Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 79 4. Tilraunir Tilraun 1. Skítatilraun (lífrænn áburður í endurheimt vistkerfis) Áætlaður tími fyrir verkefni Þessi tilraun er sett upp að vori, svo eru gerðar gróðurmælingar að hausti og í kjölfarið er unnið úr gögnunum. Tilraunin tekur því að lágmarki 4-6 mánuði í framkvæmd. Ef vilji er fyrir hendi má halda mælingum áfram og gera þetta að langtímaverkefni og jafnvel gera tilraunir með fleiri vistheimtaraðgerðir en bara skít. Tilgangur Þetta verkefni er vistheimtaraðgerð þar sem þið tengið saman vinnu á vettvangi við það sem þið hafið lært í þessu námsefni. Þið kynnist alvöru vísindalegum aðferðum og lærið hvaða áhrif skítur (lífrænn áburður) hefur á ógróið land og hvað breytist í jarðveginum við þessa aðgerð. Þið munið prófa mismunandi aðferðir sem notaðar eru til að koma næringarefnum aftur inn í vistkerfið og vatnshringrásinni aftur af stað og búa þannig til aðstæður fyrir gróðurinn að koma til baka. Ef þið eruð heppin gætuð þið einnig séð aðrar lífverur birtast á ný, eins og smádýr og fugla. Fræðsla Lesið kaflann Lesið í náttúruna Gróðursnauð eða örfoka svæði eru vistkerfi á fallanda fæti (skemmd) sem þurfa aðstoð til að ná bata. Vistkerfið er hrunið, þar er nær enginn gróður eftir og heldur ekki mikill jarðvegur, hann er hreinlega fokinn burt. Í svona stórskemmdum vistkerfum virka hringrásir vatns og næringarefna ekki lengur eða eru a.m.k. mjög laskaðar. Það má líkja þessu við þegar keðja á reiðhjóli slitnar, það þarf að gera við keðjuna svo hægt sé að hjóla á ný. Vegkantar eru oft illa grónir eða þeir fyllast af gróðri sem er allt öðruvísi en gróðurinn í nágrenninu. Það er mjög mismunandi hvernig gengið hefur verið frá eftir vegaframkvæmdir og það fer líka eftir því hversu langt er síðan vegurinn var byggður. Þegar vel hefur heppnast að ganga frá vegkanti þá er samfelldur staðargróður (gróðurinn sem var til staðar áður en vegurinn var byggður) frá upprunalegu vistkerfunum og alveg upp að vegi. Það er auðveldast að ná slíkum árangri ef plöntur og jarðvegur er nýttur af framkvæmdarsvæðunum sjálfum en þá þarf að undirbúa slíkan flutning vel svo að plönturnar lifi af. Svona framkvæmdir hafa sums staðar tekist vel, t.d. við nýlegar endurbætur á Þingvallavegi. En þegar um gamla vegi er að ræða þá þarf að grípa til annarra aðgerða til að græða upp og endurheimta vistkerfið sem hefur tapast vegna framkvæmdanna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=