis. Ég nota hina fyrrnefndu, eins og hinn mikli guð Visnu, drottinn allra indverskra mustera í heiminum, hefur látið mér birtast í draumi. En það skaltu vita, að stafirnir eru englum háðir, og að enginn stafur er til, sem ekki hlýðir einhverjum engli. En spyrjir þú, hvað engill sé, þá svara ég því: að hann er geisli guðs almættis og dropi hans dýrðar. Þeir englar, sem dvelja í hinum ókunna heimi, drottna yfir þeim, sem í heiminum eru, og þeir aftur yfir þeirri veröld, sem undir tunglinu er. Stafirnir verða að orðum og orðin að bænum, og englarnir gera þannig þau stórmerki, sem allur þorri manna undrast, því stafirnir tákna engla, og þeir sameinast í bænunum, hvort sem þær eru mæltar af munni fram eða skrifaðar." Þetta var nú Padmanaba að fræða unglinginn um á leiðinni heim til borgarinnar. Komu þeir báðir heim til mjöðsölumannsins og varð hann stórlega glaður, þegar drengurinn sýndi honum gullið og gimsteinana. Keyptu þeir nú meiri rúsínumjöð og lifðu í unaði og allsnægtum.
En Hassan átti stjúpu, sem var bæði ágjörn og metnaðargjörn. Hafði hún alltaf búksorg, þó hann hefði komið heim með dýrustu gimsteina. Sagði hún því einu sinni við hann: „Sonur minn, ef við lifum svona framvegis, þá erum við frá." „Kvíddu því ekki móðir," anzaði hann. „auðuppsprettan okkar er ekki þrotin enn þá. Hefðirðu séð öll auðæfin, sem öðlingurinn hann Padmanaba ætlar að gefa mér, þá mundirðu ekki vera að kvíða svona að ófyrirsynju. Næsta skipti sem hann fer með mig til brunnsins, kem ég aftur með handfylli af svartri mold, mun þér verða það hugfró um langan tíma." „Taktu heldur gull og roðasteina," anzaði stjúpmóðirin, „Það kemur mér betur en öll mold sem til er. En mér dettur nokkuð í hug, Hassan! Ef honum Pdmanaban er alvara, að gefa þér öll þessi auðæfi, því kennir hann þér þá ekki töfraþulurnar, sem þörf er á, svo þú getir sjálfur aflað þeirra? Dæi hann nú snögglega, þá væri öll von úti. Annað er það, að ekki vitum við, nema honum leiðist að vera hjá okkur. Hver veit nema hann fari frá okkur þá og þegar, og gefi öðrum auðæfi sín. Það er því mitt ráð, að þú biðjir Padmanaba og leggir fast að honum, að kenna þér bænirnar, og þegar þú hefur numið þær, að við þá drepum hann, svo að hann segi ekki öðrum leyndarmálið um brunninn."
Hinum unga mjöðsölumanni brá mjög við orð þessi. „Móðir mín!" kallaði hann upp, því stingurðu upp á slíku tiltæki? Hvernig geturðu hugsað upp svo djöfullegt ráð? Spekingurinn ann okkur hugástum, eys yfir okkur velgjörðunum og heitir mér slíkum auðæfum, að þau mættu nægja til að seðja ágirnd voldugustu konunga í heimi, og þó viltu drepa hann, er það þakklætið? Nei, þó ég ætti að búa við mín fyrri kjör og selja rúsínumjöð ævilangt, þá get ég ekki fengið það ef mér, að stuðla til dauða þess manns, sem ég á svo mikið gott upp að inna." „Þú ert bezti drengur, sonur minn!" svaraði stjúpan, „en við megum ekki hugsa um annað en okkar eigið gagn. Hamingjan býður okkur tækifæri til að verða rík ævinlega, og við megum ekki sitja það af okkur. Hann faðir þinn, sem er reyndari en þú, fellst á uppástungu mína, og þú verður líka að fallast á hana." Hassan skoraðist lengi vel undan að eiga hlutdeild í þessu svívirðilega áformi, en þar kom þó, að stjúpa hans gat talið honum hughvarf, því hann var ungur og hviklyndur. „Gott og vel!" segir hann, „ég skal leita hann Padmanaba upp og fá hann til að kenna mér bænirnar." Fór hann þá til hans og herjaði svo á hann með sárri bæn, að kenna sér allt sem þyrfti, til að komast í hvelfinguna undir jörðinni, að spekingurinn gat ekki synjað honum, því hann hafði fjarska mikið ástríki á drengnum. Ritaði hann því hverja bæn á miða, sagði nákvæmlega staðinn, hvar hann skyldi lesa, og allt þar að lútandi, og fékk honum síðan. Að því búnu lét drengurinn föður sinn og stjúpu vita af þessu, og tiltóku þau einn vissan dag, er þau skyldu öll saman fara að leita auðæfanna. „Þegar við komum aftur," sagði stjúpan, skulum við drepa Padmanaba." Á ákveðnum degi fóru þau að heiman, en sögðu ekki Padmanaba, hvert þau færu. Fóru þau til hinnar hrörlegu byggingar, og þegar þangað var komið, tók Hassan miðann, sem fyrsta bænin var á, upp úr tösku sinni. Óðara en hann kastaði honum í brunninn, hvarf allt vatnið. Síðan gengu þau ofan stallana og niður að koparhurðinni, og laukst upp hvorttveggja, hurðin og stállásinn, þegar þau voru snortin með hinni annarri bæn. Blámaðurinn, sem fyrir stóð, og gerði sig líklegan til að fleygja marmarasteininum, skaut mjöðsölumanninum og konu hans nokkurn skelk í bringu, en Hassan var ekki lengi á sér að mæla fram þriðju bænina, blés á hann og féll hann þá til jarðar. Síðan gengu þau gegnum hvelfinguna inn í hallargarðinn, sem kristalshöllin var í, hræddi Hassan þar drekana inn í fylgsni sín. Því næst komu þau í inn í hinn garðinn og fóru gegnum salinn inn í herbergið, þar sem roðasteinarnir voru, gullið, silfurkerið og svarta moldin. Stjúpan gaf líkkistu Egiptakonungs lítinn gaum, og tafði sig ekki á því að lesa hið fróðlega letur, sem á gullplötunni stóð. Hún leit heldur ekki við svörtu moldinni, sem stjúpsonur hennar hrósaði svo mjög, heldur fleygði hún sér yfir roðasteinana. Tók hún svo marga af þeim, að hún rogaðist með byrðina og komst varla úr sporunum. Maður hennar hlóð sig gulli, en Hassan lét sér nægja að taka tvær lúkur sínar af svörtu moldinni til reynslu, þegar heim kæmi. Að því búnu fóru þau þrjú saman út úr herbergi Egiptakonungs og riðuðu af þyngslunum á fjármunum þeim, er þau höfðu þaðan með sér. Gengu þau gegnum fyrsta hallargarðinn og lá vel á þeim, þangað til þau sáu þrjár hryllilegar ófreskjur vaða á móti sér …

23. NÓTT. Þegar mjöðsölumaðurinn og kona hans sáu þrjár ófreskjurnar gana á móti sér í fremri hallargarðinum urðu þau dauðhrædd, litu undan og á Hassan. En hann var eins felmtsfullur, því hann hafði engan verndargrip er dugði við ferlíkjunum. „Bölvuð sértu, vonda og vanþakkláta stjúpa!" kallaði hann upp, „við eigum alla glötun okkar upp á þig. Hann Padmanaba vissi vafalaust að við fórum hingað, getur verið að honum sé það ekki einu sinni ókunnugt, að við sátum um líf hans, því hann kann hin leyndardómsfullu vísindi. Nú refsar hann okkur fyrir djöfullegt vanþakklæti með því að láta þessi skrímsli gleypa okkur." Í sama bili sem Hassan mælti þessi orð, heyrðu þau uppi yfir sér rödd spekingsins, sem mælti: „Þið voruð ómakleg góðvildar minnar, öll saman þrjú. Þið munduð hafa myrt mig, ef hinn mikli Visnu hefði ekki gert mér vísbendingu um illræði ykkar. Skuluð þið nú hljóta makleg málagjöld: Þú, kona af því þú hugsaðir það ráð, að drepa mig, en þið hinir fyrir það að þið hlýdduð ráðum konunnar í stað þess að hafa andstyggð á níðingsskap hennar." Þá þagnaði rödd spekingsins og hin þrjú skrímsli rifu sundur Hassan, föður hans og hina vondu stjúpmóður.

Úr
Þúsund og einni nótt I. 1945. Bókaútgáfan Reykholt. Steingrímur Thorsteinsson íslenskaði.

www.VerdenRundt.dk Copyright © 1999 by www.skolemedia.dk