Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 8 Lífbreytileiki nær yfir breytileika innan tegunda, milli tegunda og þeirra vistkerfa sem þessar lífverur mynda og eru hluti af, á landi, í sjó og ferskvatni. Tegundafjöldi getur verið afar ólíkur á milli lífbelta því aðstæðurnar eru ólíkar. Í hitabeltinu finnast mjög margar tegundir en við heimskautin finnast fáar tegundir í samanburði og það er eðlilegt ástand. Tegundafjöldi einn og sér segir alls ekki alla söguna um lífbreytileika og einföld heimskautavistkerfi geta verið í mjög góðu ástandi og ekki æskilegt að þar sé bætt við fleiri tegundum. Í bæði heimskautavistkerfum og regnskógum er um viðkvæmt jafnvægi að ræða því þar hafa lífverur þróast saman, sumar í mikilli samkeppni við aðrar tegundir og aðrar í lítilli samkeppni. Jafnvel litlar breytingar á þessu jafnvægi geta haft slæm áhrif á lífríkið í þessum ólíku lífbeltum. Lífbreytileiki á Íslandi Ísland er ung eyja í úthafinu og það er nokkuð stutt frá síðasta jökulskeiði. Þess vegna eru hér fáar tegundir miðað við meginlöndin og margar tegundanna hafa þróast öðruvísi hér en annars staðar. Á eldfjallaeyjunni okkar eru einstök og fjölbreytt búsvæði fyrir lífríki og lítil samkeppni á milli tegunda. Þetta býr til góðar aðstæður fyrir þróun tegunda og á Íslandi er því að finna óvenjulega mikinn breytileika innan tegunda. Má þar nefna t.d. bleikjuna í Þingvallavatni þar sem fjögur afbrigði hafa þróast úr einni tegund á einungis 10 þúsund árum. Þetta eru sílableikja, kuðungableikja, murta og dvergbleikja en þær eru misstórar og eiga sér ólík búsvæði. Einnig hefur fundist mikill breytileiki hjá fleiri tegundum eins og hornsíli, birki og víðitegundum. Það sárvantar meiri rannsóknir á lífbreytileika á Íslandi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=