Ég og sjálfsmyndin - kennsluleiðbeiningar

Ég og sjálfsmyndin – Kennsluleiðbeiningar | © Sigríður Steinunn Karlsdóttir | Menntamálastofnun 2022 | 2896 | 61 Líkamlegar breytingar og virðing Markmið: Að nemendur sjái líkamlegar breytingar kynþroskaskeiðsins. Fróðleikur fyrir kennarann: Líkamsvirðing er byltingarkennt hugtak sem vísar til þess að allir líkamar eigi jafnan rétt á virðingu og góðri umönnun. Það þýðir að við sýnum líkama okkar virðingu og gerum þá kröfu til umhverfisins að það sé komið vel fram við alla líkama óháð holdafari. Líkamsvirðing er andstæð ríkjandi hugmyndum um að grannir líkamar séu bestir eða að þéttvaxnir líkamar séu mistök sem þurfi að leiðrétta. Árið 1998 var gerð allsherjargreining á 222 rannsóknum á kynjamun á útliti og líkamsmynd. Niðurstöður voru þær að mikil aukning hefur orðið á tíðni slæmrar líkamsmyndar hjá konum á 50 árum. Líkamsmynd karla var almennt betri en líkamsímynd kvenna þótt tíðni slæmrar líkamsmyndar hafði einnig aukist hjá þeim. Önnur rannsókn sem framkvæmd var frá 1972 til 1997 sýndi að óánægja með útlit jókst yfir þetta tímabil, úr 23% upp í 56% hjá konum en úr 15% í 43% hjá karlmönnum. Rekja má slæma líkamsímynd ungs fólks að miklu leyti til þeirrar óhóflegu áherslu sem lögð er á grannan líkamsvöxt, hve ólíkt það útlit er raunverulegu útliti fólks og þeirra ókosta sem oft eru tengdir við feitari líkama. Þar sem fáir uppfylla skilyrðin um hinn eftirsóknarverða vöxt þá má segja að meirihluti fólks beri sig saman við útlit sem fæstir geta nokkurn tímann öðlast. Kveikja: Skoðið myndina á bls. 62. Veltið fyrir ykkur hvaða breytingar eru að eiga sér stað á þessum aldri. Umræðuefni: • Hverjar eru helstu breytingarnar sem verða á líkamanum við kynþroskaskeiðið? • Af hverju ætli líkaminn sé að breytast á þessum aldri? Allt hefur þetta hlutverk og ef við skoðum líffræðilegan og náttúrulegan ásetning, þá er þetta ef til vill ekki eins „vandræðalegt“ og mörgum finnst það vera. Þetta ferli hefur allt ástæðu. Líkamar ykkar búa sig undir að geta eignast börn. Sumir kjósa að eignast börn en aðrir vilja alls ekki eiga börn í framtíðinni. Svo eru sumir sem eiga í erfiðleikum með að eignast börn og glíma við ófrjósemi. Kveikja: Líkamsvirðing Pressa frá samfélagsmiðlum um útlit. – Myndband á ensku. https://www.youtube.com/watch?v=z2T-Rh838GA Ekki vera þinn versti óvinur – Myndband á ensku um fólk sem er ekki ánægt með sjálft sig. https://www.youtube.com/watch?v=PPjeelgG9Cg Umræðuefni: • Þekkið þið orðið líkamsvirðing? Hvað felur orðið í sér? • Eruð þið sátt við líkama ykkar í dag? Mynduð þið vilja breyta einhverju við hann? Af hverju? • Hvernig getum við náð meiri sátt við líkamann? • Hvernig getum við undirbúið okkur andlega fyrir breytingar á líkama okkar í gegnum kynþroskaskeiðið? Hvaða tilfinningar fylgja breyttum líkama? Eruð þið glöð, hrædd, kvíðin, vandræðaleg, forvitin eða annað? • Allir líkamar eru jafngildir. Haldið þið að það sé meira tekið mark á ykkur ef samfélagið samþykkir líkama ykkar? Hvers vegna haldið þið að fólk fari í langt og strangt ferli til að breyta líkama sínum?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=