Skapandi skóli

79 TÆKNI OG TJÁNING : SKAPANDI SKÓLI Hljóðefni Fréttir, þættir, viðtöl og spjall Nemendur geta spreytt sig á gerð útvarpsfrétta eða útvarpsþátta með viðtölum og spjalli um áhugaverð efni sem þeir velja sjálfir. Ótal efnissvið koma til greina. Einnig mætti taka fyrir viðfangsefni tengd námsefni í skólanum og bjóða nemendum upp á vel valda kosti. Nemendur gætu byrjað á að rýna í dagskrár hljóðvarps og hlýtt á brot úr þáttum heima fyrir. Í skólanum mætti taka fyrir valinn þátt eða hluta úr þætti af neti, hlýða á hann saman og stöðva þáttinn öðru hverju til að ræða efnistök og aðferð þáttarstjórnanda. Nemendur ættu að ræða vandlega val sitt á efni og þáttarsniði, hlut tónlistar í þættinum sem búa á til, mögulegt stef þáttarins, hvað mætti taka fyrir og hvernig. Gestir geta verið nemendur sjálfir, nemendur í hlutverki annarra eða fólk utan skólaveggja. Atriði eins og kynjahlutföll, málfar og formlegheit má ræða, stíganda í þættinum, ris og niðurlag, kynningu á umsjónarmönnum og gestum, áhugakveikjur, hljóðlaus samskipti samtarfsmanna í þættinum, framígrip og fleira í þeim dúr. Gera má tilraunir með raddstyrk, framsögn, tónfall og talhraða áður en lagt er í upptökur á þættinum sjálfum. Áhugavert gæti líka verið að ná tali af raunverulegum þáttastjórnanda við einhverja útvarpsstöðina og forvitnast um vinnulag við þáttagerð. Ef nemendur vinna að þáttagerð í mörgum smærri hópum mætti koma sér saman um fjölbreytta dagskrá með þáttum af ýmsu tagi. Hljóðskjölunum má safna saman og dreifa með ýmsu móti. Viðráðanleg verkefni í aðdraganda svona vinnu gætu falist í að búa til eina frétt um einfalt efni, velja lítinn lagbút í þáttarstef, semja stutta útvarpsauglýsingu eða taka viðtal að hætti blaðamanna við vel valinn viðmælanda. Ef leggja á áherslu á ljóð eða tónlist tengda námsefni í skólanum mætti líka biðja nemendur að setja saman stuttan þátt með einföldu sniði, úrvali ljóða eða laga, stuttum kynningum á milli ljóða eða laga og jafnvel kveðjum til hlustenda! Upplestur, leiklestur og leikhljóð Hljóðupptökur geta verið gagnlegar þegar beina á athygli að leshraða, hikum við lesturinn, áherslum, tónfalli og framsögn. Kennari getur beðið nemendur að lesa ljóð og stutta texta inn á spjaldtölvu eða síma og hlýtt með þeim á afraksturinn eftir því sem tími og svigrúm leyfa. Hvetja þarf nemendur til að lesa og tala af þrótti og innlifun og fá þá til að greina mun á dauflegri og grípandi framsögn. Fyrir nemendur er að gott að æfa upplestur og þegar fram í sækir má gera tilraunir með fleira, hlutverk þular, leiklestur og jafnvel leikhljóð. Upptökum á ljóðum, skrýtlum, gátum, stuttum þjóðsögum eða öðru því um líku mætti safna saman og koma fyrir í skemmtilegri skjákynningu eða gagnvirku vefefni með textareitum og viðeigandi myndum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=