Kveikjur

156 En hvað er ljóð? Þeir sem hafa reynt að skilgreina ljóð hafa flestir lent í nokkrum vandræðum. Er þetta til dæmis ljóð? Af hverju? Af hverju ekki? Einu sinni höfðu karlar og konur afar sterkar skoðanir á því hvernig ljóð ættu að vera, hvernig þau mættu vera, um hvað þau mættu fjalla og hvernig þau mættu vera uppsett. Þá var allt mjög formfast og niðurnjörvað í takt, stuðla og höfuðstafi, til dæmis svona: Mitt var starfið Mitt var starfið hér í heim heita og kalda daga að skeina krakka og kemba þeim og keppast við að staga. Eg þráði að leika lausu við sem lamb um grænan haga, en þeim eru ekki gefin grið, sem götin eiga að staga. … Theodora Thoroddsen En notkun á ljóðstöfum og rími var ekki aðeins til að skapa takt og kraft, heldur var hún einfaldlega nauðsynleg til að hægt væri að varðveita kveðskap manna og kynslóða á milli með því að muna hann. Þá var ekki hægt að vista skjal eða prenta út eða senda í tölvupósti – þá þurfti fólk einfaldlega að nota minnið til að geyma menningararfinn. Stuðlar, höfuðstafir, lengd ljóðlína og margt fleira skapar takt og reglu í hefðbundnum ljóðum, oft kölluð bundin ljóð, sem virkuðu sem hjálpartæki fyrir minnið. Hrynjandin skipti auðvitað líka máli varðandi sjálfan hljóm ljóðanna þegar þau voru lesin upp eða flutt – og þannig er það enn í dag að eyru okkar sperrast þegar við heyrum takt eða reglu í upplestri. Það er ekki langt síðan að óhugsandi þótti að tala um svona hefðbundin ljóð í sömu andrá og nútímaleg og formfrjáls ljóð, gjarnan kölluð óbundin ljóð. En um miðja síðustu öld fóru viðmiðin að breytast hratt, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Listamenn og ljóðskáld fóru að losa sig undan ýmsum hugmyndum sem þeir töldu hamla listsköpuninni og hinni skapandi hugsun. Þetta gerðist í öllum listgreinum og lagði grunninn að þeim veruleika sem við búum við í dag – að reglurnar eru nánast engar eða mjög óskýrar og á floti. Sumum finnst þetta gott en öðrum finnst þetta alveg ferlegt. Sumir líta á ljóð á mjög opnum og breiðum forsendum á meðan öðrum finnst ekkert eiga að heita ljóð nema það sé bundið í fast form, stuðla, höfuðstafi og rím. Hverju sem því líður er veruleikinn sá – núna – að það sem kallast „ljóð“ getur innihaldið mjög margt og fjölbreytilegt. Hér er enginn að segja að eitt sé betra en annað – heldur er þvert á móti gert ráð fyrir því að allur texti sem getur talist ljóð verðskuldi sömu meðferð; að hann geti innihaldið eitthvað nýtt, ferskt, djúpt og spennandi sem skiptir okkur máli. Án titils :-) Davíð Hörgdal Stefánsson

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=