Maður og náttúra

145 ORÐSKÝRINGAR misheitu vatnsmassa. Hitaskiptalag myndast sjaldan í íslenskum stöðuvötnum vegna þess hve vindar eru tíðir hér. jafnskipting (mítósa): ferli þar sem kjarni frumu skiptir sér í tvennt og til verða tvær frumur sem eru nákvæmar eftirmyndir móðurfrumunnar (frumunnar sem skipti sér í upphafi). Allar frumur líkamans, nema kynfrumurnar, verða til við jafnskiptingu. jarðefnaeldsneyti : eldsneyti sem unnið er úr jörðu og er leifar lífvera sem lifðu fyrir milljónum ára. Jarðefnaeldsneyti er fyrst og fremst kol, olía og gas. klónun (einræktun): aðferð til að búa til nákvæma eftirmynd af frumu eða heilli lífveru. Heilar lífverur eru klónaðar með því að kjarni er tekinn úr venjulegri frumu í líkamanum og honum er komið fyrir í eggfrumu, en áður hefur kjarni hennar verið fjarlægður. Þessi eggfruma skiptir sér á sama hátt og frjóvguð eggfruma og til verður nýr einstaklingur. Sauðkindin Dollý var fyrsta spendýrið sem varð til við klónun. kvæmi : hópur plantna sem hafa lagað sig að sérstökum veðurfarsskilyrðum á tilteknum stað. Kvæmi birkis eru til dæmis mismunandi eftir því hvort trén vaxa nálægt hafi, þar sem seltu gætir og vindar eru tíðir, eða inni í landi þar sem selta er lítil og veður eru að jafnaði kyrrari. kynbætur : ævagömul aðferð manna til að fá fram sífellt betri og afurðameiri plöntur eða húsdýr. Aðferðin byggist á því að velja alltaf úr plöntur eða dýr sem eru augljóslega með eftirsóknarverðustu eiginleikana í hverjum hópi og nota þau til fjölgunar eða undaneldis. Með aukinni þekkingu í erfðafræði er unnt að kynbæta plöntur og dýr á mun markvissari hátt en áður. Kynbætur eru ekki það sama og erfðatækni. kynlitningur : sjá X-litningur. kyntengdar erfðir : erfðir eiginleika sem ráðast af genum sem eru í kynlitningunum, X- eða Y-litningum. Erfðir litblindu og dreyrasýki eru dæmi um kyntengdar erfðir. litningur : þráðlaga frumulíffæri með DNA- sameind sem geymir erfðaupplýsingar frumna. Í hverri frumu mannslíkamans eru 46 litningar í 23 pörum. Í litningapari númer 23 eru kynlitningarnir, X- og Y-litningarnir. lífeldsneyti : lífrænt eldsneyti sem er endurnýjanlegt, til dæmis viður, etanól, lífdísilolía og lífgas. Lífeldsneyti er vistvænna en jarðefnaeldsneyti vegna þess að það fyrrnefnda myndast við ljóstillífun og það endurnýjast stöðugt. líffræðileg fjölbreytni : fjölbreytileiki tegunda í náttúrunni, það er hversu margar tegundir lífvera finnast á tilteknu svæði. Líffræðileg fjölbreytni byggist líka á fjölbreytileika lífveranna innan hverrar tegundar. Líffræðileg fjölbreytni er mikilvæg en umsvif mannsins hafa víða orðið til þess að hún hefur minnkað og nú reyna menn að snúa þeirri þróun við. ljóstillífun : efnaferli í plöntum þar sem ólífræn efni verða að lífrænum efnum. Ferlið krefst orku sem fengin er úr sólargeislum og þannig binst orka sólar í lífrænu efnunum. meiósa : sjá rýriskipting. mítósa : sjá jafnskipting. náttúruval : val sem á sér stað í náttúrunni og stafar af flóknu samspili milli lífvera og umhverfis þeirra. Þær lífverur, sem búa yfir heppilegustu eiginleikunum í því umhverfi sem þær lifa í, komast betur af en hinar. Þær afla sér til dæmis meiri næringar en hinar lífverurnar og geta því komið fleiri afkvæmum á legg og þannig erfast þessir eiginleikar frekar en þeir eiginleikar sem eru síður heppilegir. neytandi : dýr sem aflar sér næringar með því að éta aðrar lífverur. Neytandi, sem étur plöntur, er fyrsta stigs neytandi og neytandi, sem étur plöntuætur, er annars stigs neytandi. Toppneytandi er dýr sem ekkert annað dýr étur, til dæmis ljón eða maður. ofauðgun : ástand í vistkerfi sem stafar af því að of mikið af næringarefnum hefur borist inn í vistkerfið og raskað eðlilegu jafnvægi. Ofauðgun stafar oftast af of miklu nitri og fosfór, einkum í stöðuvötnum og innilokuðum hafsvæðum (innhöfum). Við svona skilyrði vex plöntusvifið gríðarlega og ýmsar vatnaplöntur geta fjölgað sér óhóflega. Sumar bakteríur geta líka fjölgað sér óeðlilega mikið. Þörungablómi er það þegar ein tegund svifþörunga fjölgar sér óeðlilega mikið. okfruma : fyrsta fruma hvers einstaklings hjá lífverum sem fjölga sér með kynæxlun. Okfruman verður til við samruna eggfrumu og sáðfrumu. reitatafla : tafla sem er sett upp til að reikna út hvernig tiltekinn eiginleiki erfist. Arfgerð bæði móður og föður verður að vera þekkt og einnig hvort viðkomandi gen eru víkjandi eða ríkjandi. réttlætismerking : sjá siðgæðisvottun. ríkjandi gen : gen, sem stýrir eiginleika sem kemur ávallt fram, jafnvel þótt hann hafi bara erfst frá öðru foreldrinu. rotvera : sjá sundrandi. rýriskipting (meiósa): sérstök tegund frumuskiptingar þar sem fruma skiptir sér og til verða fjórar dótturfrumur sem hafa helmingi færri litninga en móðurfruman hafði. Kynfrumur eru einu frumur líkamans sem verða til við rýriskiptingu. samkeppni : barátta, sem á sér stað í náttúrunni, milli lífvera um að komast af. Samkeppni ríkir í náttúrunni bæði milli lífvera af sömu tegund og milli lífvera af mismunandi tegundum. Baráttan snýst fyrst og fremst um fæðu, vatn, búsvæði og maka. sess : hlutverk og staða lífveru í vistkerfinu. Sess nær meðal annars til þess svæðis sem lífvera nýtir sér og til samskipta við aðrar lífverur. Samkeppni milli lífvera verður til þess að hver tegund skipar sérstakan sess í vistkerfi, sem glögglega má sjá til dæmis í beltaskiptingu lífvera í fjörum. sérhæfing : það að lífverur laga sig að sérstökum lifnaðarháttum, til dæmis að sérstöku fæðuvali eða sérstökum umhverfisskilyrðum. Samkeppni milli lífvera neyðir þær til að aðlagast sérstökum aðstæðum og þannig sérhæfast þær á ýmsan hátt. Sérhæfing

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=