RISAstórar smáSÖGUR 2023

40 Soffía ákveður að rannsaka málið betur og sest á ganginn og bíður. Nú gerist eitthvað á bak við þessa skrýtnu hurð. Eins og eitthvað renni til og nú sér hún að það er ljós hjá tökkunum, sem er eins og ör í laginu. Og nú opnast dyrnar aftur og gamall karl með staf kemur út úr þessu furðulega herbergi sem leynist á bak við hurðina. Soffía herðir upp hugann og fer inn um opnar dyrnar. Þá lokast þær aftur og þetta herbergi fer af stað. Þetta er lyfta. Hér ætla ég að eiga heima, segir hún upphátt við sjálfa sig. Inni í lyftunni er allt glansandi og silfurlitað, fullt af tökkum og fleira skrýtið. Soffía sest á gólfið og horfir í kringum sig. Það er ekkert inni í lyftunni, ekki stóll eða borð eða neitt. Hún finnur hvernig lyftan fer niður. Dyrnar opnast og inn kemur kona með fallegan hatt. – Hvað ert þú að gera hér, vinan? Ertu villt? spyr konan. – Nei, nei, ég veit alveg hvar ég er. Þetta er herbergið mitt. Konan ýtir á takka númer 6 og horfir upp í loftið. Hún fer út þegar lyftan stoppar. Þegar lyftan stoppar næst kemur maður inn með stóran hund. Soffíu bregður dálítið og horfir á þá, manninn og hundinn. – Hæ, segir maðurinn. Soffía kinkar kolli og virðir fyrir sér hundinn. – Hann heitir Kolur, af því hann er svo kolsvartur, segir maðurinn. Það finnst Soffíu mjög gott nafn á svartan hund.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=