Umhverfis jörðina
JP-Explorer
Myndasafn
Krækjur
Leiðbeiningar

Forsíða – Islam
Islam
Sögur
Brot úr frásögnum
Múslimakonur segja frá lífskjörum sínum



„Ég veit ekki hvað ég gerði ef ég væri ekki svo heppin að vera múslimakona. Hvergi búa konur við jafn góðar aðstæður og í löndum islam. Allah er öllum góður og miskunnsamur. Þess verð ég sannarlega vör á degi hverjum.

   Múslimakonur hafa bæði skyldur og væntingar í samræmi við ákvarðanir Allah. Engum ætlar hann þyngri byrði en sá hinn sami getur borið. Verkefni kvennanna er að gæta bús og barna og þjóna mönnum sínum. Skylda karlanna er hins vegar að draga til búsins. Karlinn á að vinna fyrir heimilinu svo fjölskyldan komist af. Þær áhyggjur eru konurnar lausar við.

Svona hefur Allah skipað málum og ég er honum innilega þakklát.“

Fatima Jaheem, Pakistan



„Margir segja að múslimar kúgi konurnar. En það er ekki rétt. Við höfum sömu réttindi og karlarnir. Við getum menntað okkur og unnið utan heimilisins. Við getum líka valið okkur maka, það stendur í Kóraninum.

   Það eru oft konur sem ekki eru mjög trúaðar sem halda því fram að þær búi við kúgun. Þær hafa fjarlægst trúna og hafna þess vegna því hlutverki sem islam krefst að þær sinni. Það er ekki óréttmætt hlutverk, en ef trúna skortir er erfitt að skilja af hverju lífsreglurnar eru eins og þær eru.“

Lubna Mamouni, Marokkó




„Múslimakonur geta skilið, en fráskilin kona verður oft fyrir aðkasti frá fyrri vinum. Þeir telja hana slæma og vilja ekki hafa nein tengsl við hana. Þrátt fyrir að Kóraninn leyfi skilnað er hann næstum því óframkvæmanlegur.“

Yürdagül Shaltout, Tyrklandi



„Mér finnst við múslimakonur mjög háðar skoðunum foreldra okkar og því sem trúin býður. Ef ég er ekki með slæðuna verður pabbi reiður við mig. Ég geng í skóla, en ég er hér um bil viss um að pabbi kærir sig ekki um að ég vinni á skrifstofu í framtíðinni. Sjálfsagt verður það líka hann sem ákveður hverjum ég giftist. Í islam eru konur og karlar jafn rétthá, en það stenst ekki í raun, að minnsta kosti ekki í mínu tilviki.“

Ung, ónefnd kona í Tyrklandi


   „Múslimakonur ganga flestar með slæðu, en ég geri það ekki. Ég er í síðbuxum eða kjól alveg eins og stúlkur í Evrópu. Foreldrar mínir hafa ekkert á móti því. Hins vegar gerist það stundum að bláókunnugt fólk sem ég hitti á götu segir mér að ég eigi að hylja líkama minn. Ég sé ekki að ég þurfi endilega að gera það.

   Ég er múslimi, en líf mitt líkist lífi stúlku sem býr í Evrópu. Það er sennilega vegna þess að foreldrar mínir eru frjálslynd og víðsýn. Mér er ekki bannað margt. Ég fer í bíó og í samkvæmi. Auðvitað má ég ekki vera úti langt fram á nótt og mér er alltaf sagt hvenær ég á að vera komin heim. Sumar vinkvenna minna mega aldrei fara út af því að foreldrum þeirra finnst það ekki viðeigandi. Þær mega heldur ekki tala við stráka. Það má ég alveg og því er ég fegin.

   Sjálfri finnst mér ég ekki hafa mikið frjálsræði af því að þrátt fyrir þetta setja foreldrar mínir reglur sem ég á að fara eftir. En ég átta mig samt á því að ég er heppin í samanburði við margar vinkonur mínar sem mega hreint ekki neitt.

   Það er hvorki gott að hafa algjört frelsi né of strangar reglur. Ef allt er leyft getur verið erfitt að ná tökum á tilverunni en ef allt er bannað er ekkert síður erfitt að ráða fram úr lífinu þegar maður verður fullorðinn.“

Touria Jaheem, Egyptalandi

www.VerdenRundt.dk Copyright © 1999 by www.skolemedia.dk