Um víða veröld - Heimsálfur

16 Hvar búum við? Aðgangur að vatni, loftslag sem hæfir ræktun og manninum sjálfum og frjósamur jarðvegur eru þau atriði sem skapa lífvænlegt umhverfi og góð búsetusvæði. Dæmi um slík svæði eru dalir, framburðarsléttur stórfljóta og strandsvæði. Þegar búseta mannsins er skoðuð kemur líka í ljós að þéttbýlustu svæðin hafa alltaf verið þau svæði þar sem þessir eiginleikar eru fyrir hendi. Á okkar dögum býr sífellt fleira fólk í þéttbýli og er talið að um helmingur jarðarbúa búi nú í þéttbýli. Þéttbýlasta svæði jarðarinnar er í Kína þar sem borgirnar Hong Kong, Shenzhen og Guangzhou mynda svæði með um 120 milljón íbúum. Á Indlandi eru tvær þéttbýlustu borgirnar við ströndina; Mumbai á vesturströndinni og Kolkata á austurströndinni. Karachi í Pakistan, sem fylgir þessum tveimur borgum fast eftir að íbúaþéttleika, er einmitt við árósa Indusfljótsins. Þannig má sjá að þótt miklar breytingar hafi orðið á lifnaðarháttum mannkyns býr langstærstur hluti þess við ströndina og við stærstu og frjósömustu árnar. Stór svæði heimsins eru óbyggð. Þriðjungur af þurrlendi jarðar er algjörlega óbyggður og eru margar ástæður fyrir því. Ekki er hægt að byggja jökla og algerar eyðimerkur. Það er ekki ákjósanlegt að búa þar sem loftslag er of þurrt, of kalt, of heitt eða þar sem er of úrkomusamt. Fjalllendi og bratti hamla líka búsetu og þau svæði þar sem jarðvegur er þunnur eða ófrjósamur bjóða heldur ekki upp á vænlega lífsafkomu. Þetta þýðir þó ekki að fólk búi ekki á svæðum sem eru illbyggileg. Kína er fjölmennasta ríki heims, þar býr tæplega 1/5 hluti mannkyns.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=