Umhverfis jörðina JP-Explorer Myndasafn Krækjur Leiðbeiningar Islam – forsíða |
Islam Sögur |
Konurnar hafna slæðunum Í löndum múslima eru tímarnir að breytast. Núorðið hafa konur meira um það að segja en áður hvort þær vilja bera slæðu eða ekki. Í löndum múslima er löng hefð fyrir því að konur gangi með slæðu. Slæðan á, eins og fötin, að hylja líkama konunnar að mestu svo hún veki ekki girnd karlmanna. Það eru einkum strangtrúaðir múslimar sem hafa krafist þess að eiginkonur þeirra og dætur beri slæðu. Á 8. og 9. áratugnum var vald hinna strangtrúuðu meira en það er um þessar mundir. Eiginmenn, bræður, kennarar – jafnvel bláókunnugt fólk – krafðist þess að konur bæru slæðu. Nú eru þessi viðhorf að breytast. Í Afganistan er þess krafist að konur hylji líkama sinn algjörlega þegar þær eru á ferð utan veggja heimilis síns, en þessi hefð er á undanhaldi. Þess vegna eru margar konur sem ekki vilja bera slæðu. Það eru aðeins þær konur sem telja slæðuna nauðsynlega sjálfra sín vegna, eða telja hana mikilvægt tákn um trú sína, sem kjósa að bera slæðu. Kóraninn og hefðin Hefðin fyrir því að konur beri slæðu á sér stoð í Kóraninum. Þar stendur að múslimar eigi að biðja konur sínar, dætur og aðrar múslimakonur að hylja sig með slæðu þegar þær fara út. Engin krafa er gerð um að eftir þessu sé farið og það er ekki trúarleg skylda að bera slæðu. Konan getur ákveðið sjálf að hvaða marki hún vill hylja líkama sinn. En hefðir og siðir múslima hafa þróast á grundvelli Kóransins, og orð Kóransins má túlka á marga vegu. Hinir strangtrúuðu líta enn á það sem trúarskyldu kvenna að bera slæðu og það er líka menningarleg hefð fyrir notkun slæðunnar. Sjálfsmynd múslima verður fyrir vestrænum áhrifum Nú er að líða undir lok sá tími að hægt sé að þvinga konur til að bera slæðu. Jafnframt vill unga fólkið gjarna taka upp nútímalegri siði frá Vesturlöndum. Áður fyrr mátti sjá það sem ákveðna yfirlýsingu um lífsviðhorf ef konan bar slæðu. Þannig opinberaði hún sterka trúarlega sannfæringu og sýndi að hún hafnaði vestrænum lífsháttum. Fyrir marga innflytjendur til Evrópulanda er slæðan tákn múslimskrar sjálfsmyndar. Þetta á ekki við í Egyptalandi. Þrátt fyrir sterka trúarhefð er eindreginn vilji til að taka upp nútímalegri, vestrænar siðvenjur. Á síðari árum er slæðan jafnvel orðin að tískufyrirbrigði. Það er hægt að kaupa slæður frá frægum, frönskum tískuhönnuðum. Margar konur bera slæðu þó þær gangi í þröngum fötum, gallabuxum og með andlitsfarða. Persónuleg ákvörðun og trúarleg yfirlýsing Þó múslimakonum sé nú frjálst að ákveða hvort þær vilja bera slæðu eða ekki eru margar sem velja að bera slæðu. En nú er það persónulegt val konunnar, ekki nauðung. „Ákvörðun mín um að bera slæðu snýst um samband mitt við Guð. Mér finnst slæðan styrkja tengsl mín við Guð. Ég skrökva heldur ekki og svík aldrei neinn. Þannig fullkomna ég tengsl mín við Guð,“ segir Nehad Abul Qumsan. Hún er ung múslimakona sem kýs að bera slæðu sína þó hún sé ekki nauðbeygð til þess. Mandy Fahny, önnur múslimakona, hefur valið að nota ekki slæðu. Hún leggur líka áherslu á að sú ákvörðun snúist um tengsl einstaklingsins við Guð. „Aðrir geta sagt við þig að þú eigir ekki að segja ósatt. En það er til einskis ef það er ekki þín eigin ákvörðun. Þá nálgast þú ekki Guð,“ segir hún. Þó viðhorf til þess að bera slæðu séu að breytast getur múslimakona verið þess fullviss að ekki eru allir sammála. Það er aðallega meðal ungs fólks sem frjálsræðið hefur fengið brautargengi og eflaust er þess langt að bíða að allir taki upp hina nýju siði. En slæðan er ekki lengur nauðung. Nú er það val konunnar hvort hún ber slæðu eða ekki og snýst um tengsl hennar við Guð. |
|
www.VerdenRundt.dk Copyright © 1999 by www.skolemedia.dk |