Menntun til sjálfbærni

2. KAFLI Menntun til sjálfbærni – fræðilegur grunnur 18 Geta til aðgerða: hæfni til að nota á virkan hátt þekkinguna um sjálfbæra þróun og að bera kennsl á vandamál sem ósjálfbær þróun veldur til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga. Að efla alla þessa lykilhæfni er síðan grundvöllur þess að nemendur geti öðlast getu til aðgerða. Segja má að hún sé aðalmarkmiðið og lykilhugtak í menntun til sjálfbærni. Í stuttu og einföldu máli er geta til aðgerða hæfni til að nota á virkan hátt þekkinguna um sjálfbæra þróun og að bera kennsl á vandamál sem ósjálfbær þróun veldur til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga. Það er s.s. að efla vilja og getu einstaklinga til að taka virkan þátt í að móta samfélagið í átt að sjálfbærri þróun. Áherslan er á virka þátttöku nemenda í aðgerðum sem stuðla að sjálfbærri þróun. Það þarf að efla nemendur í lýðræðislegum vinnubrögðum og virkri þátttöku í samfélaginu. Það er m.a. gert með því að þjálfa þau í að taka upplýstar ákvarðanir, skilgreina leiðir og framkvæma þær varðandi raunverulegar áskoranir sem tengjast eigin samfélagi og jafnvel eigin lífi. Nemendur eiga að fá tækifæri til þess að rannsaka og rýna, finna lausnir og taka síðan virkan þátt í að breyta því sem er innan færis hvers og eins eða hópsins. Með getu til aðgerða öðlast nemendur kjark, færni, getu og vilja til að hafa áhrif og grípa til aðgerða og verða meðvitaðir um þennan mátt sinn og getu. Geta til aðgerða eflir nemendur til þess að vera virkir samfélagsþegnar sem gera sér grein fyrir því að þeir hafa völd til þess að breyta sjálfum sér, hafa áhrif á aðra og framkvæma með það í huga að umbreyta samfélaginu í átt að sjálfbærri þróun.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=