Sjónpróf

Það var síðan haustið 2019 að ég fór að hugsa um að mig langaði að gera eitthvað fyrir augnlækninn, gleðja hann og þakka honum fyrir alla hans ómældu aðstoð og leiðsögn. Það tók mig nokkurn tíma að ákveða gjöfina til hans. Einn góðviðrisdag er ég á rölti niðri í fjöru í Vík í Mýrdal kom hugmyndin allt í einu: SJÓNPRÓF, ég gef honum auðvitað sjónpróf sem ég útbý sjálfur. Það á vel við hann, hugsaði ég upphátt, enginn hefur tekið mig eins oft í sjónpróf og hann. Úr varð að ég gerði sjónpróf handa honum, sjónpróf með nafni hans í, þar sem innihald þess lýsir því hversu góða sjón hann sé með í mannlegum samskiptum. Síðan leiddi eitt af öðru og ég bjó til nokkur önnur sjónpróf sem fólk var hrifið af og vildi eignast. Við gerð sjónprófanna notast ég við risastóran tölvuskjá og tölvu sem les allan texta upp fyrir mig og sterkasta stækkunargler sem til er, þannig gengur þetta allt upp. Já, þannig hljómar sagan um lögblinda manninn sem bjó til sjónpróf handa augnlækni sínum og eru nú valin sjónpróf komin í kennslubók í íslensku og lífsleikni sem aðgengileg er öllum. Hlýjar og góðar lestrarkveðjur. Vík í Mýrdal, 13. nóvember 2021 Svavar Guðmundsson

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=