Hugrún – Sögur og samræðuæfingar

Heimspeki sögur 38 Það var verið að fjalla um sólina í skólanum í dag. Við fengum að sjá alveg magnaðar myndir af henni. Hingað til hef ég haldið að það væri satt að sólin sé gul en svo kemur í ljós að hún er bara alls ekki gul, hún er miklu frekar rauð. Ég hugsa með mér hvað fleira ég held að sé satt en er bara vitleysa. Kannski kemur næst í ljós að grasið er ekkert grænt og mjólk er óholl. Er það ekki óhugnanleg hugmynd að allt sem ég held í dag verði vitleysa á morgun? Gæti heimurinn verið að breytast í þá átt? Gæti verið að nútíminn væri farinn að ferðast hraðar og hraðar? Nú myndi örugglega enginn skilja hvað ég er að meina. Ég er ekki einu sinn viss um að ég skilji það sjálf. En er það ekki skemmtileg hugmynd að heimurinn sé allt í einu farinn að ganga miklu hraðar en hann gerði áður? Þá þurfa líka allir að hraða hugsuninni sinni jafn mikið og hraðinn á heiminum eykst. Ef þú gerir það ekki þá ertu allt í einu staddur í heimi sem þú þekkir alls ekki. Mér finnst gaman að hugsa um þetta. Ég er sjálf rólegheitamanneskja eins og afi minn orðar það. Ég skil ekki hvernig mér dettur svona vitleysa í hug. Af hverju ætti heimurinn að vera að breytast eitthvað hraðar núna en áður? Dagurinn er jafn langur og hann hefur alltaf verið. Hvað nákvæmlega breytist hraðar en það gerði áður? Mér dettur nú reyndar ýmislegt í hug en ég ætla að geyma mér að pæla í því. Ég er búin að hugsa nóg í dag. Ég fæ Fúsa í fótbolta með mér. Það er sól og hiti úti. Það besta sem mér finnst við fótbolta er að á meðan leikurinn er í gangi er hugurinn allur við hann. Ég held að það virki sem hvíld fyrir hugann. Við náðum að skipta í tvö fimm manna lið. Leikurinn hefst og allar hugsanir um heiminn hverfa. Tíminn og heimurinn Breytist þetta hratt eða hægt? Hvað af þessu breytist hugsanlega hraðar núna en áður? blóm sólin jörðin bílar tölvur fólk allur heimurinn

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=