Ofbeldi gegn börnum

83 Myndaspil – tilfinningalæsi. Notast má við alls konar myndir af ókunnugu fólki/börnum. Æskilegt er að myndefnið sé sem fjölbreytilegast þannig að greina megi mismunandi tilfinningar í andlitum fólksins. Pör eða hópar draga eina mynd og reyna að túlka tilfinningar viðkomandi. Hvað hefur gerst, hvar er hún/hann, hvers vegna líður honum/henni svona? Markmiðið með spilinu er að efla tilfinningalæsi og samræður en það getur jafnframt gefið kennaranum mikilvægar upplýsingar um reynslu og tilfinningar einstakra nemenda. FJÖLBREYTT SAMSETNING HÓPA Mikilvægt er að breyta reglulega samsetningu í hópum og paravinnu. Þegar hópaskiptingin er gerð skemmtileg verða nemendur oft jákvæðari gagnvart því að fara í nýjan hóp, auk þess sem aðferðin vekur gjarnan athygli á því að nemendur eiga ýmislegt sameiginlegt. Dæmi um leiðir til að para nemendur eða setja þá í hópa: • Nemendur raða sér í beina röð eftir afmælisdögum, þeir sem eru fæddir fyrst á árinu eru fremstir o.s.frv. Kennarinn biður þá fjóra sem eru fyrstir að fara saman í hóp, síðan næstu fjóra og svo koll af kolli. Það má einnig telja í hópana þannig að t.d. fjórði hver nemandi verði saman í hóp. • Nemendur standa á fætur og eiga að finna tiltekinn fjölda nemenda sem eru jafn háir þeim, með sama augnlit og þeir, í sams konar sokkum eða borðuðu sama morgunmat. FYRIR ELDRI NEMENDUR 10.2 KANNANIR Tengslakönnun. Gott er að leggja tengslakönnun og könnun um líðan reglulega fyrir nemendur. Einnig er mikilvægt að kennarinn skapi tækifæri til að ræða einslega við hvern og einn nemanda til að fá innsýn í líðan hans og stöðu í félagahópnum. Ekkert getur þó komið í stað þess að allir nemendur séu þess fullvissir að kennarinn beri umhyggju fyrir þeim. Nýta þarf niðurstöður til að takast á við vanda um leið og vísbendingar gefa hann til kynna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=