Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 70 Verkefni 5. Smádýr Áætlaður tími fyrir verkefni Þetta verkefni tekur 1-2 kennslustundir í undirbúning og 2-3 verklega tíma á vettvangi og við greiningar á smádýrum og gögnum. Samtals 3-5 kennslustundir. Tilgangur Tilgangur þessa verkefnis er að þið kynnist spennandi og fjölbreyttum heimi smádýranna og lærið að þekkja helstu tegundir og hópa. Í þessu verkefni er lögð áhersla á smádýr á landi. Fræðsla Með smádýrum er hér aðallega átt við hryggleysingja (dýr sem hafa ekki hrygg). Þetta eru afar fjölbreyttar og mikilvægar lífverur í vistkerfum Jarðar, allt frá flugum til krossfiska. Smádýr finnast út um allt, þau eru á landi, í ferskvatni og í sjó og fjöru. Sum fljúga, önnur synda og enn önnur lifa í moldinni. Hunangsbýflugur eru t.d. taldar veramikilvægustu lífverur Jarðar fyrir okkur mannfólkið því þær frjóvga stóran hluta af matnum okkar (ávexti og grænmeti). Hunangsbýflugum hefur fækkað mjög mikið og er það áhyggjuefni. Á Íslandi eru ekki villtar hunangsbýflugur en hér finnast ýmsar aðrar tegundir frjóbera eins og m.a. humlur og sveifflugur. Flugur eru skordýr því þær hafa þrískiptan bol, tvo fálmara, tvö samsett augu og sex lappir. Köngulær eru ekki skordýr heldur langfætlur og þær hafa átta lappir. Sniglar eru lindýr og ekki með neinar lappir. Sumar lífverur, þar á meðal smádýr, nota hermun (e. mimicry) en það er þegar tegundir hafa þróast þannig að þær líkjast öðrum tegundum eða jafnvel hlutum. Sumar tegundir „þykjast“ þannig vera laufblöð eða jafnvel eitraðar tegundir og tilgangur hermunar er oft sá að gera allt sem þær geta til að vera ekki étnar. Hægt er að skoða smádýr á smádýravef Menntamálastofnunar og á pödduvef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Undirbúningur Hægt er að skoða og fylgjast með smádýrum á ýmsan hátt. Það er hægt að finna þau og skoða þar sem þau lifa (t.d. í fjöru, á húsvegg, í moldarbeði, á laufblaði eða í tjörn) og einnig er hægt að veiða þau í háfa og dollur og skoða undir víðsjá í skólastofu. Ef þetta er gert er góð regla að skila dýrunum aftur heim eftir að búið er að skoða þau. Það er einnig hægt að setja niður fallgildrur til að skoða smádýr í og við jörðu og þá sjáum við einnig þau smádýr sem eru dugleg að fela sig og við myndum annars ekki sjá. Fallgildrur eru notaðar til að veiða smádýr sem halda sig mest á yfirborði jarðvegs. Fallgildrurnar er hægt að búa til úr skyr- eða jógúrtdollum sem eru grafnar niður þannig að barmarnir nemi við yfirborð jarðvegsins.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=