Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

38 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Hér er upplagt að taka umræðu með nemendum um hvað hugtakið menning þýðir. Sum þeirra sjá orðið eingöngu í jákvæðu ljósi, tengja það við bókmenntir og sinfóníuna, og hrökkva því við það að orðið sé tengt við ofbeldi. En menning er einfaldlega allt félagslegt sem umlykur okkur – siðir, venjur, viðhorf og reglur sem ríkja í umhverfinu. Allt sem er algengt og viðurkennt. Nauðgunarmenning er til dæmis: ● Brandarar, auglýsingar, tískuljósmyndir, lagatextar, tónlistarmyndbönd o.s.frv. sem gera lítið úr kynferðislegu ofbeldi. Nauðgun er iðulega gerð fyndin og flott. ● Kynferðisleg áreitni er útbreidd og þykir jafnvel sjálfsagður partur af samskiptum kynjanna, eitthvað sem konur eiga að sættast á en vera ekki viðkvæmar yfir. ● Kynferðisofbeldi er talið óumflýjanlegt og visst umburðarlyndi ríkir gagnvart því. ● Gerendur eru afsakaðir (gerendameðvirkni) og ábyrgð sett yfir á brotaþola (þolendaskömmun). Dæmi eru um brot þar sem heilu skólasamfélögin og bæjarfélögin taka afstöðu með gerendum, jafnvel með undirskriftarlistum. ● „Slaufunarmenning“ varð fyrst hugtak þegar brotaþolar hófu að opna sig um kynferðisofbeldi og kalla gerendur til ábyrgðar. Orðið hefur aldrei verið notað yfir þann mikla fjölda brotaþola sem flýr heimili sitt, fjölskyldu, vinnustað, skóla, bæjarfélag, land eða jafnvel jarðvistina eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi eða opnað sig um það. ● Forvarnir sem beinast að því að segja konum og börnum að passa sig – á því hvernig þau hegða sér, klæða sig og hverja þau umgangast. Þetta gefur til kynna að stelpur geti sjálfar stýrt því hvort aðrir beiti þær ofbeldi. Jafnvel yfirmaður kynferðisbrotadeildar íslensku lögreglunnar hefur haldið því fram að nauðgun sé á ábyrgð brotaþola sem drekka of mikið. ● Langflestir brotaþolar kynferðisofbeldis telja sig bera í það minnsta hluta af ábyrgðinni, og upplifa djúpa skömm og sektarkennd. ● Fæst kynferðisbrot eru kærð og þau mál sem eru kærð eru langflest felld niður. Þrátt fyrir að fjórða hver kona á landinu verði fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun, falla aðeins örfáir nauðgunardómar á ári hverju. ● Þrátt fyrir þennan mikla fjölda brotaþola tala fjölmiðlar um: Meinta þolendur, meinta gerendur og meintar nauðganir. ● Gerendameðvirkni, þolendaskömmun og nauðgunarmýtur. Nauðgunarmenning samfélagsins er raunverulegt vandamál sem mun fleiri viðhalda en einungis kynferðisbrotamenn.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=