Ég og sjálfsmyndin - kennsluleiðbeiningar

Ég og sjálfsmyndin – Kennsluleiðbeiningar | © Sigríður Steinunn Karlsdóttir | Menntamálastofnun 2022 | 2896 | 26 Samskipti Markmið: Að nemendur skoði muninn á skráðum og óskráðum reglum samfélagsins og sjái hvernig hinar óskráðu reglur hafa mótandi áhrif á líf okkar. Fróðleikur fyrir kennarann: Hinar óskráðu reglur gætu verið útskýrðar sem venjur, hættir eða reglur í hversdeginum sem börnum er kennt á frá fæðingu. Dæmi um óskráðar reglur er t.d. að segja afsakið ef einstaklingur ropar eða að fara reglulega í sturtu. Óskráðar reglur geta verið mismunandi eftir fjölskyldum, staðsetningu, menningu og hópum. Það sem þykir dónaskapur í einu landi getur verið samþykkt í öðru. Viðbrögð við brotum á óskráðum reglum gætu verið útskúfun – hunsun – skammir – augngotur og önnur líkamstjáning sem gefur skýr skilaboð um að þessi hegðun er óviðeigandi. Samfélagið mótar óskráðar reglur með tíð og tíma og er alltaf einhvers konar þróun á hefðum í gangi. Við notum til dæmis réttarkerfi í dag en áður fyrr var það sá sterkasti sem hafði síðasta orðið. Annað dæmi um breytingu á óskráðum reglum á löngu tímabili er að það mátti ekki spila á föstudaginn langa eða horfa á sjónvarp en nú er það bann ekki lengur í hávegum haft. Viðbrögð við brotum á óskráðum reglum gætu verið augngotur, skammir, útskúfun eða hunsun. Kveikja: Skoðaðu myndina á bls. 23 þar sem stúlkan brýtur hinar óskráðu reglur í fjórgang. Umræðuefni: • Hvaða óskráðu reglur er stúlkan á myndinni að brjóta? • Hvað gerist þegar maður brýtur óskráðar reglur? • Hvers vegna haldið þið að þessar óskráðu reglur hafi myndast? • Getum við talað um óviðeigandi hegðun í þessu samhengi? En hvað með þá hegðun sem getur talist óviðeigandi en skaðar ekki aðra eins og til dæmis að mæta með úfið hár og í sitthvorum sokknum í skólann eða með nærbuxurnar utan yfir buxurnar? • Er í lagi að brjóta staðlaðar, óskráðar reglur ef maður skaðar ekki neinn? • Að syngja hátt í strætó er ekki brot á lögum. En hvaða áhrif hefur það á aðra? Hvort eiga þeir sem hlusta í strætó að sýna umburðarlyndi og segja ekki neitt eða að setja mörk? Hvað finnst ykkur? • Hvenær erum við að gera það sem við viljum og hvenær erum við að ganga yfir mörk annarra? • Óskráðu reglurnar eru yfirleitt þær reglur sem fólk setur því það hefur áhrif á aðra en einstaklinginn. Hver er refsingin við að brjóta óskráðar reglur? Verkefni – Óviðeigandi Skráið niður það sem ykkur finnst vera óviðeigandi hegðun eða brot á óskráðum reglum niður á blað. Allt sem ykkur dettur í hug. Búið saman til hugarkort á töflunni ásamt umræðum – eru aðrir sammála um að þetta sé óviðeigandi hegðun?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=