Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 35 Vistheimt á landi Það getur tekið mjög langan tíma fyrir frjósaman jarðveg að myndast. Ekki verður til jarðvegur án gróðurs og gróður þrífst ekki nema jarðvegur sé til staðar. Þetta er mikilvægt samspil. Með vistheimt er vistkerfinu hjálpað við að ná bata og koma náttúrulegum ferlum, eins og hringrásum vatns og næringarefna, aftur af stað. Þegar þessar hringrásir eru komnar í gang heldur vistkerfið sjálft áfram gróa, alveg eins og brotni fóturinn sem fer að gróa eftir að hann er kominn í gifs. Endurheimt vistkerfi eru þó ekki nákvæmar eftirlíkingar af upphaflegu vistkerfi enda eru þau síbreytileg eins og umhverfi þeirra. Við framvindu verða breytingar á jarðvegi, plöntu-, dýra-, sveppa- og örverusamfélögum í vistkerfinu og á sama tíma eykst virkni vistkerfisins. Hægt er að hafa áhrif á framvinduna þannig að vistkerfið þróist í átt að því sem sóst er eftir. Vistheimt á landi er alls ekki eingöngu bundin við örfoka land þar sem gróður og mold hafa horfið. Það er miklu árangursríkara og ódýrara að endurheimta vistkerfi sem er ekki alveg hrunið. Það er því til mikils að vinna að læra að lesa landið og þekkja einkenni landhnignunar. Þá er hægt að grípa strax inn í hnignunarferlið og snúa því við þannig að vistheimtarferlið taki við. Alveg eins og með fótbrot, þá skilar það betri árangri að búa um fótinn strax og setja í gifs í stað þess að haltra um á brotnum fæti sem ekki bara hindrar batann heldur getur gert illt verra. Tími og þolinmæði skiptir miklu máli í bata vistkerfa því það getur tekið áratugi og jafnvel aldir að mynda frjósaman jarðveg. Þótt komin sé gróðurþekja á svæði sem áður var gróðurlaust þýðir það ekki endilega að vistkerfið hafi náð fullum bata. Þessu má líkja við það þegar maður er laus við gifs eftir fótbrot þá er fóturinn enn veikburða þó beinið sé gróið. Þar sem mikið rask hefur orðið á vistkerfum getur tekið áratugi eða jafnvel aldir fyrir þau að ná bata. Það er margt sem þarf að hafa í huga þegar farið er í vistheimtaraðgerðir og það fer eftir aðstæðum á hverjum stað hvaða aðferðir henta best. „Verkfærataska vistheimtar“ á landi inniheldur því fjölbreyttar aðgerðir, m.a. áburðargjöf, sáningu, stjórnun beitarálags, þakningu með lífrænum efnum, eyðingu ágengra framandi tegunda og hækkunar yfirborðs vatns í framræstu votlendi. Frá síðustu ísöld er birki eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga og því eru birkiskógar einu náttúruskógar landsins. Í nytjaskógrækt eru notaðar framandi tegundir og slíkir skógar heyra undir landbúnað.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=