Ég, þú og við öll - Kennsluleiðbeiningar

Ég, þú og við öll – Kennsluleiðbeiningar – © 8946 Námsgagnastofnun 2014 2 Um námsefnið Þessu námsefni er ætlað að vera grundvöllur að umfjöllun og vinnu í tengslum við jafnréttismenntun í skólum. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 falla jafnréttismál undir samfélagsgreinar. Að auki er jafnrétti einn af sex grunnþáttum menntunar og á því að vera samofið öllu skólastarfi. Jafnrétti er því ekki fag sem er hægt að kenna einu sinni í viku heldur miklu frekar lífsmáti eða lífsstíll. Brýnt er að vera vakandi og nýta þau tækifæri sem gefast til umræðna og pælinga. Um leið og eitthvað kemur upp eða spurningar vakna þarf að ræða, svara, útskýra, leiðrétta misskilning, uppræta fordóma o.s.frv. Í efninu er talsvert fjallað um jafnrétti kynjanna. Þær aðferðir og hugtök sem nýtt eru til greiningar á kynjamisrétti eru líka vel nothæf til að öðlast skilning á annars konar misrétti. Jafnrétti og mannréttindi eru samofin og jafnréttismenntun er ein undirstaða lýðræðis og mannréttinda. Kynjafræði, jafnrétti og femínismi eru hugtök sem mikilvægt er að fjalla um. Með því er ekki verið að stilla upp einum hópi fólks gegn öðrum heldur er sóst eftir jöfnum rétti allra, öllum til góðs. Það getur vissulega verið erfitt fyrir forréttindahóp að gefa eftir af forréttindum sínum, jafnvel þótt sá hópur sé lítið sem ekkert meðvitaður um þau. Það er erfitt að horfast í augu við óréttlæti og enn erfiðara að horfast í augu við að maður er sjálfur hluti af því kerfi sem viðheldur óréttlætinu. Nemendabókin er hugsuð fyrir nemendur í efri bekkjum miðstigs. Með lestri bókarinnar er nemendum boðið í eins konar ferðalag þar sem þeir kynnast börnum og fólki frá ólíkum heimshornum. Á ferðalaginu safna nemendur ýmsum hugtökum í verkfærakistuna sína sem gagnast þeim í jafnréttisumræðunni og við samfélagsrýni. Í því sambandi gæti verið tilvalið að láta nemendur skrifa dagbók eða leiðarbók um námið/ferðalagið. Umfjöllunarefni nemendabókar mætti skipta í þrjá megin flokka: – Sagt frá ýmsum hetjum í baráttunni fyrir jafnrétti. – Reynslusögur barna um víða veröld, bæði sannar og skáldaðar. – Útskýringar á félagsfræðilegum hugtökum sem notuð eru til að skilja jafnréttismál. Þar sem bæði börnin og hetjurnar í bókinni koma frá mismunandi stöðum í heiminum er upplagt að hafa heimskort við höndina og skoða staðina sem fjallað er um í leiðinni. Þeir sem búa svo vel að hafa aðgang að tölvu og skjávarpa geta nýtt sér margmiðlunarefni við kennsluna. Í verkefnunum er oft hvatt til umræðna. Brýnt er að forðast að umræðan snúist um „okkur“ og „hina“ – þ.e.a.s. að gjá myndist milli „okkar“ sem höfum mannréttindi tryggð í lögum og „hinna“ sem búa við fátækt og erfiðar aðstæður. Þetta mætti t.d. gera með því að nýta „hvað ef“-sagnfræði („hvað ef“ Ísland væri einangrað og erfitt væri að fá hingað ýmsar vörur, hér væri herstjórn, hér kynni enginn að lesa, o.s.frv.) Í kjölfarið er mikilvægt að ræða um það hver raunveruleg birtingarmynd misréttisins, sem rætt er um hverju sinni, er hérlendis. Þótt misréttið sé ekki nákvæmlega eins og í sögunum má yfirleitt finna einhvers konar hliðstæður í íslensku samfélagi. Í þessum kennsluleiðbeiningum er ýmist stutt umfjöllun um hvern kafla nemendabókar eða nokkra skylda kafla. Síðan koma hugmyndir að verkefnum sem tengjast kaflanum eða köflunum þar sem reynt er að hafa fjölbreytni í fyrirrúmi. Loks er bent á heimildir sem tengjast efninu hverju sinni. Í möppunni Jafnrétti by Kolbrun Bjornsdottir á YouTube er að finna efni sem mætti bæði nýta við kennsluna og eins ítarefni sem gæti verið áhugavert fyrir kennarana sjálfa. Þeir sem hafa ekki aðgang að slíkum tækjabúnaði eða eiga ekki kost á niðurhlaði ættu að geta nýtt sér útprentanir, bækur, fjölmiðla o.fl. Í samvinnu við bókasafnsfræðing er hægt að velja bækur sem falla að umræðuefni námsbókarinnar, til að lesa fyrir nemendur eða mæla með við þá. Hafa ber í huga að í nemendahópnum gætu verið nemendur sem hafa upplifað réttindabrot á mjög áhrifaríkan hátt. Taka verður tillit til óska þeirra við vinnuna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=