Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

27 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Klám Íslenskir drengir eiga Norðurlandamet í klámneyslu en mælingar hafa ítrekað sýnt fram á mun meiri neyslu þeirra en jafnaldra þeirra á hinum Norðurlöndunum. Þeir byrja líka margir snemma, allt niður í 6 ára gamlir. Ungmenni sækja í klám vegna líkamlegrar örvunar en einnig af forvitni og í leit að hugmyndum og fræðslu. Klám er hins vegar ekki kynfræðsla, enda fylgir það engri námskrá eða jafnréttissjónarmiðum. Þvert á móti eru ríkjandi þemu í algengu og aðgengilegu klámi; valdníðsla, sifjaspell, niðurlæging, kvenfyrirlitning, kynþáttafordómar og annað ofbeldi. Þetta sendir afar skökk og hættuleg skilaboð til þeirra áhorfenda sem líta á klám sem uppsprettu þekkingar um kynlíf. Þannig ógnar klámið kynheilbrigði unglinga sem eru rétt að feta sín fyrstu skref í kynlífi og á vafalítið sinn þátt í kynferðisofbeldi meðal þeirra. Starfsfólk í umhverfi barna og unglinga sér margt áþreifanleg áhrif kláms á samskipti þeirra, ekki síst þegar kemur að kynferðislegri áreitni í snertingu og tali og frásagnir ungra brotaþola kynferðisofbeldis minna oft á vinsælar klámsenur. Í dag er staðan sú að næstum helmingur drengja í 10. bekk horfir á klám mjög reglulega (frá vikulega upp í oft á dag). Sú upplýsingagjöf er því margföld – þúsundföld – á við almenna kynfræðslu til ungmenna þar sem áhersla er lögð á samskipti og samþykki í kynlífi, öryggi og vellíðan. Mikilvægur þáttur í ofbeldisfræðslu til ungmenna er að kenna þeim að gagnrýna efni sem fléttar saman kynlíf og valdníðslu. Líklegt er að slík klámfræðsla virki fyrirbyggjandi þegar kemur að mögulegum kynferðisbrotum. Ungir karlmenn og strákar eru stærsti hópur gerenda slíkra brota en ekki þarf alltaf að vera um einbeittan brotavilja að ræða, heldur pilta sem mataðir hafa verið á skaðlegu efni og hafa því arfaslaka þekkingu á raunverulegu kynlífi og lítinn skilning á mikilvægi skýrra samskipta. Lögum þessa skekkju með fræðslu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=