Um víða veröld - Heimsálfur

43 Asía Ódýrt vinnuafl Í fjölmennustu löndunum þurfa margir á vinnu að halda til að framfleyta fjölskyldum sínum. Vegna mikils framboðs vinnuafls þarf vinnuveitandi ekki að borga há laun og flytur sig gjarnan til landa þar sem hann getur borgað lægst laun. Í fata- og skóverksmiðjum í löndum Austur-Asíu vinnur t.d. fjöldi fólks á lágum launum við að framleiða tískuföt og skó sem eru til sölu í Evrópu og Bandaríkjunum. Einnig eru þar settar saman, fyrir mjög lág laun, tölvur og aðrir hátæknihlutir sem vestrænt neyslusamfélag metur mjög mikils. Mörg framleiðslufyrirtæki eru í eigu erlendra aðila sem nýta sér þennan ódýra vinnukraft, sem oft býr við bágar vinnuaðstæður og kröpp kjör. Lífsgæði vestræna heimsins eru oft í beinum tengslum við kröpp kjör og bágar aðstæður í fátækari löndum heims. Næst þegar þú kaupir eitthvað ótrúlega ódýrt skaltu velta því fyrir þér hvað verkamaðurinn sem bjó til vöruna fékk greitt í sinn vasa. Náttúruauðlindir Helstu náttúruauðlindir Asíu felast í verðmætum jarðefnum. Þar er að finna um 60% af olíu- og gasforða heimsins. Langmestar eru olíulindirnar við Persaflóa og í Ob-lægðinni í Síberíu. Mikil kola- og járngrýtislög er einnig að finna í Rússlandi og í Kína. Í Suðaustur-Asíu, á belti sem liggur eftir Malakkaskaga til Indónesíu, er mikið magn tins í jörðu. Á Indlandi er báxít unnið úr jörðu en það er frumhráefni fyrir álvinnslu. Gjöful fiskimið er að finna í Kyrrahafinu vestanverðu og innhöfum þess. Hér fer fram lokafrágangur á íþróttaskóm áður en þeir eru sendir á markað til Evrópu. En af hverju skyldu skórnir vera framleiddir svo langt frá markaðnum?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=