Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

41 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Skrímslavæðing Ein helsta mýtan snýr að því að gerendur kynferðisofbeldis séu siðblindar skepnur sem stökkvi fram úr húsasundi og ráðist á grandalausar ókunnugar manneskjur. Sannarlega ekki fólk sem við þekkjum, hvað þá dáum eða elskum. Mýtan er lífseig ásamt hugmyndum um útlit, stétt, litarhaft, fjárhag og aðra stöðu ofbeldismanna. Þetta kallast skrímslavæðing. Það að lýsa gerendum sem ofbeldisfullum skrímslum, varla mennskum, er að jaðarsetja hina fjölmörgu gerendur og aðgreina þá frá öðrum meðlimum samfélagsins. Mýtan er fólgin í því að gerendur kynferðisbrota koma úr öllum stéttum og stöðum, og „góðir strákar” nauðga líka. Oftast þekkjast brotamaður og brotaþoli. Iðulega eiga kynferðisbrot sér stað innan ástarsambands, og þegar brotið er á börnum er gerandi iðulega fjölskyldumeðlimur. Gerandi er sem sagt sjaldnast skrímsli í útjaðri mannlegs samfélags heldur einhver sem við þekkjum, þykir vænt um, treystum og trúum. Einhver sem við kjósum að stunda kynlíf með eða einhver sem við kjósum til að stýra samfélaginu. Skrímslavæðingin er skiljanleg út frá tilfinningalegu sjónarhorni. Það er mjög mannlegt að eiga erfitt með að horfast í augu við að einhver sem við þekkjum, lítum upp til og/eða okkur þykir vænt um, hafi beitt ofbeldi. Fæst viljum við umgangast nauðgara. En ef marka má hinn mikla fjölda brotaþola sem leitar aðstoðar í kjölfar kynferðisofbeldis, er ljóst að líklega þekkjum við öll kynferðisbrotamann. Skrímslavæðing leyfir samfélaginu að komast undan því að takast á við staðreyndir og það hversu víðtækt kynferðisofbeldi er. Á fyrstu 32 starfsárum Stígamóta, leituðu þangað yfir 10.000 brotaþolar og lýstu ofbeldi af höndum rúmlega 14.000 gerenda. Einhvers staðar eru allir þessir gerendur. Til að skilja ofbeldið og vinna gegn því er nauðsynlegt að skoða samfélagið sem gerendur spretta úr, því er afar mikilvægt að afmennska þá ekki. Mýtan um skrímslin er skaðleg á alla kanta því hún kemur í veg fyrir að: 1) brotaþolar átti sig á eigin reynslu og geti skilgreint ofbeldið, 2) samfélagið taki ofbeldið alvarlega eða taki brotaþola trúanlega, 3) gerendur átti sig á eigin hegðun eða gangist við brotinu. Ef við hugsum um alla ofbeldismenn sem skrímsli sem eiga ekkert sameiginlegt með okkur hinum, verður ómögulegt að ímynda sér að venjulegt fólk, sem við þekkjum og okkur líkar við, geti beitt ofbeldi. En þegar þetta er einmitt staðreyndin – verður til nauðgunarmenning. Þar sem stelpum er kennt að vara sig á hinu mjög svo líklega kynferðisofbeldi en hljóti þó að vera ljúga til um nauðgun því gerendurnir finnast hvergi. Gerandi er sjaldnast skrímsli í útjaðri mannlegs samfélags heldur einhver sem við þekkjum, þykir vænt um, treystum og trúum. Einhver sem við kjósum að stunda kynlíf með eða einhver sem við kjósum til að stýra samfélaginu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=