Ég og sjálfsmyndin - kennsluleiðbeiningar

Ég og sjálfsmyndin – Kennsluleiðbeiningar | © Sigríður Steinunn Karlsdóttir | Menntamálastofnun 2022 | 2896 | 63 Að stunda kynlíf og ábyrgð í kynlífi Markmið: Að nemendur átti sig á mikilvæg þess að setja sér mörk í kynlífi og virða mörk annarra. Fróðleikur fyrir kennarann: Hvenær er rétt að byrja að stunda kynlíf? Mörg rök styðja það að betra sé fyrir einstaklinginn að bíða með að hafa kynmök þar sem það stuðli fremur að kynheilbrigði hans. Unglingur sem byrjar snemma (15 ára eða yngri) að hafa kynmök er ólíklegri að segja nei og setja mörk á hegðun annarra, á erfiðara með að vera ákveðinn og gera til dæmis kröfu um notkun smokks. Það er ákjósanlegra að kynnast sjálfum sér vel í gegnum kynþroskann og átta sig á hvaða þarfir og langanir maður hefur og svo hvaða mörk maður vill setja áður en farið er að stunda kynlíf með annarri manneskju. Gott kynheilbrigði varðar andlega og líkamlega heilsu ungmenna og skiptir gríðarlega miklu máli að finna öryggi í sjálfum sér og með öðrum áður en kynlíf er stundað. Umræðuefni: • Hvaða reglur gilda í kynlífi? • Hvað haldið þið að sé mikilvægast að gera þegar kemur að því að stunda heilbrigt kynlíf? • Hvað þýðir það að stunda kynlíf? Eru kossar hluti af kynlífi? En sjálfsfróun? • Er óheilbrigt að stunda sjálfsfróun? Má maður stunda sjálfsfróun með öðru fólki? En fyrir framan aðra? • Hvenær er fólk tilbúið til að stunda kynlíf? • Hvernig getum við sagt þeim sem vill stunda kynlíf með okkur, að við viljum það ekki? • Særum við aðra með því að segja nei takk? Ef að hinn aðilinn tekur því illa, hvað getum við gert? • Ef hinn aðilinn suðar áfram og reynir á mörk okkar, hvað getum við gert? Verkefni: Nafnlausi kassinn Kennari býr til hinn nafnlausa kassa og sýnir nemendum hann. Í hann mega þeir skrifa allar þær spurningar sem þeim dettur í hug sem tengjast kynlífi. Þeir skrifa niður spurningarnar, nafnlaust og ef kennari treystir sér til að draga miða úr kassanum og reyna eftir bestu getu að svara spurningum þeirra. Spurningum nemenda um kynlíf er best svarað með virðingu að leiðarljósi, bæði fyrir spyrjandanum og viðfangsefninu. Ef leiðbeinandinn sem stýrir umræðunni veit ekki svarið við tiltekinni spurningu er betra að játa fáfræði sína en að segja eitthvað sem gæti reynst rangt. Enginn er útlærður í þessum fræðum og engin skömm að því að hafa ekki öll svör í handraðanum. Hugtök útskýrð Þóknast: Að gera eins og aðrir vilja og taka þarfir annarra fram fyrir sínar eigin þarfir. Kynferðisleg reynsla: Reynsla sem fólk upplifir í tengslum við kynlíf. Kynvera: Að vera kynvera þýðir að vilja alúðlega snertingu og vera tilbúin/n að stunda kynlíf. Örvun: Hvatning, erting. Eitthvað sem espir upp. Nánd: Einlæg nálægð milli lífvera. Kynvitund: Tilfinning einstaklings fyrir kynferði sínu. Kynhegðun: Hegðun í kynferðismálum, það er hvernig þú kemur fram við aðra í kynlífi. Kyngervi: Kyngervi er hið félagslega mótaða kyn en ekki hið líffræðilega kyn.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=