Lesið í skóginn

5 YNGSTA STIG MIÐSTIG UNGLINGASTIG Grillað í skóginum 40212 – LESIÐ Í SKÓGINN Höfundar: Helga Teitsdóttir og Sigríður Olgeirsdóttir Markmið: Að nemendur þekki mun á trjátegundum, bæði útliti og bragði. Efla samveru, samvinnu og rýmisgreind. Auka þekkingu á umhverfinu og efla hæfni í greiningu á aðstæðum ásamt því að þjálfa leikni nemenda á vettvangi og hæfni í verklegu námi. Námsgreinar: Heimilisfræði og myndmennt. Tæki og tól: Eldiviður, olía, eldspýtur, deig, birkigreinar, hnífar og eitt bretti. Spjöld, pappír og teikniáhöld. Ef ekki eru greinar á staðnum sem henta, getur verið gott að hafa þær meðferðis annars staðar frá. Ýmsar bækur nýtast við vinnuna. Dæmi: Plöntuhandbókin eftir Hörð Kristinsson, Íslenskar lækningajurtir, Flóra Íslands. Plöntuvefur Menntamálastofnunar . Verklýsing: Hægt er að vinna sér í haginn ef verkefnið er ekki unnið á þeim tíma sem jurtirnar eru í blóma. Þá má tína lauf og jurtir, t.d. birkilauf, og setja í frysti að hausti. Þegar vinna á verkefnið eru laufin tekin úr frysti, söxuð og sett saman við deigið sem krydd. Gott er að nota greinar úr skóginum til að grilla brauðið á, t.d. birkigreinar. Leyfa nemendum að tálga börkinn af á þeim enda þar sem brauðið á að vera. Einnig er gott að vera með víðigreinar 70-80 cm langar. Þær þarf ekki að tálga og hægt er að nota þær aftur og aftur. Þá skiptir máli að greinarnar séu ekki of stuttar þannig að börnin séu ekki of nálægt eldinum og reyknum. Grillað er við opinn eld þar sem nemendur læra að bera virðingu fyrir eldinum og gera sér grein fyrir gagni hans við eldamennskuna. Hægt er að tengja við myndmenntina á þann hátt að börnin setjist niður og teikni það sem þau sjá í skóginum eða náttúrunni. Einnig er gott að fræðast um íslenskar jurtir, sem krydd eða lækningajurtir, með aðstoð handbóka um plöntur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=