Umhverfis jörðina JP-Explorer Myndasafn Krækjur Leiðbeiningar Islam – forsíða |
Islam Sögur |
Útdráttur Til kristinna manna frá frá múslimakonu Höfundur: Rana Kabbani Rana Kabbani er ung múslimakona sem hefur lengi búið á Vesturlöndum. Í bók sinni „Til kristinna manna frá múslimakonu“ leitast hún við að útskýra viðhorf og hugmyndir múslima um trú sína og menningu. Henni og mörgum öðrum múslimum þykja fordómar og mistúlkanir fólks af öðrum trúarbrögðum særandi. Í útdrætti úr bókinni sem hér birtist eru hjónabönd sem foreldrar ákveða fyrir börn sín til umræðu, fjallað er um þá hefð að konur beri slæður og einnig hve mikilvægt það er að læra mun á réttu og röngu, hreinu og óhreinu. Foreldrarnir velja maka barna sinna ... Stöðugt er hellt yfir okkur lýsingum á þeirri „ógnarlegu kúgun“ sem múslimakonur búa við. Því er haldið fram að foreldrar þeirra þvingi þær af mannvonsku til að giftast gegn vilja sínum. Fullyrðingar af þessu tagi ýta undir það alranga viðhorf að þegar foreldrar velji dóttur sinni maka eigi stúlkan ekkert val. Þegar systir mín gifti sig, átján ára gömul, sömdu foreldrar okkar um hjónabandið. Hún hafði alist að mestu upp á Vesturlöndum og varla var nokkurn mun að sjá á henni og vestrænum táningum. Maðurinn sem hún valdi úr hópi biðlanna, sem hún var kynnt fyrir, bjó í Evrópu, en hann ákvað, alveg eins og systir mín, að fara heim til að finna sér maka. Þeim fannst báðum eðlilegt og sjálfsagt að velja þessa hefðbundnu leið, rétt eins og vestrænum ungmennum þykir eðlilegt og sjálfsagt að hittast á stefnumótum. Bæði voru þau fullkomlega sátt við að láta foreldra sína semja um framtíðina og innan þriggja mánaða – það er sá tími sem venjulega er ætlaður slíkri samningsgerð – trúlofuðu þau sig og giftust. Í heimavistarskólanum mínum í Damaskus árið 1973 gat engin bekkjarsystra minna 30 hugsað sér hjónaband án þess að foreldrarnir sæju um makavalið. Flestar sýrlenskar stúlkur eru sömu skoðunar, hvort sem þær eru ríkar eða fátækar. Þær yrðu skelfingu lostnar ef þeim væri ætlað að taka þátt í – oft örvæntingarfullri – leit að maka. ... Í samfélagi múslima skipuleggja foreldrar hjónabönd barna sinna með því að kynna syni sína og dætur fyrir heppilegum maka … ... Ef unga fólkinu líst vel hvoru á annað komast foreldrarnir að samkomulagi um hvernig heppilegt sé fyrir þau að kynnast betur … ... Það er ekki hægt að þvinga múslimakonu til að giftast gegn vilja sínum, en þrýstingurinn getur verið mismikill frá einni fjölskyldu til annarrar … Klæðnaður við hæfi … Fátt er meira rætt á Vesturlöndum, einkum meðal kvenna, en slæður múslimakvenna og menningarleg merking þess að bera slæðu fyrir andlitinu. Í Bandaríkjunum og Evrópu er slæða sem hylur andlitið gjarna talin táknræn fyrir íslam. En vert er að muna að slíkar slæður eru upprunnar meðal kristinna manna. Arabar tóku siðinn upp þegar þeir náðu yfirráðum í Sýrlandi á 8. öld. Þá var verið að líkja eftir hefðarfólkinu sem fyrir var í landinu. Ekki má rugla saman slæðunni og „hijab“ múslimakvennanna, höfuðbúnaðinum, sem hylur hár þeirra, en hárið er talið kynæsandi. Á tímum spámannsins voru það einungis eiginkonur hans sem báru hijab til þess að tryggja að enginn villtist á þeim og öðrum konum. Síðar tóku múslimakonur upp þennan sið „mæðra íslam.“ Í Kóraninum er svo fyrir mælt að klæðnaður skuli vera við hæfi og þar kemur fram að konur skuli ekki hafa slegið hár eða vera léttklæddar, t.d. með naktan barm eða útlimi, þar sem aðrir sjá til en fjölskyldan. Fyrr á þessari öld var farið að slaka á siðgæðisreglum múslima einkum í löndum þar sem stjórnvöld fylgdu ekki strangtrúarstefnu. En þar sem breytingar voru leyfðar var þeim andmælt. Ég fékk pínupils þegar þau komust í tísku og amma mín sem aldrei lét sjá sig án höfuðbúnaðarins varð stórhneyksluð. „Það er skammarlegt að ganga um með ber hné“, tuldraði hún. Og þegar ég 10 ára gömul var eitt sinn á leið í sundlaugina og hljóp gegnum eldhúsið í sundbolnum mínum lá við að gamla eldabuskan okkar missti pottinn. Hún hrópaði til mömmu minnar: „Skammastu þín ekki að láta dóttur þína ganga um nakta þar sem karlmenn sjá til!“ Þegar hún fékk engin svör kvartaði hún við pabba. Hann róaði hana og minnti hana á að spámaðurinn hefði sjálfur lagt áherslu á að múslimar létu börn sín, bæði stúlkur og drengi, læra að synda, stunda veiðar og sitja hest ... ... Það getur verið afar þægilegt að vera með höfuðbúnað. Konurnar losna við að vera kyntákn og falla ekki í gryfju tískunnar sem tröllríður vestrænum hugmyndaheimi. ... Höfuðbúnaðinum til málsbóta má segja að sú sem ber hann fjarlægist skarkala heimsins. Höfuðbúnaðurinn veitir skjól til andlegrar íhugunar, hann kemur í veg fyrir skrautgirni og pjatt, og dregur úr mun milli stétta. Með hann líkjast allar konur hver annarri, allar verða jafnar í þessum búningi og hann hylur skrautlegan fatnað. Hijab hentar því vel til að fullnægja kröfu islam um hógværa framgöngu. Um það sem er bannað og leyft, hreint og óhreint Grundvallaratriði múslimskra trúarsiða er að læra að þekkja muninn á „halal“ og „haram“, því sem má og hinu sem er bannað. Þetta gildir líka um „tahir“ og „nijis“, hreint og óhreint. Þessar andstæður hafa haft djúpstæð áhrif á líf mitt, þær stjórna allri tilveru minni og tilfinningum. Þær eru það sem ræður andúð minni á hundum og hræðslu við mýs, veldur ógeðinu sem ég hef á lykt af beikoni (múslimar telja hunda, mýs og svín óhrein dýr), stjórnar hreingerninga- og þvottaáráttunni sem ég er haldin og hefur áhrif á viðhorf mitt til heimilishalds. Siðfræði múslima er formfastari en hin kristna siðfræði og tekur ekkert síður til daglegra athafna en huglægra þátta. ... Hreinlætisæðið í múslimum tengist virðingu þeirra fyrir Guði. Rökstuðningurinn er sá að með því að sinna líkamanum hylla menn þann sem skapaði hann. Múslimar telja, eins og kvekarar, að hreinn líkami og hrein sál fari saman. Þvottar, tiltektir og skipulag eru líka leið til að sigrast á óreiðunni sem múslimar telja verk djöfulsins ... |
|
www.VerdenRundt.dk Copyright © 1999 by www.skolemedia.dk |