Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

30 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Eins og við fræðum nemendur um skaðsemi áfengis og annarra vímuefna er brýnt að fræða þá um skaðsemi kláms. Því yngri sem börn eru þegar þau hefja reglulegt klámáhorf, þeim mun meiri líkur eru á að þau ánetjist efninu. Dæmi eru um að kornungir karlmenn þurfi að nota stinningarlyf til að halda reisn vegna klámnotkunar. Því oftar sem unglingar láta það eftir sér að horfa á klám, þeim meiri líkur eru á að þeir myndi sterkari kynferðislega tengingu við skjá en við annað fólk og fái jafnvel ekki fullnægingu í kynlífi með hægri kynferðislegri örvun sem byggist upp með orðum, kossum og gælum. Klám virkar á sama hátt og annað ávanabindandi efni, það sem er á skjánum venst hratt og til að upplifa sömu spennuna aftur þarf fljótlega að skoða eitthvað nýtt og jafnvel harðara efni. Þetta vita klámframleiðendur og passa að halda í neytendur með að bjóða sífellt upp á grófara klám. Sumir upplifa sig óvænt farna að horfa á mun ofbeldisfyllra efni en þeir í raun hafa áhuga á og upplifa því skömm, doða og ónotatilfinningu eftir áhorfið. Áhrif kláms á hjartað Klámið býr til viðmið um það hvernig við eigum að líta út, haga okkur og finnast gott í kynlífi (kynlífshandritið). Mörg ungmenni upplifa þrýsting um að leika eftir klám- atriðum og óttast að fá annars á sig stimpil þess efnis að þau séu teprur, skræfur eða lélegir bólfélagar. En skilaboð úr kláminu fela í sér óraunhæfar væntingar til útlits, getu, athafna og frammistöðu í kynlífi og sýna sjaldnast fjölbreytileika fólks. Unglingar sem líta á klám sem kennslustund um kynlíf fara á mis við margt mikilvægt; s.s. forleik og gælur, nánd og virðingu og mikilvægar venjur varðandi öryggi eða hreinlæti. Að fikra sig áfram í rólegheitum er mikilvægur hluti þess að þróast sem kynvera. En með hinu galopna aðgengi að klámi má segja að mörgum ungmennum hafi verið harkalega skellt upp á mótorhjól þegar kemur að kynlífi en hafi misst af undirbúningsþjálfuninni sem fylgir því að læra á þríhjól og reiðhjól í byrjun. Klámhandritið fylgir afar þröngum ramma en í raunveruleikanum erum við alls konar og kynlíf oftast öðruvísi en klámið sýnir. Kynferðisleg viðbrögð og líkamleg frammistaða er mjög ýkt í klámi. Útlit fólks er gjarnan einsleitt og ýkt, typpi og brjóst eru vel yfir meðalstærð og píkur nánast allar eins. Í raunveruleikanum eru kynfæri og líkamar fjölbreyttir og kynferðisleg frammistaða takmörkunum háð. Í klámi er ekkert rætt um hvað fólkinu þykir gott eða ekki, skilaboðin eru að öllum þyki allt gott. Margar stellingar eru líkamlega óþægilegar og jafnvel nánast óframkvæmanlegar – enda ætlaðar fyrir sjónarhorn myndavélar en ekki nautn viðkomandi. Klámframleiðendur vinna jú ekki út frá jafnréttishugsjón eða mannréttindasjónarmiðum, þeirra hagsmunir eru peningar. Klám er söluvara og búið til fyrir áhorfendur en ekki fyrir ánægju leikaranna, markaðurinn stjórnar kynlífsathöfninni sem mynduð er.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=