Hugrún – Sögur og samræðuæfingar

57 – Þú ert svo vitlaus. Það er skylda að gera það sem er rétt að gera. Þú átt ekki þennan pening. Þú verður alla vega að gera tilraun til þess að finna eigandann. Heldurðu að maður hafi bara rétt til að eigna sér allt sem maður finnur? – Leiðindapúki, öskraði ég á hann, ég hefði aldrei átt að segja þér frá þessu. Aldrei þessu vant öskraði hann ekki á móti. Sallarólegur sagði hann: – Þú gerir auðvitað það sem þér sýnist. Ég vona bara að samviskan nagi ekki gat á þig. Svo fór hann bara út úr herberginu. Ég ætla aldrei að trúa honum fyrir neinu aftur. Við erum ekki vinir lengur. Ég reyndi að byrja að vinna heimavinnuna aftur en ég gat ekki hætt að hugsa um hvað bróðir minn hafði sagt. Ég held ég viti alveg hvað skylda er. Það er skylda að vera kurteis. Það er skylda að fara eftir skólareglum. Endalausar skyldur. Svo var hann eitthvað að tala um rétt líka. Einmitt það sem við Fúsi vorum að tala um þegar hjólinu hans var stolið. Ég róaðist við að velta þessu fyrir mér. Kannski var eitthvað til í þessu sem bróðir minn sagði. En það er samt erfitt að viðurkenna það. Ég ákvað að fara til Fúsa og tala um þetta við hann. Þegar ég var sest inn í herbergi hjá Fúsa sagði ég honum frá fundinum góða. Ég tók skýrt fram að þetta væri leyndarmál. Fúsi varð strax íbygginn á svipinn. – Á ég að segja þér fréttir? spurði hann. Gunna gamla í kjallaranum kíkti inn hérna í gærkvöldi. – Og hvað með það? spurði ég óþolinmóð. – Hún sagði mömmu frá því að hún hefði týnt fimm þúsund krónum. Hún var hálf miður sín og ég heyrði hana segja við mömmu að þetta væru miklir peningar fyrir gamla konu. – Ertu að meina þetta? sagði ég. Ég var ekki lengi að hugsa mig um. – Komdu með mér, sagði ég, förum að gleðja gamla konu. Við hlupum heim og náðum í skrjáfþurran fimm þúsund kallinn. Gunna gamla var heima og ég rétti fram fimm þúsund kallinn og sagði henni hvar ég hefði fundið hann. Gamla konan táraðist af gleði og faðmaði mig. Hún tautaði eitthvað um heiðarleika ungdómsins. Það voru nú öll fundarlaunin. Ég verð að játa að ég var nú að vonast eftir einhverju meiru. En samt. Ég velti því fyrir mér um kvöldið hvort ég hefði gert eitthvað í málinu ef bróðir minn hefði ekki messað yfir mér. Ég veit það bara hreinlega ekki. Ætli ég verði ekki að segja honum sólarsöguna og þakka honum fyrir að leiðbeina mér. En það er skrýtin tilfinning að vera bæði glöð og döpur á sama tíma. Ég er ekkert viss um að ég hafi rétt til að vera ánægð með sjálfa mig þótt ég hafi skilað fimm þúsund kallinum. Enn einn rétturinn. Þarf nú líka einhvern rétt til að líka vel við sjálfa(n) sig?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=