Umhverfis jörðina
JP-Explorer
Myndasafn
Krækjur
Leiðbeiningar

Islam – forsíða
Islam
Sögur
Úr Þúsund og einni nótt III. 1945. Bókaútgáfan Reykholt. Steingrímur Thorsteinsson íslenskaði.


Frá soldáninum í Yemen og sonum hans þremur

610. NÓTT Það er upphaf þessa máls, að soldán einn réð yfir Yemen í Arabalandi; hann var auðmaður mikill og voldugur konungur; voru margir höfðingjar honum skattskyldir, og stóð þeim öllum geigur af honum, enda lét hann mjög til sín taka. Þagar hann hafði setið að völdum vel og lengi, og var hniginn mjög á efra aldur, gerðist hann ellihrumur og fann á sér, að hann mundi ekki lengur fær um að gegna stjórnunarstörfum. kvaddi hann þá sonu sína þrjá á sinn fund og mælti: „Ég mun eiga skammt eftir, en áður en mín missir við, ætla ég að skipta öllum eigum mínum meðal ykkar, svo þið minnist mín með ánægju, og lifið eins og bræður í sátt og samlyndi. Viljið þið nú gera eins og ég bið ykkur í síðasta sinn?"
Þeir kváðust fúsir að breyta eftir boðum hans, og soldán mælti þá enn fremur: „Ég ánafna hinum elzta af ykkur ríki mitt, sá sem er annar elztur, skal eiga auðæfi mín og hinn yngsti kjörgripi mína. Enginn skal ásælast annan heldur skuluð þið styðja og styrkja hver annan.
Síðan lét soldáninn syni sína rita nöfn sín undir skjal, sem ráðstöfun þessi var skráð á.
Skömmu síðar andaðist soldán og létu synir hans gera útför hans með allri þeirri rausn, er slíkum höfðingja sæmdi. Vildu þeir sjálfir lauga og smyrja lík föður síns. Þegar greftruninni var lokið, gengu þeir aftur inn í höllina; sátu þar vezírar og æðstu embættismenn og þar að auki borgarbúar, bæði æðri og lægri stéttar, og samhryggðust þeim bræðrum. Andlát konungs hafði og frétzt í skattlönd hans, og komu sendimenn úr hverri borg í ríkinu til þeirra konungssona. Þegar sorgarhátíðin var um garð gengin, eftir því sem konungur hafði mælt fyrir í lifanda lífi, vildi elzti konungssonurinn setjast að völdum, og hugði enga meinbugi á því vera. Samt gekk það ekki eins greitt og hann gerði sér í hugarlund, því bræður hans voru eins metorðagjarnir og sjálfur hann, og vildu hver um sig setjast á veldisstólinn. Hófust þá ríkisdeilur milli þeirra bræðra; lauk svo, að elzti bróðirinn stakk upp á því, að þeir skyldu láta einn af konungum þeim, er þeim voru skattskyldir, skera úr deilum þeirra, og skyldu þeir una úrskurði hans, og láta þann í friði, sem yrði hlutskarpastur og hreppti konungdóm. Bræður hans féllust á þessa uppástungu hans, enda voru vezírarnir þess mjög hvetjandi, því þeir vildu firra ríkið vandræðum.
Bræðurnir tóku sig því til og héldu af stað til borgar einnar, þar sem einn af hinum skattskyldu konungum hafði aðsetur. Þegar þeir voru komnir hálfa leið, áðu þeir á inndælum stað, í fögru og blómvöxnu haglendi; var þar svo hljótt og kyrrt, að ekkert heyrðist nema niðurinn af læk nokkrum, fögrum og tærum sem fram hjá rann. þarna neyttu kóngssynirnir af nesti sínu og töluðu svo friðsamlega hver við annan, að engum hefði komið í hug, hvert deiluefni þeirra var. Einum af þeim varð litið í grasið og mælti: „Hér hlýtur úlfaldi að hafa farið um með sætabrauð á annarri hliðinni, en korn á hinni."
Já, sagði annar bróðirinn, „og ég er viss um að úlfaldinn hefur verið blindur á öðru auganu." „Satt segir þú," mælti þriðji bróðirinn, „en ég þori að veðja, að úlfaldinn hefur líka verið stertlaus."
Óðar en þeir höfðu þetta mælt, kom eigandi úlfaldans. Hann hafði heyrt allt hvað þeir sögðu, og með því að þeir höfðu lýst úlfaldanum með því sem á honum var, nákvæmlega, þóttist hann viss um, að þeir mundu hafa tekið úlfaldann, og bar þeim á brýn, að þeir hefðu stolið honum. Þeir sóru og sárt við lögðu, að þeir hefðu ekki séð úlfaldann, og því síður snert hann, en maðurinn þóttist litlu bættari fyrir það, og kvaðst mundu kæra þá fyrir konungi sínum, ef þeir skiluðu ekki úlfaldanum þegar í stað.
„Gerðu það," svöruðu þeir bræður; „það er bezt við förum undir eins til konungs."
Þegar þeir komu til hallarinnar, sögðu menn soldáni komu konungssona, og lét hann þá þegar koma á sinn fund. Eigandi úlfaldans gekk á eftir þeim með ópi og kalli; kvaðst hann vilja ná rétti sínum á mönnum þessum, því þeir hefðu sjálfir játað að þeir hefðu stolið grip frá sér; hefðu þeir bæði þekkt úlfaldann, og eins það sem á honum var. Sagði hann soldáni, hvað hann hefði heyrt þá segja. Soldán spurði þá bræður, hvort sögusögn hans væri sönn.
„Það er að vísu satt sem hann segir," svöruðu þeir, „en allt um það höfum vér ekki séð úlfaldann. Vér sáum að grasið var ekki bitið nema öðrumegin, og af því réðum vér að, að úlfaldinn mundi eineygður. Vér sáum og hrúgur af úlfaldataði, og af því réðum vér að úlfaldinn mundi tagllaus, því úlfaldar eru vanir að dingla taglinu þegar þeir teðja, og hrýtur þá taðið víðsvegar. Vér sáum urmul af flugum öðrumegin við bæli úlfaldans, en hinumegin enga flugu, og af því var auðráðið að öðrumegin hefur hlotið að hafa verið körf á úlfaldanum með hunangi eða sætabrauði, en hinumegin ekki annað en korn."
Þegar þeir höfðu skýrt frá þessu, sagði soldán við ákærandann, að hann yrði að leita úlfaldans annarstaðar, því framburður hinna sakbornu sýndi ekki annað en vitsmuni þeirra og skarpskyggni. Síðan bauð soldán að taka til í herbergjum þeim, er konungssonum voru ætluð, og veita þeim þann beina, er tign þeirra væri samboðin. Var borinn fyrir þá mikill og góður kvöldverður og gengu þeir til borðs og tóku að snæða. Elzti bróðirinn tók brauðsneið og mælti: „Veikur kvenmaður hlýtur að hafa bakað brauð þetta."
Annar bróðirinn át geitakjöt og kvað það víst, að geitin hefði sogið tík. Þriðji bróðirinn sagðist þora að veðja, að soldáninn væri rangfeðraður. Í því kom soldáninn inn óður og uppvægur; hafði hann heyrt til þeirra og sagði því í bræði sinni: „Þér ósvífnu menn! Dirfizt þér að láta yður slíkt um munn fara?"
Þá mæltu bræðurnir: „Grennslist þér eftir því, sem þér hafið heyrt oss segja; þér munuð þá geta komizt fyrir sannleikann,"
Soldán fór inn í kvennabúr sitt og var gramt í geði. Bauð hann að grennslast eftir, hvort svo væri sem kóngssynir hefðu sagt. Reyndist það, að þeir höfðu getið rétt til. Veik kona hafði hnoðað brauðdeigið, en geitin hefði gengið undir tík, því móðir geitarinnar hefði drepizt. Þegar soldán heyrði þetta varð hann sem óður af heift, og rauk inn til móður sinnar, óð að henni með brugðnu sverði, og kvaðst mundu drepa hana, ef hún segði sér ekki hið sanna um faðerni sitt. Varð hún þá dauðhrædd, fleygði sér fyrir fætur honum og sagði, að hann væri ekki sonur soldáns þess, er verið hefði á undan honum, heldur þræls eins. Hefði kona þrælsins orðið léttari sama dag og hún, og fætt sveinbarn, en sjálf hefði hún alið meybarn. Soldáni hefði ákaft leikið hugur á að eignast ríkiserfingja, en hún kvaðst hafa óttazt að soldán legði fæð á sig, af því að hún hefði átt meybarn. Hefði hún fyrir þá sök haft barnaskipti og tekið hann sér í sonar stað. „Þú ert því umskiptingur," mælti hún, „og sonur þræls þessa. Nú átt þú ríki að ráða, og er bezt þú hugsir þig um, hvort þér sæmir að drepa mig í hefndar skyni."
Soldán hugsaði sig um stundarkorn; rann honum reiðin og gekk hann frá drottningu inn í herbergi sín. Því næst gerði hann boð eftir þeim konungssonum, og sagði þeim, að svo hefði verið, sem þeir hefðu sagt, og kvaðst vilja vita, af hverju þeir hefðu ráðið það. Elzti bróðirinn sagði þá, að þegar hann hefði brotið brauðið, hefði það molnað, og af því hefði hann ráðið, að kraftalítil eða veik kona hefði unnið að brauðgerðinni, og hefði hún ekki haft krafta til að hnoða deigið til hlítar. Annar bróðirinn sagði að fitan á geitakjötinu hefði verið inn við beinið, en það væri ekki á neinni skepnu nema hundinum, og hefði sér því ekki þótt ólíklegt að geitin hefði sogið tík.
„Þið segið satt," mælti soldán, „en hvernig stendur á því, að þið véfengið faðerni mitt?"
„Sú er orsök þess," mælti yngsti bróðirinn, „að þú settist ekki til borðs með oss, sem erum þér jafngöfgir. Menn erfa lunderni feðra sinna, afa eða mæðra. Menn sækja drenglyndi eða ágirnd til feðra sinna, hugprýði eða ragmennsku til afa sinna, blygðunarsemi eða ósvífni til mæðra sinna."
„Það er hverju orði sannara, sem þú segir," mælti soldán. „En því eruð þið komnir til mín að leita ráða, þar sem þið eruð miklu færari að skera úr vandamálum en ég? Fylgið mínum ráðum og haldið heim aftur og lifið í samlyndi."
Konungssynir sáu að þetta var heillaráð og sneru heim aftur; hétu þeir því, að þeir skyldu vandlega breyta eftir því, sem faðir þeirra hafði fyrir mælt.

Úr
Þúsund og einni nótt III. 1945. Bókaútgáfan Reykholt. Steingrímur Thorsteinsson íslenskaði.

www.VerdenRundt.dk Copyright © 1999 by www.skolemedia.dk