Um víða veröld - Heimsálfur

127 Suður-Ameríka Inkar Inkaríkið var stofnað um 1200 og var í fyrstu smáríki í kringum höfuðborgina Cuzco í Andesfjöllum, sem nú er borg í Perú. Undir lok stórveldistíma Inkanna, 1438–1532, náði ríki þeirra langt norður og suður eftir Andesfjöllum á landsvæði sem í dag nær yfir Ekvador, Perú, Bólivíu og Chile. Þjóðhöfðinginn var kallaður Inkinn (niðji sólarinnar) og var hann voldugastur. Hermenn, embættismenn og klerkar tilheyrðu yfirstétt en bændur og hirðingjar lágstétt. Inkarnir voru snillingar í að hlaða úr steinumog byggja vegi og brýr. Sum hús og hof voru byggð úr svo vel höggnum steinum og þéttlögðum að ekki var hægt að koma hnífsblaði á milli steinanna. Inkar þekktu ekki hjólið en fóru fótgangandi þess í stað um vegina. Almenningur borgaði skatta í formi herskyldu og skylduvinnu í þágu ríkisins. Inkar voru miklir handverksmenn sem ófu og smíðuðu fallega gripi úr gulli og silfri. Innrás Spánverja árið 1532 batt snögglega endi á veldi Inka. Í leit sinni að gulli og gersemum í Suður-Ameríku tók það Spánverja mjög skamman tíma að sigra auðug og skipulögð samfélög Andesfjalla. Árið 1531 lagði spænski fjársjóðsleitarmaðurinn Francisco Pizarro af stað frá Panama til landvinninga í fjöllunum. Markmið hans var að komast yfir eins mikið af gulli og hann gæti. Þegar hann kom til Inkaríkisins stóð þar yfir borgarastyrjöld og voru varnir Inka því veikar. Með einungis 180 manna herliði náði Pizarro að handsama þjóðhöfðingja Inkanna og krefjast lausnargjalds. Þrátt fyrir að lausnargjaldið (mikið gull) hafi verið greitt héldu þeir honum enn föngnum. Þá fyrst braust út stríð á milli Inka og Spánverja. Að lokum fór það svo að Spánverjar gersigruðu Inka við höfuðborg þeirra, Cuzco, árið 1536. Inkar höfðu fá svör við fallbyssum og skotvopnum Spánverja. En það sem skipti líklega meira máli var að samfélag þeirra var þjakað af bólusótt og innanlandsófriði. Undir stjórn Túpac Amaru hörfuðu Inkar til fjalla. Þaðan gerðu þeir oft árásir á Spánverja, eða allt fram til ársins 1572 þegar Túpac var handsamaður og hálshöggvinn. Þá leið Inkaveldið endanlega undir lok og í kjölfarið tóku Spánverjar til við að útrýma menningu og siðum Inkanna. Núorðið eru frumbyggjar um helmingur íbúa þess svæðis sem Inkaríkið náði yfir. Stórbrotnar rústir Machu Picchu bera vitni um háþróaða menningu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=