Umhverfis jörðina
JP-Explorer
Myndasafn
Krækjur
Leiðbeiningar

Islam – forsíða


Islam
Sögur


Unga fólkið leitar vestur
Ungir múslimar vilja ekki lengur lifa lífinu samkvæmt gömlum hefðum. Unga fólkið leitar nútímatilveru eins og þeirrar sem þau þekkja frá Vesturlöndum. Það hefur í för með sér uppgjör gegn hefðum og gildum foreldranna.

Mörg undanfarin ár hafa lönd múslima verið lokuð fyrir vestrænum áhrifum og jafnvel andsnúin vestrænum lífsháttum. Um þessar mundir er þetta smám saman að breytast. Ungir múslimar hafa ekki lengur trú á því að islam sé raunhæfur valkostur andspænis vestrænum framförum.

   „Foreldrar okkar telja að á vestrænni hugmyndafræði og islam sé grundvallarmunur. Þau trúa því enn að í trúarbrögðum okkar – sem eru hin einu réttu trúarbrögð – séum við miklu sterkari en hinn vestræni heimur. En við, unga fólkið, áttum okkur á því að þróunin hjá okkur hefur stöðvast þegar litið er til þess hvað langt menn hafa náð á Vesturlöndum,“ segir Asaf Kayhan, tvítugur læknanemi sem lætur sig dreyma um að lesa við háskóla í Evrópu þegar hann er lengra kominn í námi sínu.

Uppreisn gegn hefðunum
„Mörgum þykja hefðirnar ósveigjanlegar. Þær ströngu siðareglur sem foreldrar okkar fylgja líta stundum út fyrir að hafa þann tilgang einan að gera fólki erfiðara fyrir. Þessar hefðir heyra til liðnum tíma. Nú á tímum eru tækifærin önnur og þess vegna verða hefðirnar líka að breytast,“ heldur hann áfram.

   „Eruð þið unga fólkið ef til vill ekki eins trúuð og foreldrar ykkar?“ spyr ég Asaf.

   „Jú, við erum það. Ég er sannfærður og trúaður múslimi. Ég fylgi forsögn Kóransins og stunda bænir reglulega. Trú mín veitir mér fótfestu í daglegu lífi mínu. En ég lít ekki á trú mína sem andstæðu vestrænna lífshátta. Í mínum huga hefur trúin persónulegt gildi, hún hefur áhrif á hvers konar manneskja ég er.“

   „En hefðirnar?“

   „Hefðirnar eru túlkanir á Kóraninum. Hefðirnar eru verk mannanna og upprunnar á tímum sem voru gjörólíkir þeim sem við nú lifum. Auk þess má túlka Kóraninn á marga mismunandi vegu – líka þannig að þar komi fram ýmsar andstæður.“

   Sem dæmi má taka það álitamál hvort konur eigi að bera slæðu. Í Kóraninum segir aðeins að þær eigi að hylja sig, þar segir ekkert um hversu mikið. En þetta hefur verið túlkað þannig að konur eigi að hylja sig frá toppi til táar ef þær fara út fyrir dyr. Þetta viðhorf er hinsvegar á undanhaldi og nú geta konur valið sjálfar. Systir mín hefur ekki borið slæðu síðan hún varð nógu gömul til að ákveða sjálf. Foreldrar mínir eru ekki sáttir við þetta en vilja samt ekki útskúfa henni þó hún láti ekki að vilja þeirra.“

   „En stendur ekki í Kóraninum að þið eigið að vera foreldrum ykkar undirgefin?“

   „Jú, það er fyrst þeirra ellefu boðorða sem byggjast á frumskyldunum fimm, stoðum íslams. En þar segir einnig að þegar um er að ræða trúna og túlkun hennar hafa ekki einu sinni foreldrar leyfi til að þvinga börn sín. Ef maður velur ekki sjálfur er trúin merkingarlaus.“

Stjórnmál eru ekki trúarbrögð
Ég spyr Asaf hvort hann hafi líka áhuga á stjórnmálum.
Mótmæli gegn stjórn Sádi-Arabíu.

   „Já, ég hef það. Í mínum stjórnmálaflokki teljum við að ekki eigi að blanda saman stjórnmálum og trúmálum. Í upphafi samtvinnuðust stjórnmál og trúarbrögð í íslam og allar stjórnmálaákvarðanir áttu að falla innan þess ramma sem trúarbrögðin setja. Það hefur ekki síst leitt til þess að erfitt er fyrir lönd múslima að fylgja eftir þróuninni á Vesturlöndum. Lögin, sem eru 1300 ára gömul, eru afskaplega gamaldags rétt eins og hefðirnar. Lögin eru frá þeim tímum þegar sífelldar erjur voru milli ættbálka og trúarleiðtoginn var líka veraldlegur leiðtogi. Þetta hentar ekki í nútímasamfélagi. Mín kynslóð vill rjúfa tengsl trúarbragða og stjórnmála. Við viljum ekki sjá land okkar verða ennþá fátækara vegna þess að stjórnmálaleiðtogar fylgjast ekki með tímanum. Trúin á að vera einkamál hvers einstaklings og Guðs, ekki samfélagsskipulag þar sem lög og hefðir fylgja ekki rás tímans.“
Auglýsing fyrir kosningar í Jemen með mynd af frambjóðanda og slagorðinu:

„Islam er trú frelsis, jafnaðar og félagslegs jafnréttis.

www.VerdenRundt.dk Copyright © 1999 by www.skolemedia.dk