Kyn, kynlíf og allt hitt - Rafbók

Til kennara og forsjáradila Þetta er öðruvísi bók fyrir börn um kyn og kynlíf. Flestar bækur sem fjalla um kyn og kynlíf eru fullar af svörum. Svör geta verið hjálpleg og traustvekjandi en þau geta líka sagt okkur hvað við eigum að hugsa. Jafnvel hvernig við eigum að hugsa í stað þess að hvetja okkur til að hugsa sjálfstætt og virða okkar eigin þekkingu og reynslu. Í þessari bókaröð eru þrjár bækur. Fyrsta bókin (What makes a baby) er ætluð yngri nemendum og fjallar um æxlun. Því næst er þessi bók: Kyn, kynlíf og allt hitt. Þriðja bókin (You know, sex) er fyrir eldri nemendur og fjallar á fjölbreyttan hátt um kynþroska og kynlíf. Efni fyrstu og þriðju bókarinnar er ekki meðal umfjöllunarefna þessarar bókar. Kynfræðsla snýst um meira en fræðin og svokallaðar staðreyndir lífsins. Ég tel að mikilvægasti hluti kynfræðslu sé að kanna og deila tilfinningum okkar, gildum og skoðunum og hjálpa börnum að tengja það sem þau læra við samfélagið sem þau búa í, sögu, fjölskyldu og menningu. Þessi bók gerir þér þetta kleift. Við höfum útvegað umgjörðina í bókinni, og grunnupplýsingar um líkama, kyn og snertingu en einnig spurningar og vangaveltur sem börnin geta svarað með þinni hjálp. Sannleikurinn er sá að orðin kyn og kynlíf virðast e.t.v. skondin, en þau eru líka flókin og því eru mikilvæg samtöl um kynlíf ekki alltaf auðveld eða skemmtileg en þau undirbúa okkur öll fyrir lífið eins og það er. Kyn, kynlíf og allt hitt hjálpar til við þessi samtöl. HVERNIG ER BEST AÐ NOTA ÞESSA BÓK? Þessi bók er hugsuð þannig að hún sé notuð yfir lengri tíma – vikur, mánuði, jafnvel ár – fremur en að taka efnið fyrir í nokkrum kennslustundum. Þú munt finna að það verða til ólík samtöl eftir því á hvaða aldri nemendur eru. Áður en þú lest bókina með börnum, eða lætur þau fá bókina til að lesa hana sjálf, þá er mikilvægt að þú lesir hana vel yfir. Skoðaðu vel spurningarnar í lok hvers kafla. Hugsaðu vel þín eigin svör eða viðbrögð við þessum spurningum og hugsaðu um hvernig þú myndir takast á við þessar spurningar með barni. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir síðasta hlutann í fjórða kafla, sem heitir „Leyndarmál,“ og fjallar um kynferðislega misnotkun. Þetta er erfitt umræðuefni fyrir okkur öll. Við viljum ekki ímynda okkur að börnin okkar lendi í kynferðisofbeldi og mörg okkar hafa eigin reynslu af kynferðislegri áreitni og ofbeldi, sem kemur ósjálfrátt upp í hugann þegar við hugsum um öryggi barnanna í lífi okkar. Lestu vandlega yfir þennan kafla áður en þú lest hann með börnum, og gefðu þér tíma og leyfi til að bregðast við í einrúmi. Þegar þú kemur að spurningum í bókinni deildu svörum þínum með börnunum. Ef þau eru ekki tilbúin til að deila sínum svörum, skaltu ekki þrýsta á þau. Best er að vinna efnið af þolinmæði og gefa börnunum svigrúm til að tjá sig og velja hvenær þau tala því að það eykur líkurnar á að þau tjái sig. EINSTAKIR EIGINLEIKAR ÞESSARAR BÓKAR SKEMMTILEG OG GAGNVIRK! Hver kafli byrjar á myndasögu og lýkur með spurningasíðu eða verkefnasíðu. Ef börn vilja ekki tala um eitthvert efni leyfðu þeim það. Það er alltaf tími til að fjalla um efnið aftur síðar. AUÐSKILIN! Við forðumst að nota fræðiorð og hugtök yfir mismunandi sjálfsmyndir þegar við getum, svo að við höfum öll rými til að lýsa okkur sjálfum. En það er hugtakalisti aftast í bókinni með orðum sem getur verið erfitt að útskýra. ENGIN PRESSA! Eina kynlífið sem er fjallað um í þessari bók er sjálfsfróun (í fjórða kafla, „Snerting“). Við fjöllum meira um kynlíf í síðustu bókinni í þessari bókaröð. Kyn, kynlíf og allt hitt var skrifuð og teiknuð eftir fjölda samtala við börn, foreldra, fjölskyldur og fagfólk. Okkar vinna verður enn gjöfulli við endurgjöf og við fögnum athugasemdum ykkar og spurningum. Takk fyrir að lesa! — CORY SILVERBERG, New York City i

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=