Ofbeldi gegn börnum

10 Ofbeldi gegn börnum er yfirleitt skipt í líkamlegt, kynferðislegt eða vanrækslu (WHO, 2020). Einelti er oft aðgreint sem sérstakt birtingarform. Ofbeldi tengist einnig vændi og mansali. Af þessu má sjá að ofbeldi er margþætt fyrirbæri og innbyggt í og háð samfélagsgerðinni. Skilningur manna á því hvað telst vera ofbeldi er háður venjum og því hvað er menningarlega viðurkennt eftir hópum, á heimilum, í skólum eða utanhúss. Hin ýmsu form ofbeldis fléttast oft saman. Til dæmis getur barn sem verður vitni að ofbeldi milli foreldra, sem eru í vímuefnaneyslu, einnig orðið fyrir ofbeldi af hendi eldri systkina og barn sem býr við viðvarandi vanrækslu getur orðið fyrir einelti í skóla. Þó að gátlistar geti komið að notum við greiningar gefa þeir ekki tæmandi svör og oft þarf að líta á heildarmyndina af aðstæðum barns. Erlendis eru til fjölmargar rannsóknir á hvers kyns ofbeldi frá ýmsum hliðum en einungis fáar hérlendis, þó að þær færist nokkuð í aukana. Hér á eftir verður lýst í stuttu máli nýlegri þekkingu á efninu og þá sérstaklega miðað við börn. Tekið er á ofbeldi frá félagslegum sjónarhóli og því er fjallað um fordóma. Skilgreiningar á ofbeldi eru félagslega mótaðar, þær verða til í hverju samfélagi og tengjast tíma, staðháttum og ríkjandi menningu. Löggjöfin tekur mið af þessu. Dæmi um slíkt er að á Norðurlöndum er refsivert að flengja börn, ólíkt því sem er í Englandi þar sem foreldrum leyfist að refsa börnum líkamlega fyrir óæskilega hegðun, s.s. með því að flengja þau. Hætta getur falist í að styðjast við flokkanir á ofbeldi, sérstaklega ef ein gerð flokkunar er yfirfærð yfir á annan menningarheim, þar sem samskipti og reglur á heimili og í skóla eru gerólík. Flokkanir á ofbeldisformum stuðla þó að sameiginlegum skilningi á því hvað er löglegt, ólöglegt og samfélagslega viðurkennt, þær auðvelda samhæfingu og ákvarðanir um viðbrögð, og augljósara verður hvað barni er fyrir bestu í aðstæðum sem koma upp. Hér á landi er stuðst við landslög og alþjóðasamninga sem marka hvað er ásættanlegt og hvað ekki í umgengni við og hegðun gagnvart börnum (Barnalög, nr. 27, 2003; Barnaverndarlög, nr. 80, 2002; Lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns, nr. 19, 2013). Skilgreiningar á ofbeldi eru félagslega mótaðar og tengjast menningu

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=