Kveikjur

80 Markmiðið með kaflanum er að skilja hvernig ævintýri er byggt upp og hversu rótgróið það er í menningu okkar. 5. kafli Þrautir úti í mýri, álög inni í stýri (ha?) „Það er af Helgu að segja, að hún var alltaf látin vera sama olnbogabarnið, og auk þess voru systur hennar að gabba hana og stríða henni á því, að ekki ætti hún neinn kistilinn og aldrei mundi nokkur ærlegur maður verða svo heimskur að biðja hennar.“ Áður en þú dýfir þér í mýrina þar sem ævintýrið liggur í dvala ættirðu að staldra við svo þú áttir þig á að þú skilur þetta allt nú þegar. Þú veist um hvað ævintýri snúast og hvernig þau eru uppbyggð, alveg eins og þú veist hvernig dæmigert dægurlag hljómar. Ævintýri er einfaldlega ákveðið form af sögu. Það er yfirleitt dregið upp á mjög skýran hátt, upphafið er skýrt, atburðarásin er skýr, markmiðið er skýrt, boðskapurinn er skýr og endalokin eru mjög skýr, svo skýr að það er til sérstakur endir: Köttur úti í mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri. Eins og slaufa utan um fallegan pakka. Og af því að við þekkjum reglurnar í ævintýrunum svo vel er algengt að önnur listaverk, t.d. sögur og kvikmyndir, byggi á þeim. Reglurnar kallast ævintýraminni. Byrjum þessa vinnu á því, í sameiningu, að rifja reglurnar upp og skrásetja þær með bekknum. Ævintýraminni er það sem mörg ævintýri eiga sameiginlegt og hægt er að finna í langflestum þeirra.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=