Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

49 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Kynferðiseinelti Kynferðiseinelti er enn önnur birtingarmynd kynbundins ofbeldis, en það er regnhlífarhugtak sem nær yfir einelti og hópáreitni sem beinist að kyni, kyngervi, kynvitund og/eða kynhneigð þeirra sem fyrir því verða. Rætur slíks eineltis liggja í virðingarmati samfélagsins og kynjuðu valdamisræmi, og það þrífst í ríkjandi staðalmyndum og skaðlegum viðhorfum um kvenleika, karlmennsku og kynhlutverk. Eineltið birtist m.a. í formi stríðni, niðurlægingar og útilokunar; í niðrandi orðum, hegðun og andrúmslofti. Í þessum kafla verður sérstaklega fjallað um kynferðislega áreitni, druslustimplun og hinsegineinelti en þær birtingarmyndir kynferðiseineltis eru algeng í skólamenningu. Því miður benda íslenskar rannsóknir til þess að kynferðiseinelti sé ekki mætt af sömu festu meðal kennara og aðrar tegundir eineltis. Þvert á móti sé það iðulega hunsað, afsakað eða útskýrt með hormónaflæði unglingsáranna og teljist eðlilegur hluti af samskiptum ungmenna. Ekki aðeins kvarta þolendur undan aðgerðaleysi skólastarfsfólks, heldur segja það sumt jafnvel taka þátt í eineltinu með niðrandi athugasemdum. Stelpur og hinsegin unglingar hafa þannig þurft að þola slíkt andlegt ofbeldi án þess að umhverfi þeirra takist á við alvarleika málsins en afleiðingum kynferðiseineltis svipar til afleiðinga kynferðisofbeldis. Reynsla af kynferðiseinelti á unglingsárum getur verið mjög mótandi, valdið djúpstæðri skömm og laskað sjálfsmynd brotaþolans til langs tíma. Reynsla af kynferðiseinelti á unglingsárum getur jafnvel gert brotaþolann berskjaldaðri fyrir öðru kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni. Slík reynsla getur hæglega skekkt hugmyndir brotaþola um kynlíf og eigin kynverund og átt þátt í að brjóta niður mörk, traust, sjálfsöryggi og sjálfsvirðingu viðkomandi. Stafrænt kynferðisofbeldi er hrottaleg aðför að einkalífi og friðhelgi brotaþolans, og afleiðingar þess svipaðar og af líkamlegu kynferðisofbeldi. Til viðbótar má segja að stafrænu ofbeldi ljúki aldrei, því næsta ómögulegt er að stöðva dreifingu efnis um netheima.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=