Kveikjur

5 Gott að vita um Kveikjur Námið í þessari bók snýst um leik, sköpun, skynjun, söfnun og rannsóknarvinnu á tungu- málinu og samfélaginu. Það þýðir að í vetur býðst þér og bekkjarfélögunum að gera alls kyns æfingar sem snúast um leik og sköpun. Þið getið t.d. fengið það verkefni að búa til orðabók, sagnabók, nafnabók eða brandarabók bekkjarins og hver veit nema þið verðið fengin til að smíða ný orð til að bjarga íslenskri tungu frá glötun? Vissirðu til dæmis að orðin hormón- ingur, ungeskja, mannlamb og miðféti eru glæný orð í íslensku? Veistu hver bjó þau til? Hópur unglinga á þínum aldri! Þetta er mikilvægasta verkefni vetrarins – að þú leyfir þér að leika með tungumálið, snúa því á hvolf, hrista, rannsaka, rífa í sundur og byggja upp á nýtt – því tungumálið er bráðskemmtilegt byggingarefni sem býður upp á takmarkalausa möguleika. Hugleiðingar Í bókinni er að finna ýmislegt sem þú getur velt fyrir þér. Stundum eru það hugleiðingar, skýringar á hugtökum eða góðar ábendingar. Þarna má einnig finna ýmsar hugleiðingar sem henta vel til umræðna í bekknum. Við hvetjum þig eindregið til að nýta hvert slíkt tækifæri til að læra enn meira – og hafa gaman af að leika þér með málið ásamt bekkjarfélögum þínum! Málfræðimolar Hér og þar í bókinni eru samantektir um nokkra orðflokka þar sem koma fram helstu einkenni þeirra, hugleiðingar um eðli þeirra og virkni og dæmi um notkun. Kynntu þér þessa mola vel. Markmiðið með þeim er að þú fáir tilfinningu fyrir mismunandi hlutverki og virkni orða og eflist þannig í íslenskunni! Námsmat Námsmatið fer fram jafnt og þétt allan veturinn og til að auðvelda þér og kennaranum að meta stöðuna safnar þú stærri verkefnum í möppu. Góða skemmtun!

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=