Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 19 Loftslagsmálin Loftslagsmálin í hnotskurn Þegar ein frumeind af kolefni (C) binst tveimur frumeindum af súrefni (O+O) þá myndast CO2. Lofttegundin CO2 á sér mörg nöfn og það getur verið svolítið ruglingslegt. M.a. er talað um koltvísýring, koltvíildi, koltvíoxíð eða koldíoxíð en þetta eru allt nöfn yfir sama hlutinn. Í þessu námsefni verður talað um CO2 og koltvíoxíð. Koltvíoxíð er öflug gróðurhúsalofttegund. Jafnvel þó flestir tali um þessa lofttegund í dag eins og hún sé slæm eða jafnvel mengun þá er hún mikilvægur hluti af lofthjúpnum á Jörðinni sem heldur okkur á lífi. Koltvíoxíð ásamt öðrum gróðurhúsalofttegundum eins og t.d. metan (CH4) og vatnsgufu (H2O) er að finna í lofthjúpi jarðar. Gróðurhúsalofttegundirnar halda mismikið í varmann og metan er t.d. um 25x öflugri í því en koltvíoxíð. Þessar lofttegundir eru kallaðar gróðurhúsalofttegundir enda virka þær svolítið eins og gróðurhús. Sólin sendir frá sér geisla sem lenda á yfirborði jarðar. Hluti þeirra endurkastast frá Jörðinni sem varmi aftur út í lofthjúpinn. Gróðurhúsalofttegundir í lofthjúpnum gleypa hluta af þessum endurkastaða varma og halda honum að Jörðinni þannig að hann sleppur ekki út í geiminn. Þannig helst hiti á Jörðinni, svolítið eins og hún væri í lopapeysu. Gróðurhúsaáhrifin eru náttúrulegt fyrirbæri sem heldur meðalhita á Jörðinni um 15 °C. Án gróðurhúsaáhrifa væri meðalhiti um 33 gráðum minni en hann er núna, eða um –18 °C, og Jörðin væri þá of köld til að við gætum lifað hér.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=