Kveikjur

96 Flest erum við að einhverju leyti veik fyrir gátum. Við fyllum í krossgátur, leggjum orðagátur fyrir hvert annað, reiknum stærðfræði- og verkfræðiþrautir. Eins og fram hefur komið erum við eins konar gangandi skilningsvélar sem erum alltaf að leita að þrautum og lausnum – alltaf að reikna út umhverfi okkar og sjá samhengið, bæði í orðum, tölum, táknum og myndum. Hér er til gamans stutt sakamálaþraut. Og ef þú passar þig ekki gætirðu rekist á vísanir í ævintýrið sem þú varst að enda við að lesa. Sakamálaþraut sem byggir á ævintýraforminu Farið hefur fé betra – sakamálaþraut Herkúles Hvalfjörð strauk á sér vel snyrt skeggið, hugsandi á svip. Þetta var allt hið undarlegasta mál. Jón Sæmundsson, dómari, hafði verið myrtur. Eiginlega fannst Herkúlesi svo sem ekkert skrýtið við það, þar sem dómarinn hafði verið afskaplega illa liðinn. Eiginlega hinn versti maður á allan hátt, hugsaði Herkúles með sér. Það var öllu fremur undarlegt að hann skyldi ekki hafa verið myrtur fyrr. En það sem Herkúlesi fannst furðulegt við þetta mál var það hvernig Jón Sæmundsson hafði verið myrtur. Hér er forvitni okkar vakin svo um munar! Hver er að segja þessa sögu? Og hvernig var Jón Sæmundsson myrtur? Og hver skírir barnið sitt Herkúles Hvalfjörð? Jón hafði menntast í Bretlandi og verið félagi í fremur fámennum karlaklúbbi í Reykjavík, sem var svona snobbklúbbur að enskum sið, þar sem menn sátu í hægindastólum, drukku viskí, reyktu góða vindla og lásu dagblöðin. Þannig hafði Jón einmitt fundist myrtur. Með hálft viskíglas við hlið sér, vindilstubb og dagblað yfir höfðinu og bringunni. Aðrir klúbbfélagar og þjónarnir höfðu talið að hann hefði einfaldlega sofnað út frá blaðinu eins og hann gerði svo oft. Loksins hafði þó einn þjónninn tekið eftir því að á dagblaði Jóns var gat, líkt og eftir byssukúlu. Jón Sæmundsson hafði verið skotinn. En Jón Sæmundsson hafði ekki aðeins verið skotinn. Það hafði einnig verið eitrað fyrir honum. Ekki bara einu sinni, heldur tvisvar. Banvænt eitur hafði fundist í viskíglasinu og önnur tegund af sterku, hægvirku eitri í matnum hans. Hafði morðinginn ætlað að hafa vaðið fyrir neðan sig og sjá til þess að Jón geispaði alveg örugglega golunni? Hér notar höfundurinn rólega uppbyggingu til að leiða lesendur áfram. Fyrst er gefið í skyn að Jón hafi sofnað, næst kemur fram að hann hafi verið skotinn, því næst að það hafi verið eitrað fyrir honum … og svo að það hafi ekki gerst einu sinni heldur tvisvar!

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=