Sófus og svínið

Til foreldra og kennara Þessi saga er skrifuð sem lestrarbók fyrir yngstu nemendurna en ekki síður í þeim tilgangi að sá nokkrum frækornum sem gætu vakið áhuga ungra lesenda á myndlist og að njóta hennar. Hugmyndin kviknaði í starfi mínu í skólum en ég hef starfað bæði sem myndmenntakennari og myndlistarmaður. Oft hefur mér fundist vanta efni sem væri til þess fallið að kynna fyrir börnunum verk úr listasögunni og gæfi tilefni til að samþætta myndmennt og íslensku. Málverkin af svíninu Konráði á vinstri síðum bókarinnar vísa öll til þekktra verka í listasögunni en til þess að skapa heild ákvað ég að velja eingöngu andlitsmyndir, svokölluð portrett. Ég ákvað að velja einungis verk eftir stórkanónur listasögunnar og eingöngu erlenda meistara. Einnig leitaðist ég við að dreifa myndunum á mismunandi tímabil listasögunnar. Eins og virtir listamenn fyrri alda hefur Sófus aðstoðarmann til að hjálpa sér við vinnuna. Aðstoðarmennirnir voru oftast jafnframt lærlingar og oft ríkir óvissa um hve stóran þátt listamaðurinn átti í verkinu og hver var hlutur lærlingsins. Umræðupunktar • Hvernig líta fyrirmyndir málverka Sófusar út? Til að finna þær má fara á netið og hjálpa barninu við að leita að nafni listmálarans eða heiti verksins. Slík leit er einfaldasta útgáfa vefleiðangurs. • Hvað eru sjálfsmyndir (portrett)? Hvaða málverk eru sjálfsmyndir? Hvaða málverk eru ekki eiginleg portrett? • Það eru fleiri karlar en konur sem gerðu þessi málverk, af hverju ætli svo hafi verið? • Hvernig breytast málverk eftir því sem nær dregur nútímanum? Hér er gott að hafa við höndina listaverkabækur, skoða mismunandi tíma og stefnur, bera saman og ræða. • Hvað finnst ykkur um að breyta málverkunum? Er verið að gera grín að þeim með því að láta svín í stað manneskju? Verða þau fyndin, skemmtileg eða skrýtin? • Er svindl að hafa einhvern til að hjálpa sér við að búa til listaverk? Getur skipt máli hvernig verk er um að ræða? • Hvaða önnur myndlist er til en málverk? Skúlptúrar, grafíkverk, ljósmyndir, vídeóverk, innsetningar o.fl . • Úr hverju eru málverk gerð? (Strigi, blindrammi, viðarplötur, pappír, olía, akríl, vatnslitir o.s.frv.). • Hvað er litblinda? Hvernig getur litblindur maður málað myndir? • Af hverju fór að ganga verr hjá Sófusi að mála? • Hvenær fór að ganga vel hjá Sófusi og Konráði? • Þurfa myndir endilega að líkjast raunveruleikanum? Má t.d. mála epli blá, er bannað að mála eða lita út fyrir línurnar?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=