Eitt líf - Kennsluleiðbeiningar

mms.is 9 KAFLI 1 STAÐALÍMYNDIR, SJÁLFSMYND OG UMHVERFI UPPLÝSINGAR FYRIR KENNARA ÁÐUR EN KENNSLA HEFST Kafli 1 fjallar um staðalmyndir sem er eitt af þeim atriðum sem geta mótað sjálfsmynd einstaklinga þar sem börn sem og fullorðnir nota oft á tíðum staðalmyndir til að finna sér stað og stöðu í lífinu. Staðalmyndir sjást á hinum ýmsu stöðum í samfélaginu, til að mynda í gegnum samfélagsmiðla og afþreyingarefni, það er því mikilvægt að hvetja nemendur til að nýta gagnrýna hugsun með því að setja spurningarmerki við þær staðalmyndir sem birtast þeim. Kaflinn fjallar að auki um sjálfsmynd okkar og að það umhverfi sem við ölumst upp í hefur áhrif á hver við erum sem og hegðun okkar hverju sinni. Við fæðumst ekki með fastmótaða sjálfsmynd heldur mótast hún alla ævi og tekur stöðugum breytingum. Hægt er því að hafa áhrif á sjálfsmyndina, móta hana og styrkja alla ævi. Unglingar með jákvæða sjálfsmynd eru að jafnaði meðvitaðri um hver þau eru, hvað skiptir þau máli og hverjir þeirra styrk- og veikleikar eru. Sjálfsmynd einstaklinga er brothætt á unglingsárunum því á þeim tíma eru unglingar að reyna að finna út hver þau eru og hver þau vilja vera. Þau fara að bera sig saman við aðra í mun meiri mæli. Það er því einstaklega mikilvægt að vinna með unglingum á þessum tíma og aðstoða þau við að sjá eigin styrkleika og átta sig á að engir tveir einstaklingar eru eins. Því öll erum við mismunandi í útliti, höfum ólíka styrkleika, ólíkar sögur/bakgrunn, mismunandi áhugamál og svo framvegis. Heimur þar sem öll blóm eru eins að útliti, lykt og lit væri fremur leiðigjarn heimur. Að sama skapi væri heimurinn fremur leiðigjarn og jafnvel fáránlegur ef allir einstaklingar væru eins. Af þeim sökum er mikilvægt að styðja unglinginn í að sjá verðmæti þess að vera einstakt blóm í blómabreiðunni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=