Ofbeldi gegn börnum

65 Í greininni eru tilgreindar margar fagstéttir sem ber sérstök skylda til að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna, m.a. kennarar, námsráðgjafar, stjórnendur og starfsfólk skóla. Segir að þeim sé skylt að gera barnavernd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í liðunum a–c í 16. gr. Þá segir einnig: Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. (Barnaverndarlög nr. 80, 2002, 17.gr.). Þessi ákvæði eru afdráttarlaus og víðtæk. Þá ber að minna á að gagnkvæm samstarfsskylda hvílir á skólum og barnavernd. Þessi ákvæði hafa verið lengi í gildi en framfaraspor varð þegar settar voru verklagsreglur fyrir skólafólk um tilkynningarskylduna (Barnaverndarstofa e.d.).25 Þar kemur fram að gert er ráð fyrir að starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla meti hvort ástand, líðan eða umönnun barns sé þannig háttað að tilkynna eigi um það til barnaverndar þar sem barnið býr. Varast ber þó að staldra mikið við orðið meta í þessu sambandi því að það er barnaverndar að kanna mál og tilkynna skal um grun, ekki aðeins staðfestar sannanir. En þarna er stundum hængur á því að rannsóknir og reynsla benda til þess að kennarar óski oft fyrst að staðfesta grun sinn áður en þeir tilkynna um mál (Bunting og Lazenblatt, 2009). Það er þó alls ekki hlutverk starfsfólks heldur er grunur nægjanlegur og fullgild ástæða til að tilkynna. Samkvæmt 30. gr. laga um grunnskóla skulu skólar hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldunnar og um hvernig brugðist er við einelti, öðru ofbeldi og félagslegri einangrun. Brýnt er að skólastjórnendur kynni starfsfólki reglur um tilkynningarskyldu og veki athygli á þeim, m.a. á fundum og í handbók skóla. Fræðsla og færniþjálfun starfsmanna er á ábyrgð skólans og starfsfólk ætti að leita eftir henni ef frumkvæði stjórnenda skortir. Barnaverndarlög kveða á um tilkynningarskyldu þeirra sem hafa afskipti af börnum 25 https://www.bvs.is/media/almenningur/Verklagsreglur-um-tilkynningaskyldu-starfsmanna-leik-og-grunnskola-2021.pdf

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=